Sigmundur Guðbjarnarson skrifar áhugaverðan pistil um að lyf geti valdið gleymsku og birtist pistillin fyrst á eyjunni.is. Sigmundur hefur starfað sem vísindamaður og háskólakennari í Bandaríkjunum (1961-1970), við Háskóla Íslands (1970-2001) og við SagaMedica-Heilsujurtir frá 2000.
Athyglisverðar rannsóknir voru gerðar í Frakklandi á áhrifum lyfja á minni og andlegt ástand hjá eldra fólki. Það eru mörg lyf sem geta skert minnið og er mjög mikilvægt að kanna hvort gleymska og minnistap geti stafað af aukaverkunum lyfja.
Í átta ár var nokkur hundruð manns gefin sérstök lyf, svonefnd „and-cholinerg lyf“. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að þeir sem fengu þessi lyf voru líklegri til að sýna merki um heilabilun, minnistap og skerta hæfileika til að sinna ýmsum almennum verkum án þess að vera með Alzheimers sjúkdóm. Rannsóknin var gerð á fólki sem ekki sýndi merki um heilabilun við upphaf rannsóknarinnar.
Lyfin hafa einkum áhrif á taugaboðefnið acetylcholin sem flytur boð milli tauga eða til vöðvafruma eða kirtla. Acetylcholin er mjög mikilvægt fyrir minnið en þetta taugaboðefni minnkar með aldrinum og eykst gleymska einnig með aldri m.a. vegna minnkandi styrks af acetylcholin í heila.
Lyf við Alzheimers sjúkdómi stuðla að því að auka magn acetylcholins með því að hindra niðurbrot taugaboðefnisins og bæta þannig minnið.
And-cholinerg áhrif lyfja felast hins vegar í því að hindra virkni taugaboðefnisins með því að koma í veg fyrir að acetylcholin tengist viðtaka á taugaenda og beri boðin áfram. Óæskilegar aukaverkanir slíkra lyfja geta þá verið aukin gleymska og skert minni.
Aldrað fólk finnur meira fyrir and-cholinerg áhrifum lyfja því acetylcholin styrkur í líkamanum minnkar með aldrinum og lyfin hindra þá hlutfallslega stærri hluta af virkni taugaboðefnisins. Með aldrinum minnkar einnig hæfileikinn til að nýta þetta skerta acetylcholin sem er fyrir hendi.
Þar sem minnistap og gleymska aukast með aldrinum er vert að huga að því hvort slíkt geti verið að hluta vegna vaxandi notkunar margskonar lyfja sem hafa þau áhrif að skerða minnið.
Aldrað fólk og ættingjar þeirra ættu að athuga þetta og leita frekari upplýsinga um lyfin og aukaverkanir þeirra. Fyrsta skrefið við athugun á aukinni gleymsku er að kanna aukaverkanir lyfja sem notuð eru. Vísindamenn hafa bent á að algengasta orsök á gleymsku og auknu minnistapi hjá eldra fólki séu aukaverkanir lyfja. Þegar fólk eldist er þeim hættara við aukaverkunum lyfja. Nýrun fjarlægja t.d. efnin ekki jafn hratt úr blóði og í yngra fólki, umbreyting lyfja og niðurbrot þeirra í lifrinni verður hægara og aukið hlutfall fitu miðað við vöðva eykur þann tíma sem þarf til að fjarlægja lyfið úr líkamanum.
Eldra fólk tekur yfirleitt mun fleiri lyf en yngra fólk og geta þessi lyf valdið aukinni gleymsku og minnistapi.
Þessi lyf eru t.d.
- bólgueyðandi lyf
- lyf við brjóstsviða
- kvíðastillandi lyf
- lyf við ofvirkri blöðru
Önnur lyf sem geta valdið aukinni gleymsku:
- lyf við hjartasjúkdómum
- háum blóðþrýstingi
- krabbameini
- verkjum
- ógleði
- ofnæmi o.fl.
Ef lyf veldur minnistapi er oft unnt að draga úr vandanum með því að skipta um lyf eða minnka lyfjaskammtinn en það verður að gera í samráði við lækninn. Einnig er unnt að forðast að taka mörg lyf sem hafa slík áhrif . Mikilvægt er að fólk ræði þetta við lækninn sinn sem endurmetur hvaða lyf eru nauðsynleg og hverju má sleppa.
Heimildir:
Hér er getið heimilda svo menn geti kynnt sér efnið betur.
Drugs with anticholinergic properties and cognitive performance in the elderly: results from the PAQUID Study. Lechvallier-Michel N, Moliard M, Dartigues JD, Fabrigoule C, Fourrier-Reglat A. Br. J. Clin. Pharmacol. 59:2; 143-151, 2004.
Central nervous system safety of anticholinergic drugs fo the treatment of overactive bladder in the elderly. Scheife R, Takeda M. Clin. Ther. 27: 144-153, 2005.
Oral anticholinergics in overactive bladder. Madersbacher H. Urologie A. 45: 830-834, 2006.
How do medications used to treat urinary incontinence affect the cerebral function of the elderly? Goepel M, Steinwachs KC. Urologie A. 46: 387-388, 390-392, 2007.
Antimuscarinics for the treatment of overactive bladder: a review of central nervous system effects. Kausner AP, Steers WD. Curr. Uro. Rep. : 441-447; 2007.
Birt með leyfi höfundar.