-Auglýsing-

Karlar – hjarta og æðasjúkdómar

Það að vera karlmaður gerir þig líklegri til að fá hjartasjúkdóm á yngri árum eða um 10 árum fyrr en konur að meðaltali.

Þegar þú hugsar um hjartasjúkdóma hjá körlum er líklegt að þér detti fyrst í hug kransæðasjúkdómur -þrengingar í æðunum sem umlykja hjartað- en kransæðasjúkdómur er aðeins ein tegund af hjarta og æðasjúkdóm.

Hjarta- og æðasjúkdómar fela í sér fjölda sjúkdóma sem hafa áhrif á byggingu eða starfsemi hjartans. Þeir geta meðal annars verið:

-Auglýsing-
  • Kransæðasjúkdómur (þ.m.t. hjartaáfall)
  • Óeðlileg hjartsláttaróregla eða hjartsláttartruflanir
  • Hjartabilun
  • Hjartalokusjúkdómar
  • Meðfæddir hjartasjúkdómar
  • Hjartavöðvasjúkdómar (hjartavöðvakvilli)
  • Gollurshússjúkdómar
  • Æðasjúkdómar í ósæð og Marfan heilkenni
  • Æðasjúkdómar (sjúkdómar í bláðæðum)

Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta dánarorsök bæði karla og kvenna í hinum vestræna heimi. Það er mikilvægt að læra um hvernig hjartað vinnur og hvað ber að varast til að fyrirbyggja hjarta og æðasjúkdóma. Ef þú ert með hjartasjúkdóm getur þú lifað heilsusamlegra og virkara lífi með því að læra um sjúkdóminn og meðferðina og taka virkan þátt í umönnun þinni.

Hvernig eru áhættuþættir hjartasjúkdóma mismunandi fyrir karla?

Það að vera karlmaður gerir þig líklegri til að fá hjartasjúkdóm á yngri árum eða um 10 árum fyrr en konur að meðaltali. Bæði ristruflanir (ED) og lágt testósterón geta verið snemmkomin merki um hjartasjúkdóma hjá körlum. Talaðu við lækninn þinn um ristruflanir eða biðja um að mæla testósterón og hvort það gæti hugsanlega sagt um hjartaheilsu þína eða hvort tenging sé þar á milli.

Karlar eru einnig líklegri til að upplifa mikla streitu og reiði sem getur hækkað blóðþrýsting og magn streituhormóna sem aftur dregur úr blóðflæði til hjartans og eykur áhættu á hjartasjúkdómum. Reiði getur haft strax áhrif og þú ert næstum fimm sinnum líklegri til að fá hjartaáfall og þrisvar sinnum líklegri til að fá slag í tvær klukkustundir eftir reiðikast.

Einkenni hjartaáfalls eru oft mismunandi hjá körlum og konum. Karlar fá frekar brjóstverk, mæði og verki eða dofa í handleggjum -gjarnan vinstri-, baki eða hálsi. Konur finna frekar fyrir svima, ógleði, köldum svita, þreytu og brjóstsviða.

- Auglýsing-

Hvað er kransæðasjúkdómur?

Kransæðasjúkdómur (CAD) er æðakölkun sem veldur því að æðarnar verða stífari og þrengri og getur valdið vandræðum í æðunum sem veita hjartanu nauðsynlegt súrefni og næringarefni.

Hvað eru hjartsláttartruflanir?

Hjartað er ótrúlegt líffæri. Það slær með stöðugt jöfnum takti, um 60 til 100 sinnum á mínútu eða um 100.000 sinnum á dag. En stundum fer hjartað úr takti. Óreglulegur eða óeðlilegur hjartsláttur er kallaður hjartsláttartruflun eða hjartsláttaróregla. Truflanirnar geta falið í sér breytingu á taktinum sem framkallar ójafnan hjartslátt eða breytingu á hraða sem veldur mjög hægum eða mjög hröðum hjartslætti. Sem dæmi um nokkuð algenga truflun er gáttatif.

Hvað er hjartabilun?

