Á myndgreiningardeildum Landspítala – háskólasjúkrahúss starfa nálægt 50 geislafræðingar, sem sinna öllum almennum röntgenrannsóknum, svo og ýmsum sérhæfðari rannsóknum, sem þar eru gerðar.
Röntgenrannsóknir eru bæði almennar, en einnig sérhæfðari rannsóknir á líkamanum, þar sem verið er að skoða hin ýmsu líffærakerfi, svo sem bein og stoðkerfi, þvag- og meltingarfæri, hjarta og æðakerfi, lungu, heila og taugakerfi. Rannsóknirnar eru m.a. framkvæmdar með almennum röntgentækjum, tölvusneiðmyndatækjum og segulómtækjum.
Röntgenrannsóknir sem gerðar eru á röntgendeildum spítalans eru stór þáttur í sjúkdómsgreiningu hvers sjúklings, bæði fyrstu greiningu og svo í áframhaldandi eftirliti. Einnig eru röntgenrannsóknirnar stór þáttur í mati á meðferðarúrræðum ýmissa sjúkdóma, t.d. krabbameins.
Nýtt vaktafyrirkomulag í andstöðu við starfsfólk
Geislafræðingar sem starfa á Landspítalanum eru dagvinnufólk, sem tekur gæsluvaktir. Sú breyting sem nú á að þvinga fram á vaktafyrirkomulagi geislafræðinga, veldur því að vinnutími lengist og vinnuskyldan færist meira yfir á helgar. Frítími með fjölskyldu verður þar af leiðandi styttri og ofan í kaupið valda þessar breytingar töluverðri skerðingu á launum geislafræðinga. Geislafræðingar una ekki þessum breytingum og munu láta af störfum frá og með 1. maí. nk.
Lausn á þessu vandamáli er óbreytt vinnufyrirkomulag. Geislafræðingar vilja vera dagvinnufólk sem tekur gæsluvaktir. Flestar rannsóknir eru gerðar á dagvinnutíma og þarf því mestan mannafla á þær vaktir. Þar sem myndgreiningardeild er ekki legudeild heldur þjónustudeild er þetta eðlilegasta fyrirkomulagið. Ef hins vegar er litið til mönnunarþarfa fyrir nýtt vinnufyrirkomulag eru einfaldlega ekki nógu margir geislafræðingar í vinnu til þess að kerfið gangi upp, allavega ekki fyrr en nýr spítali er kominn í gagnið. Yfirvöld heilbrigðismála verða að horfa raunhæft á þessar staðreyndir og vinna með starfsfólki á viðkomandi sviði, en ekki í andstöðu við það. Enn er tími til að afstýra því slysi að þessi starfsemi hrynji til grunna, en þá verða stjórnendur Landspítalans og yfirvöld heilbrigðismála líka að breyta um vinnubrögð.
F.h. geislafræðinga á
Landspítala
SIGRÍÐUR EINARSDÓTTIR.
MOrgunblaðið 29.03.2008