-Auglýsing-

Laus við svefnlyf !

iStock 000021671720XSmallSvefninn er okkur öllum gríðarlega mikilvægur og ekki síst þegar maður er að jafna sig eftir veikindi. Þetta var ég rækilega minntur á þegar ég byrjaði í endurhæfingu eftir að ég fékk hjartaáfallið í febrúar 2003, en þá varð ljóst að svefninn minn var í ólagi og miklu myndi skipta fyrir mig að hann kæmist í betra horf.

Ég hafði í mörg ár átt við svefnvandamál að stríða, stundum gekk mér illa að sofna og stundum vaknaði ég upp eftir tveggja tíma svefn og átti erfitt með að falla í svefn aftur. Ég hafði stundum hugsað um þetta og gert nokkrar tilraunir til að laga svefninn sem dugðu mér oft til skamms tíma en mér gekk erfiðlega að finna varanlega lausn.

-Auglýsing-

En eins og áður sagði þá var svefninn minn kortlagður í endurhæfingunni minni og ljóst að úrbóta var þörf. Ég hafði litla orku og lítið þurfti til svo ég legðist flatur svo illa var ég staddur. Var það niðurstaðan að ég fengi tvennskonar lyf til að hjálpa mér að sofa þannig að tryggt væri að ég fengi nú næga hvíld og þar með meiri lífsgæði. Annað lyfið átti að hjálpa mér að sofna og var stuttverkandi, en hitt átti að hægja á hausnum á mér og minnka líkurnar á því að ég hrykki upp um miðja nótt.

Það er skemmst frá því að segja að þessi lyf notaði ég í tíu ár samfleytt en á því tímabili þá breyttum við stundum um lyfjategundir ef áhrif lyfjanna fóru dvínandi að mínu mati og stundum var fiktað í skammtastærðum.

- Auglýsing-

Til að byrja með var þessi lausn mjög mikilvæg. Það var nauðsynlegt að ég fengi hvíld og ég þoldi illa allar tilraunir til að minnka lyfin. Ég varð samt meðvitaður um að til væru ýmsar leiðir til að prófa að laga svefninn, þar á meðal sérstök svefnnámskeið sem byggja á sálfræðimeðferð, en einhverra hluta vegna sóttist ég ekki eftir því, eða lagði ekki í það. Mér fannst líka aldrei vera sveigjanleiki í orkunni minni eða úthaldi til að takast á við slíkt verkefni.

Nú er það svo að þrátt fyrir svefnlyfjanotkun mína hefur svefninn síður en svo alltaf verið góður og því hefur þetta í rauninni oft verið barátta að ná góðum svefni þessi 10 ár.

Það gerðist hinsvegar fyrir rúmum mánuði síðan að mér stóð til boða að mæta á svefnnámskeið hjá Hauki Sigurðssyni sálfræðingi á Heilsustöðinni. Ég var tilbúinn og fagnaði þessu tækifæri til að víkka aðeins út sjóndeildarhring minn í svefnmálunum.
Í rauninni var ekki yfirlýst markmið námskeiðsins að losa mig við lyf en ef námskeiðið gæti hjálpað mér eitthvað með svefninn þá væri það frábært. Með öðrum orðum, það var einfaldlega lagt í mínar hendur að meta þetta.

Það er skemmst frá því að segja að á annarri viku námskeiðsins byrjaði ég að minnka svefnlyfjaskammtana mína markvisst. Það verður samt að segjast eins og er að ég var nokkuð kvíðinn fyrir þessu enda vanur því að allt fari á hliðina þegar fiktað er í svefninum mínum og ég jafnan mátt við litlu til að raska jafnvæginu. Þetta gekk samt og ég var ákveðinn í að reyna að nýta mér þennan meðbyr sem allra best.

Nú er námskeiðinu lokið og ég er í fyrsta skipti í 10 ár búinn að sofa algjörlega án lyfja í eina viku og get ekki sagt annað en að ég er mjög stoltur yfir því.

Fyrstu næturnar voru svolítið erfiðar og ég held persónulega að þar hafi kvíði verið að flækjast fyrir mér. Þetta er meiri breyting en mann órar fyrir að óreyndu. Svefninn hefur farið batnandi með hverri nóttu og ég hef nýtt mér tækin sem ég fékk í hendur á námskeiðinu til að hjálpa mér að sofna á kvöldin og eins til að hjálpa mér að sofna aftur ef ég vakna að nóttu.

Fyrir mann eins og mig sem tek að jafnaði um 24 til 28 töflur á dag þá er aldeilis frábært að geta fækkað um fjórar til fimm töflur á kvöldi/nóttu. Það verður því spennandi að sjá hvernig svefninn þróast hjá mér á næstu mánuðum en heil vika án svefnlyfja í fyrsta sinn í 10 ár finnst mér frábært fyrsta skref 🙂

Sofið vel!

Reykjavík 22.05.2013
Björn Ófeigsson
bjorn@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-