Hugtakið „hjartabilun“ getur hljómað ógnvekjandi. Það þýðir ekki að hjartað hafi „bilað“ eða hætt að starfa. Það þýðir að hjartað dælir ekki eins vel og það ætti að gera.

Hjartabilun er eitt alvarlegt heilbrigðisvandamál í Bandaríkjunum sem hefur áhrif á næstum 5 milljónir manna. Þar eru 550.000 manns greindir með hjartabilun ár hvert. Þetta er helsta ástæða fyrir innlögnum á sjúkrahús hjá fólki sem er eldra en 65 ára.

Hvað eru hjartalokusjúkdómar?

Hjartalokurnar liggja við útgang hvers af fjórum hjartahólfum þínum og sjá um að viðhalda einstreymisblóðflæði um hjartað. Hjartalokusjúkdómar fela í sér vandamál þegar lokurnar verða lekar eða stífari.

Dæmi um hjartalokusjúkdóma eru meðal annars: Míturlokubunga eða ,,prólaps” en þá bungar fremri blaðka míturlokunna upp í vinstri gáttina, ósæðarlokuþrengsl sem eru algengasti hjartalokusjúkdómurinn á Vesturlöndum og þriðji algengasti hjarta- og æðasjúkdómurinn á eftir háþrýstingi og kransæðasjúkdómi og að lokum míturlokubakflæði (mitral valve insufficiency) sem er sjúkdómur í hjartalokum sem á sér stað þegar míturlokan lokast ekki rétt, sem veldur því að blóð flæðir aftur til vinstri gáttar hjartans þegar vinstri slegill dregst saman.

Hvað er meðfæddur hjartasjúkdómur?

Meðfæddir hjartasjúkdómar eru tegund af galla í einni eða fleiri byggingum hjartans eða blóðæða sem koma fram fyrir fæðingu.

Þetta hefur áhrif á um það bil 8 af hverjum 1.000 börnum. Meðfæddir hjartagallar geta valdið einkennum frá fæðingu, á barnæskuárum en stundum ekki fyrr en á fullorðinsárum.

- Auglýsing -

Í flestum tilfellum vita vísindamenn ekki hvers vegna þeir koma fram. Erfðir og erfðafræði geta gegnt hlutverki auk áhrifa á fóstur meðan á meðgöngu stendur t.d. vegna veirusýkinga, áfengis eða lyfja.

Hvað er stækkun á hjarta (hjartavöðvakvilli)?

Hjartavöðvakvillar sem einnig eru kallaðir stækkun á hjarta eru sjúkdómar í hjartavöðvanum sjálfum. Fólk með hjartavöðvakvilla hefur hjörtu sem eru óeðlilega stækkuð, þykknuð og/eða stíf. Afleiðingin af þessu er að dælugeta hjartans skerðist. Án meðferðar versna hjartavöðvakvillar með tímanum og leiða oft til hjartabilunar og hjartsláttartruflana.

Hvað er gollurshússbólga?

Gollurshússbólga er bólga í himnunni sem umlykur hjartað. Þetta er sjaldgæfur sjúkdómur sem er oft af völdum sýkingar.

Hvað eru sjúkdómar í ósæðinni?

Ósæðin er stór slagæð sem fer frá hjartanu og veitir súrefnisríkt blóð um allan líkamann. Þessir sjúkdómar og ástand geta valdið því að ósæðin víkkar eða jafnvel rofni sem skapar lífshættulegt ástand.

Fólk með ósæðarsjúkdóma ætti að fá meðferð hjá sérfræðingateymi hjartalækna og skurðlækna.

Að lokum

Þetta er hraðsoðin yfirferð á hjartasjúkdómum sem geta hrjáð karlmenn en engan veginn fullnægjandi upptalning en ég vona að þetta hafi verið gagnlegt.

Ef þú hefur áhuga á að fræðast um einhvern sérstakan hjartasjúkdóm má senda mér línu bjorn@hjartalif.is og ég athuga hvort ég geti ekki fundið einhver svör.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-