Hjartasjúkdómar eru stærsti orsakavaldur örorku og dauðsfalla í heiminum og fer vandinn ört vaxandi. Hjartasjúkdómar fella fleiri á hverju ári en nokkrar aðrar orsakir en 17, 3 milljónir manna létust árið 2008, þar af 3 milljónir áður en þeir náðu sextíu ára aldri. Árið 2030 er búist við því að árleg dauðsföll vegna hjartasjúkdóma í heiminum hafi náð nærri 25 milljónum (WHO, 2001; WHO, 2011a).
Með framförum í læknavísindum og aukinni þjónustu í heilbrigðiskerfinu hafa meðferðarúrræði við hjartasjúkdómum þróast og batnað og þó margir láti lífið þá lifa fleiri og fleiri það af að veikjast. Að viðbættum auknum aldri og fólksfjölgun er það því gríðarlegur og sístækkandi hópur fólks sem þarf að finna leið til að lifa með sjúkdómi sínum og ástandi í sífellt fleiri ár (WHO, 2011a).
Fjöldi þeirra sem þjáist af hjartasjúkdómum er misjafn milli landa og menningarheima en það er alltaf stór hluti samfélagsins sem þjáist, minnsti hlutinn og minnkandi eru tekjumeiri hópar og lönd og stærsti hlutinn og stækkandi eru tekjuminni hópar og lönd. Það fólk sem býr við erfiðari félagslegar og fjárhagslegar aðstæður veikist fyrr á lífsleiðinni og deyr yngra en þeir sem búa við betri skilyrði (WHO, 2010).
Þrátt fyrir miklar framfarir í heilbrigðiskerfi og ýmsar samfélagslegar aðgerðir til að berjast gegn hjartasjúkdómum þá eru þeir einfaldlega ennþá alltof algengir, jafnvel í hátekju löndum og ríkari samfélögum þar sem úrræðin eru meiri og betri. Árið 2009 greindust til að mynda 45.000 ný tilfelli hjartasjúkdóma í Danmörku og lifðu þá 420.000 danir með hjartasjúkdóm og afleiðingar sem skerða líf og lífsgæði. Þá var einnig áætlað að árið 2020 myndi sú tala vera komin í 480.000 (Koch, Davidsen, & Juel, 2011).
Hjartasjúkdómar eru hluti af alltof löngum lista krónískra sjúkdóma sem samkvæmt skilgreiningu eru langvarandi og flokkaðir sem sjúkdómar sem ekki smitast, geta því ekki borist á milli manna (NCD / Non-communicable diseases). Meðal þessara sjúkdóma eru auk hjartasjúkdóma til dæmis sjálfsofnæmissjúkdómar, heilablóðföll, ýmsar tegundir krabbameins, öndunarfærasjúkdómar, nýrna sjúkdómar og sykursýki. Saman valda þeir 63% allra dauðsfalla í heiminum en þar af taka hjartasjúkdómar stærsta tollinn eða um helming allra dauðsfallanna. Það er hins vegar ekki einungis dauði og hörmuleg áhrif á heilsu sem þessir sjúkdómar eiga sameiginlegt, heldur einnig það að hægt er að miklu leyti að koma í veg fyrir þróun þessara sjúkdóma þar sem þeir orsakast að miklu leyti af þáttum sem hægt er að hafa áhrif á. Sá máti sem fólk lifir lífi sínu hefur gríðarleg áhrif á þessa sjúkdóma enda hafa þeir oft verið kallaði lífsstílssjúkdómar (Thirlaway & Upton, 2009; WHO, 2011a).
Hjá 80% af öllum þeim 17,3 milljónum manna sem dóu úr hjartasjúkdómum í heiminum árið 2008, mátti rekja orsökina til lífsstíls þeirra (WHO, 2010).
Að sjálfssögðu eru einnig aðrir áhrifaþættir sem stuðla að þróun sjúkdóma eins og hár aldur, kyn, þjóðerni og erfðafræðilegir þættir en þar sem erfitt er að hafa áhrif á aldur eða þau gen sem við erfum þá berjumst við gegn þeim áhrifaþáttum sem við getum haft stjórn á. Við berjumst í gegnum lífsstíl.
Alþjóðlega er barist með samfélagslegum aðferðum eins og menntun og fræðslu, reglugerðum og inngripum sem ætlað er að bæta lífsvenjur fólks. Á persónulegu plani er þó mikil vöntun á upplýsingum, leiðbeiningu og hvatningu til breyttra lífshátta (WHO, 2011a; WHO, 2010).
