-Auglýsing-

Öryggi í heilbrigðisþjónustu

Elsa_B_Frifinnsdttir_2Elsa B. Friðfinnsdóttirformaður félags hjúkrunarfræðinga ritar eftirfarandi grein um öryggi sjúklinga í Morgunblaðinu í dag.
Í LIÐINNI viku var nokkuð rætt um öryggi í heilbrigðisþjónustu í kjölfar harðorðrar ályktunar Sjúkraliðafélags Íslands. Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknar lýstu áhyggjum sínum af því að lokun 130 rúma af 690 á Landspítala í þrjá mánuði í sumar, kynni að ógna öryggi sjúklinga. Eins og alltaf áður þegar heilbrigðisstarfsmenn lýsa slíkum áhyggjum andmæla stjórnendur Landspítalans starfsmönnum sínum. Það gerir landlæknir einnig og bendir á að tölur um dánartíðni, mistök í starfi og alvarlegar aukaverkanir meðferða sýni ekki að öryggi sjúklinga sé ógnað. Heilbrigðisráðherra blessar svo ástandið með tilvísan til orða landlæknis. En eru þá hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn að mála skrattann á veginn?

Eru þeir að ýkja, að hræða sjúklinga og aðstandendur þeirra? Nei, því fer fjarri. Tölur á blaði geta sagt eitt en faglegt mat og innsæi reyndra hjúkrunarfræðinga og annarra segja annað. Tökum sem dæmi ástand sem getur skapast á legudeild Landspítalans í sumar þegar rúmum hefur verið fækkað úr 690 í 560 og þeir sjúklingar sem fá að liggja á spítalanum verða aðeins þeir allra veikustu. Á næturvakt á 20 rúma legudeild eru tveir hjúkrunarfræðingar ábyrgir fyrir hjúkrun þessara bráðveiku sjúklinga. Þó að fleiri heilbrigðisstarfsmenn séu að sjálfsögðu einnig á vaktinni eru margir þættir hjúkrunarinnar þess eðlis að einungis hjúkrunarfræðingar hafa faglega þekkingu til að leysa þá. Ef ástands sjúklings versnar mjög við þessar aðstæður eru tvær leiðir færar, annaðhvort að flytja hann á gjörgæsludeildina sem er dýrasta meðferðarúrræðið og þar er jafnvel ekkert laust pláss, eða að annar hjúkrunarfræðingurinn sinni einungis viðkomandi sjúklingi alla nóttina. Þá þarf hinn hjúkrunarfræðingurinn að bera ábyrgð á hjúkrun 19 bráðveikra sjúklinga.

Það er t.d. við slíkar aðstæður sem hjúkrunarfræðingum finnst öryggi sjúklinga ógnað. Vonandi mun enginn deyja og enginn alvarleg mistök verða gerð. Tölurnar munu því segja að allt sé í himnalagi, en finnst þessum 19 alvarlega veiku sjúklingum og aðstandendum þeirra að öryggi sjúklinganna sé tryggt við þessar aðstæður? Ég hvet stjórnendur Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana til að virða faglegt mat starfsmanna þegar öryggi sjúklinga er annars vegar. Siðareglur heilbrigðisstétta leggja þeim almennt þær skyldur á herðar að tilkynna viðeigandi aðilum ef þeir telja öryggi skjólstæðinga stefnt í hættu. Ég hvet einnig landlækni og heilbrigðisráðherra til að bregðast á jákvæðan hátt við faglegu mati og ábendingum heilbrigðisstarfsmanna, jafnvel þó að tölur segi hugsanlega annað.

-Auglýsing-

Höfundur er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Morgunblaðið 29.03.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-