Sumarfí landsmanna eru í hámarki þessa dagana. Það er líklegt að margir velji að fljúga af landi brott enda ekki beint hægt að stóla á veðurguðina hér sunnan heiða.
Það er að mörgu að hyggja áður en haldið er á framandi slóðir og eitt af því sem rétt er að huga að er heilsufarið. Það virðist nefnilega vera þannig að hjartavandamál séu ein aðal dánarorsök fólks á ferðalögum.
Á meðan streitufrítt umhverfi sumarfrísins virðist ólíklegur staður til að hrinda af stað hjartaáfalli, vara sérfræðingar við því að mannfjöldi, mengun, mikill hiti, mikill kuldi, framandi matur, mikil áfengisneysla og mikil hreyfing geti ýtt undir slík veikindi.
Samkvæmt rannsókn sem birt var 2003 í tímaritinu Psychosomatic Medicine kemur fram að í sumrafríum gerum við oft á tíðum hluti sem við erum ekki vön að gera og það geti aukið bæði líkamlegt og andlegt álag og streitu.
Þar er því haldið fram að þessar aðstæður geti framkallað hjartaáföll eða önnur lífshættuleg hjartavandamál.
Jafnframt getur fólk komist í óheilbrigt uppnám þegar draumafríið stendur ekki undir þeim væntingum sem lagt var upp með.
Í þessari rannsókn voru skoðaðir 92 Hollendingar sem fengið höfðu hjartaáfall á meðan þeir voru í fríi.
Auknar líkur á hjartaáföllum
Í grein sem birtist í Life Science um málið á sínum tíma kom fram að meiri líkur væru á hjartaáföllum fyrstu tvo dagana í fríinu en aðra daga.
Haft er eftir raflífeðlisfræðingnum Dr. Erik Altman sem er forstöðumaður við North Shore-Long Island Jewish Southside sjúkrahúsið í New York, að fleiri og fleiri sannanir bendi til þess að það sé ekki óalgengt að fólk fái hjartaáföll á ferðalögum.
Hann bætir við „Það er mikilvægt að benda fólki á að huga að líkamlegu og andlegu ástandi áður en haldið er af stað í sumarleyfi.
Þegar við erum lögð af stað í fríið erum við ennþá í áhættu á hjarta og æðasjúkdómum.“
Dr. Altman segir líka að ástæðurnar geti verið þær að fólk á ferðalögum borði of mikið, drekki of mikið áfengi og gleymi jafnvel að taka lyfin sín.
Dr. Altman segir jafnframt að þó hjartaáföll séu ekki óalgeng í fríum fólks þá sé það þannig að fólk sem tekur sér reglulega frí er í minni áhættu á að deyja úr hjarta og æðasjúkdómum.
Hann mælti jafnframt með því að fólk sem eigi við heilsufarsvanda að stríða, aðlagi fríið að sínum þörfum og getu.
Hafðu í huga
- Veldu þér gistingu sem auðvelt er að komast að og hafðu í huga aðgengi að veitingastöðum, verslunum eða afþreyingu.
- Skipuleggðu afslappandi frí, farðu ekki í erfiðar göngur eða taktu þátt í athöfnum sem eru krefjandi, nema þú sért viss um að þú sért nógu hress.
- Athugaðu neyðarnúmer þar sem þú ert og hvernig á að fá læknishjálp.
- Ef þú ert með gangráð eða bjargráð (ICD) mundu eftir skírteininu frá Gangráðseftirlitinu þar sem staðfest er hvernig tæki þú ert með. Í sumum tilfellum er jafnvel gott að hafa með sér bréf frá lækninum þínum um ástand þitt og þá sjúkdóma sem hrjá þig.
- Hafa símanúmer fjölskyldumeðlima við hendina.
- Gakktu úr skugga um að þú sért með réttu ferðatrygginguna til að standa straum af kostnaði ef þú þarft á læknishjálp að halda.
- Mundu eftir lyfjunum þínum og hafðu þau í pakkningum sem eru merktar þér og svo er gott að hafa lyfjalista meðferðis ef þörf er á.
- Ef það er mikill hiti hafðu þá hægt um þig og passaðu upp á að drekka nægan vökva.
- Haltu áfengisneyslu í hófi en áfengi getur aukið á hjartsláttartruflanir.
Það er því aldrei of varlega farið og rétt að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Góða ferð.
Björn Ófeigs.
Munið eftir að læka við okkur á Facebook