Það er almenn vitneskja að það hvernig við lifum lífum okkar hefur áhrif á heilsu okkar. Við vitum að það getur skipt sköpum fyrir framtíð okkar að lifa heilbrigðu lífi. Undanfarna áratugi hafa vísindin fært okkur stóraukna þekkingu á nákvæmlega hvað það er sem skaðar heilsu okkar og hvað ekki. Hvers vegna og hvernig gott sé að lifa. Samt fer lífsstíl hrakandi á alþjóðavettvangi og aldrei hafa jafn margir þjáðst af lífsstílssjúkdómum (WHO, 2011a).
Sýnt hefur verið fram á að stærstu orsakavaldarnir í þróun hjartasjúkdóma eru fjórar lífsstílshegðanir; óhollt mataræði, skortur á hreyfingu, notkun tóbaks og skaðleg notkun áfengis. Þessar fjórar lífsstílshegðanir valda meðal annars ofþyngd og offitu, hækkun á blóðþrýstingi, hækkun á blóðsykri (sykursýki) og hækkunar á blóðfitu (kólesteról) sem eru þættir sem allir eru sérstaklega slæmir fyrir hjartað (Christensen, et al., 2009; WHO, 2011a).
Óhollt mataræði
Í nútíma samfélagi búa margir við gríðarlegt úrval ferskrar matvöru allsstaðar að úr heiminum. Árstíð ferskra tómata og epla er nú allar árstíðir þar sem matvara er flutt heimshorna á milli eftir pöntun. Framboð hollrar fæðu er mikið og aðgangur auðveldur. Aðgangur að óhollustu hefur hins vegar einnig orðið auðveldari. Fólk um allan heim borðar í auknu mæli óhollan og orkuríkan mat sem hefur hátt fituhlutfall, salt og sykur en minna af næringarefnum og hollustu. Skyndibiti og unnin matvara er farin að taka of mikið pláss á matardiskum fólks og drykkir framreiddir með kolsýru, sykri og tilbúnum efnum í stað þess að drukkið sé einfalt og gott vatn. Fólk innbyrgir alltof mikið af mat sem hefur slæm áhrif á heilsu og veldur stóraukinni hættu á hjartasjúkdómum (Thirlaway & Upton, 2009).
Óhollar matarvenjur eru einn stærsti áhrifavaldur óeðlilegrar fitusöfnunar og því sem samkvæmt mælingum á BMI stuðli flokkast sem ofþyngd og offita. Í heiminum er vandi offitu mjög alvarlegur og fer stækkandi. Fjöldi þess fólks sem er of feitt hefur tvöfaldast síðustu 30 árin en árið 2008 voru um 1.5 billjónir fullorðinna einstaklinga með BMI stuðul sem skilgreinist sem ofþyngd eða offita ásamt 43 milljónum barna undir 5 ára aldri. Það árið dóu 2.8 milljónir manna úr offitu (WHO, 2011b). Eftir því sem fólk mælist með hærri BMI stuðul, því meiri verður áhættan á hjartasjúkdómum (WHO, 2010).
Sá matur sem við borðum hefur bein áhrif á hjartað. Tengsl sem kannski verða einna skýrust í hinu svokallaða ”Merry Christmas Coronary” fyrirbæri, sem myndi útleggjast á íslensku sem ”Jólahátíðar kransæðar” og ”Happy New Year Heart Attack” eða ”Nýárs hjartaáfall” (Kloner, 2004). Staðreyndin er sú að þegar gert er ráð fyrir öðrum áhrifavöldum þá er dánartíðni vegna hjartaáfalla hærri um jól og nýár en á öðrum tímum ársins og stærsta orsökin talin vera sá matur sem fólk borðar á þessum árstíma í sínum stóru skömmtum, tíðum máltíðum og með öllu því góðgæti sem fólk leyfir sér að borða á þessum hátíðardögum en annars ekki (Phillips, Abram, Jarvinen, & Phillips, 2004).
