Auknar líkur eru á því að fólk með ákveðna tegund mígrenihöfuðverkja deyi af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Í niðurstöðum íslenskrar rannsóknar sem birt var í gær í vefútgáfu British Medical Journal (BMJ) kemur fram að fólk sem þjáist af mígreni með áru, en þá fylgja höfuðverknum sjón- eða skyntruflanir, sé í þessum áhættuhópi. Fólk með mígreni án áru er ekki í aukinni hættu.
Lárus Steinþór Guðmundsson, faraldsfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, sem leiddi rannsóknina, segir að í eldri rannsóknum hafi verið að finna vísbendingar um tengslin, en í þessari hafi í fyrsta sinn verið hægt að greina á milli mígrenis með og án áru. Rannsóknin marki því tímamót.
Næsta skref segir Lárus að svara spurningunni um hvað valdi tengingunni. „Við eigum eftir að svara spurningunni um hvort lyfjameðferð sem fækkar köstum mígrenis með áru dragi einnig úr líkum á hjartaáfalli og hjartasjúkdómum.”
Rannsóknin var á vegum Hjartaverndar og unnin í samvinnu við Háskóla Íslands, National Institute of Aging og Uniformed Services University of the Health Sciences í Bandaríkjunum. Í tilkynningu Hjartaverndar kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem niðurstöður hóprannsóknar með langtíma eftirfylgni sýni fram á þessi tengsl mígrenis með áru við hættuna á því að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum.
Lárus segir þó mikilvægt að niðurstöðurnar valdi ekki ótta að óþörfu því áhættan sem sýnt hafi verið fram á sé í raun lítil miðað við hefðbundna áhættuþætti. „Þarna er hins vegar komin enn ein ástæðan fyrir fólk að fylgjast með þessum lífsstílsáhættuþáttum,” segir hann og vísar meðal annars til reykinga og kólesterólsöfnunar.
Forsendu rannsóknarinnar segir Lárus vera hversu vel hafi verið staðið að rannsókn Hjartaverndar, en þar var mígreni með og án áru greint með spurningalista sem þátttakendur svöruðu á árunum 1967 til 1991. Þátttakendur voru 18.725 karlar og konur sem fædd voru á árunum 1907 til 1935. Meðaleftirfylgni var 26 ár, en Lárus segir að í rannsókn sem þessari sé 15 ára eftirfylgni lágmark.
Í tilkynningu Hjartaverndar segir að tímalengdin þýði að rannsóknin sé meðal umfangsmestu rannsókna sem gerðar hafi verið. Hún vakti enda strax heimsathygli við birtingu í gær. Um miðjan dag var Lárus þegar búinn að vera í viðtali við CBS News Radio, auk þess sem ýmsir fréttamiðlar á netinu höfðu sett sig í samband við hann.
www.visir.is 26.08.2010