Nýtt hjartaþræðingartæki var tekið í notkun á hjartaþræðingardeild á Landspítala Hringbraut föstudaginn 13. september 2019.
Hjartaþræðingar hafa síðan árið 2008 verið á tveimur stofum á Landdspítala, sú þriðja er aðallega notuð fyrir raflífeðlisfræðilegar rannsóknir og meðferðir, ígræðslur gangráða og fleira. Nýr tækjabúnaður á hjartaþræðingastofum hefur það í för með sér að gæði rannsókna aukast vegna betri mynda og annarra tækninýjunga auk þess sem samhæfing alls búnaðar gerir vinnu mun léttari en áður var.
Nýja hjartaþræðingartækið heitir Alphenix og er framleitt af Canon sem er eitt af leiðandi fyrirtækjum í heiminum í framleiðslu myndgreiningarbúnaðar. Tæki frá sama framleiðanda er í næstu stofu við hliðina og hefur reynst vel frá því það var sett upp árið 2016.
Til að mæla þrýsting í æðum var keypt kerfi sem heitir QMAPP og er framleitt af Fysicon sem er undir hatti Canon. Kerfið, eins og hjartaþræðingatækið, leysir af hólmi kerfi sem sett var upp árið 2008. Innanæðaómtæki á stofunni var einnig endurnýjað.
Verið er að endurnýja tæki sem var tekið í notkun í desember 2008 og var því orðið 11 ára gamalt. Þetta er þriðja tækið sem tekið er í notkun á síðustu fimm árum. Deildin hefur því yfir að ráða þremur fullkomnum þræðingartækjum sem ekkert er eldra en fimm ára og bætir það gæði og öryggi sjúklinga og starfsmanna.
Nýja tækið á eftir að nýtast vel við fjölþætt inngrip svo sem kransæðaþræðingar, kransæðavíkkanir, ísetningar á ósæðarlokum og einnig við ísetningu gangráða og bjargráða.
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur styrkir kaupin á tækinu en sjóðurinn hefur reynst hjartadeildum á Landspítala öflugur bakhjarl undanfarin ár, ekki síst við kaup á dýrari tækjum. Jónína var eiginkona Pálma Jónssonar sem kenndur var við Hagkaup.