Skortur á hreyfingu
Eftir því sem tækni nútímans færir okkur fleiri tækniundur til að létta okkur lífið og spara okkur sportin, lifum við mannfólkið í sí aukinni kyrrsetu. Aðeins um 15% manna í heiminum eru mjög líkamlega virkir, tæplega helmingur íbúa hátekjulanda hreyfa sig nægjanlega og um fjórðungur íbúa lágtekjulanda (WHO, 2011c). Skortur á hreyfingu eykur hættu á dauðsföllum um 20–30% ásamt því að valda auknum tilfellum af heilablóðföllum, háþrýstingi, hækkuðu kólestróli, hefur áhrif á myndun blóðtappa, heilbrigði æðakerfis og er mikill áhrifavaldur á fitusöfnun (WHO, 2010).
Ef tvær miðaldra konur eru bornar saman þar sem önnur þeirra hreyfir sig minna en klukkutíma á viku en hin stundar reglulega hreyfingu, þá eru líkur þeirrar sem minna hreyfir sig tvöfaldar miðað við hina á því að deyja af hjartatengdum orsökum. Regluleg og góð hreyfing getur jafnvel dregið úr áhrifum annara áhættuþátta þannig að ef einstaklingur hefur fleiri áhættuþætti en hreyfir sig nægjanlega þá getur ávinningur hreyfingarinnar dregið út líkunum á hjartasjúkdómi og niðurfyrir líkur þess sem ekki hreyfir sig en hefur þó enga aðra áhættuþætti (Gersh, 2000; WHO, 2011a). Hreying er grundvallar þáttur heilsu og uppbygginar lífsgæða.
Notkun tóbaks
Tóbak er aðgengilegasta skaðlega varan á markaðinum og hana er hægt að nálgast í mörgum mismunandi formum. Algengasta formið er að reykja venjulegar sígarettur en í dag eru 1 billjón reykingarmanna í heiminum sem reykja um 6 trilljón sígarettur á hverju ári. Þá eru einnig reyklausar leiðir til að nota tóbak eins og að taka í vörina og í nefið ásamt fleiri menningarbundnum notkunarleiðum sem eru margar og mismunandi milli staða. Hver sem leiðin er til að nota tóbak, þá er notkun þess alltaf skaðleg heilsu og eykur verulega líkurnar á hjartasjúkdómum. Reykingar eru lang stærsti áhættuþáttur hjartasjúkdóma og það að hætta það besta sem hægt er að gera fyrir heilsuna (WHO, 2010).
Reykingar valda því að blóðstorknun verður meiri í blóðinu en það veldur hindrunum á blóðflæði í æðum. Þær auka blóðþrýsing og hjartslátt, lækka hlutfall góðs kólestróls til móts við hið slæma og þær minnka magn þess súrefnis sem blóðið getur flutt til hjartans og annara líkamshluta. Á meðan reykt er, dregst ummál æða tímabundið saman og minnkar getu kerfisins til að bera nægjanlegt súrefni til hjartans. Ef veggir æðanna eru svo fyrir þaktir fitu og þrengingar eru í æðum (vegna t.d. of hás kólesteróls, sem reykingar hafa einmitt áhrif á), þá getur þessi tímabundni samdráttur á ummáli æðanna dugað til að svifta hjartað nægjanlega miklu blóði og súrefni til að valda hjartaáfalli (Gersh, 2000). Reykingar einar eru taldar valda 10% allra dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma án áhrifa frá öðrum þáttum og reykingafólk undir 40 ára er í fimmfalt meiri hættu á að fá hjartaáfall en þeir sem ekki reykja. Notkun tóbaks (reykt eða ekki reykt, beint eða óbeint) drepur um 6 milljónir manna árlega í heiminum, tala sem áætlað er að verði komin í 8 milljónir á árinu 2030, þar af munu 17% deyja úr hjartasjúkdómum (WHO, 2010; WHO, 2011a).
Skaðleg notkun áfengis
Fólk tengir neyslu áfengis við mismunandi hluti, margir við mat, aðrir við partý og enn aðrir við slæma eigin reynslu eða annara. Neysla áfengis hefur mikil áhrif á heilsu og er talin vera valdur 4% allra sjúkdóma og 3,2% dauðsfalla í heiminum (WHO, 2002). Rannsóknir framkvæmdar í hátekjulöndum sýna að neysla áfengis (aðallega rauðvíns) geti haft verndandi áhrif gegn hjartasjúkdómum. Þetta á hins vegar að mestu við um þá sem drekka reglulega en alltaf lítið (≤ 2 drykkir á dag). Sambandið milli áfengis og hjartasjúkdóma er flókið þar sem lítið magn getur verndað gegn sjúkdómum en meira magn er skaðlegt, ólíkt reykingum sem alltaf eru skaðlegar óháð magni (WHO, 2010; Criqui, 1996).
