Ýmis tákn eru á lofti um að krabbamein séu að verða algengasta dánarorsök víða á Vesturlöndum, en lengst af hafa hjarta- og æðasjúkdómar verið þar efstir á blaði. Skýringin er fyrst og fremst sú að færri látast af völdum hjartasjúkdóma nú en áður, sem bæði er rakið til betri árangurs neyðarviðbragða við hjartaáföllum og heilsusamlegri lifnaðarhátta. Krabbamein hafa hins vegar staðið nokkuð í stað.
Í Bretlandi árið var krabbamein undirliggjandi dánarorsök í 29,6% dauðdaga, en hjarta- og æðasjúkdómar í 28,8%. Árið áður dóu hins vegar 32% úr hjarta- og æðasjúkdómum en 28,7% úr krabbameinum. Þessi þróun hefur átt sér stað undafarinn áratug, en dánartíðni af völdum hjartaáfalla í Bretlandi hefur helmingast á þeim tíma. Þar munar mestu um að lífslíkur þeirra sem fá hjartaáfall á miðjum aldri eru nú miklu meiru en í upphafi aldarinnar.
Miklar framfarir hafa einnig orðið í krabbameinslækningum, en þær hafa sóst hægar. Auknar lífslíkur hjartasjúklinga hafa og gert það að verkum að fleiri ná háum aldri en áður, en fyrir vikið ná fleiri að veikjast af krabbameinum.
Nokkur munur er á löndum innan Evrópu hvað dánarorsakir áhrærir og mismikill árangur hefur náðst í baráttunni við hina ýmsu sjúkdóma. Þannig hafa Norðurlönd náð verulegum árangri í baráttunni við hjartasjúkdóma, Þjóðverjar og Svíar eru öðrum fremri í viðureigninni við krabbamein. Lífslíkur eftir krabbameinsmeðferð eru þó enn töluvert lægri í Evrópu en Bandaríkjunum.
www.pressan.is 13.11.2012