Rannsakendur hafa ekki getað sammælst um hversu mikil neysla áfengis sé skaðlaus fyrir hjartað, sumar rannsóknir sýna áframhaldandi verndunaráhrif neyslunnar upp í allt að 4 til 5 drykki á meðan aðrar rannsóknir sýna missi þessarar verndunaráhrifa eftir fyrsta drykk. Það hefur því ekki reynst mögulegt að halda því fram fullum fetum að nokkurt magn áfengis sé skaðlaust fyrir hjartað og mikilvægi ábyrgra drykkjuhátta því skýrt. Skaðlega neysla áfengis er beintengd við og eykur hættu á hjartasjúkdómum (Criqui, 1996; Thirlaway & Upton, 2009; WHO, 2011a).
Mikil viðvarandi áfengisneysla getur hækkað blóðþrýsting, aukið líkur á heilsablóðföllum ásamt því að valda áfengistengdum hjartavöðvasjúkdómi (alcoholic cardiomyopathy) sem stækkar hjartað og veikir getu þess til að draga sig saman. Þessi áhrif áfengis valda skemmdum í vöðvanum sem geta verið allt frá einkennalausum frávikum einungis greinanlegum í mælingum til mjög alvarlegrar hjartabilunar og hárrar dánartíðni (Klatsky, 2007). Þó áfengistengdur hjartavöðvasjúkdómur hafi verið staðfestur sem afleiðing mikillar drykkju, ásamt beinum eitrunaráhrifum á frumur hjartans, þá er miklvægt að hafa í huga að áfengisneysla í minni skömmtum getur einnig leitt til hjartasjúkdóma ef hún fer saman með öðrum áhættuþáttum og / eða erfðafræðilegum líkum á hjartasjúkdómi (Klatsky, 2007).
Staðreyndin er sú að hjartasjúkdómar orsakast að miklu leyti af þessum fjórum lífsstíls hegðunum, óhollu mataræði, ónógri hreyfingu, óhóflegri neyslu áfengis og notkunar tóbaks. Því fleiri áhættuþættir til staðar, því meiri hætta á veikindum. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni væri hægt að koma í veg fyrir þrjá af hverjum fjórum hjartasjúkdómum ef þessir áhættuþáttir væru útilokaðir (WHO, 2011d).
Það að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma hins vegar er einn hlutur, það að ráðast til atlögu gegn þróun þeirra eftir að veikindi hefjast er annar. Hjartasjúklingur sem gerir nægjanlegar breytingar á lífsstíl sínum eftir að hann veikist, með áherslu á þessar fjórar lífsstíls hegðanir, á mun meiri möguleika á því að lifa af, ná bata og koma í veg fyrir áframhaldandi þróun sjúkdómsins og síendurtekin veikindi. Stjórnun lífshátta er mikilvægur hluti þess að ná fyrri heilsu og að bæta lífsgæði sín (WHO, 2002; Zafari & Wenger, 1998).
Það hljómar sem ógnarstórt verkefni að breyta lífsháttum sínum en heilræðin varðandi þessar fjórar lífsstílshegðanir þó einföld. Ekki reykja, borðaðu hollan mat, vertu líkamlega virkur og njóttu áfengis í takmörkuðu magni (WHO, 2010). Hljómar einfalt og er svo sannarlega árangursríkt ef framkvæmt eins og ráðlagt er. Til að bæta enn á einfeldnina þá tengjast áhættuþættirnir þannig að það að breyta einum þeirra er líklegt til þess að hafa áhrif á annan. Það að auka smám saman hreyfingu sína hefur til dæmis lækkandi áhrif á blóðþrýsting, hjálpar við þyngdarstjórnun, hækkar magn góðs kólesteróls og hefur áhrif á áhugahvötina til þess að gera fleiri breytingar öðrum áhættuþáttum (Gersh, 2000).
Dánarlíkur lækka þegar dregur úr offitu og aðeins 10% lækkun á kólesteróli getur dregið úr hjartasjúkdómum um 20 til 50% (fer eftir áhrifum annara þátta eins og aldri og kyni) fyrstu 5 árin eftir upphaflegu hjartaveikindin (WHO, 2010). Það er mögnuð staðreynd að aðeins 150 mínútur á viku af meðal mikilli hreyfingu getur minnkað hættuna á áframhaldandi hjartasjúkdómum og heilablóðfalli um 30% ásamt því einnig að lækka sykurmagn í blóði, viðhalda jafnvægi á kólesteróli og lækka blóðþrýsting. Hreyfing hefur einnig góð áhrif á andlega heilsu og þyngdarstjórnun (WHO, 2011c).
Reykingamaður sem einnig hefur aðra áhættuþætti fyrir hjartasjúkdómi deyr 10-15 árum fyrr en sá sem ekki reykir en reykingamaður sem hættir að reykja þegar hann veikist er í 50% minni hættu á því að veikjast aftur á fyrsta árinu þegar miðað er við reykingamann sem ekki hættir að reykja við upphaf veikinda. Þrem til fjórum árum seinna eru líkur þess sem hætti að reykja við upphaf veikinda orðnar jafnar þeim sem aldrei reykti (Prasad, Kabir, Dash, & Das, 2009).
Niðurstaðan er einföld. Ef þú ert hjartasjúklingur þá er endurskoðun á lífsstílnum það besta sem þú getur gert fyrir líf þitt og fjölskyldu þinnar. Byrjaðu smátt, gerðu litlar en viðráðanlegar breytingar og útbúðu aðstæður þínar þannig að það sé auðvelt að framkvæmda þær. Hér á hjartalif.is verður smám saman bætt við efni þér til upplýsingar og stuðnings en einnig er hægt að sækja ráðgjöf hjá ráðgjafa hjartalífs til að fá aðstoð við breytinguna.
Reykjavík 4. nóvember 2012
Mjöll Jónsdóttir
Heimildir
Christensen, A. I., Severin, M., Holmberg, T., Eriksen, L., Toftager, M., Zachariassen, A., . . . Curtis, T. (2009). KRAM-undersøgelsen i tal og billeder. København: Ministeriet for Sundhed og Forebyggelse og TrygFonden.
Criqui, M. (1996). Alcohol and coronary heart disease: consistent relationship and public health implications. International Journal of Clinical Chemistry, 246:51-57.
Gersh, B. J. (2000). Mayo Clinic Heart Book (2 ed.). New York: Mayo Foundation for Medical Education and Research.
Klatsky, A. (2007). Alcohol, cardiovascular diseases and diabetes mellitus. Pharmacological Research, 55:237–247.
Kloner, R. (2004). The ”Merry Christmas Coronary” and ”Happy New Year Heart Attack” Phenomenon. Circulation, 110:3744-3745.
Koch, M., Davidsen, M., & Juel, K. (2011). Hjertekarsygdomme i Danmark forekomst og udvikling 2000-2009. København: Statens Institut for Folkesundhed, Syddansk Universitet.
Phillips, D., Abram, I., Jarvinen, J., & Phillips, R. (2004). Cardiac Mortality Is Higher Around Christmas and New Year’s Than at Any Other Time: The Holidays as a Risk Factor for Death. Circulation, 110:3781-3788.
Prasad, D., Kabir, Z., Dash, A., & Das, B. (2009). Smoking and cardiovascular health: A review of the epidemiology, pathogenesis, prevention and control of tobacco. Indian Journal of Medical Sciences, 63(11): 520-533. doi:10.4103/0019-5359.58884
Thirlaway, K., & Upton, D. (2009). The psychology of lifestyle – promoting healthy behavior. New York: Routledge.
WHO. (2001). World Health Organization. Retrieved from World Health Organization: http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs317/en/index.html
WHO. (2002). The world health report 2002. Reducing risks, promoting healthy life. Geneva: World Health Organization.
WHO. (2010). Global status report on noncommunicable diseases 2010. Geneva: World Health Organization.
WHO. (2011a). Global Atlas on cardiovascular disease prevention and control. Geneva: World Health Organization in collaboration with the World Heart Federation and the World Stroke Organization.
WHO. (2011b). Obesity and overweight. Retrieved from World Health Organization: http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs311/en/index.html
WHO. (2011c). Prevalence of insufficient physical activity. Retrieved from World Health Organization: http://www.who.int/gho/ncd/risk_factors/physical_activity_text/en/index.html
WHO. (2011d). 10 facts on noncommunicable diseases. Retrieved from World Health Organization: http://www.who.int/features/factfiles/noncommunicable_diseases/facts/en/index9.html
Zafari, A., & Wenger, N. (1998). Secondary prevention of coronary heart disease. Archives of Physical Medicine and Rehabilitation, 79(8), 1006–1017.