Miðvikudaginn 24. nóvember fékk Hjartavernd afhentan styrk að upphæð 1.200.000 kr eftir söfnunarátak fjölskyldu Rúnars Júlíussonar, Hamborgarafabrikkunnar og N1.
Í september s.l. var vígð stytta af hinum ástsæla tónlistarmanni Rúnari Júlíussyni á Hamborgarafabrikkunni. Í tilefni af því hófst formleg góðgerðarsöfnun til styrktar starfsemi Hjartaverndar. Þessi söfnun var sett af stað að undirlagi fjölskyldu Rúnars, Hamborgarafabrikkunnar og N1 en Rúnar lést langt fyrir aldur fram vegna kransæðasjúkdóms.
Í október bauðst viðskiptavinum Hamborgarafabrikkunnar og N1 að leggja sitt af mörkum með því að kaupa tvöfalda hljómleikaútgáfu af minningartónleikum um Rúnar sem fram fóru í Laugardalshöllinni 2. maí 2009 og runnu 1000 krónur til Hjartaverndar af hverjum seldum diski. Til að heiðra minningu Rúnars enn frekar ákvað Hamborgarafabrikkan að gefa hamborgara á matseðli sínum nýtt nafn – Hr Rokk og runnu 400 krónur af hverjum seldum Hr. Rokk til Hjartaverndar í október s.l.
Alls söfnuðust 1.200.000 krónur af sölu hamborgaranna og disksins og var söfnunarféð afhent við hátíðlega stund á Hamborgarafabrikkunni að viðstöddum fulltrúum Hjartaverndar, Vilmundi Guðnasyni prófessor og forstöðulækni Hjartaverndar og Bylgju Valtýsdóttur upplýsingafulltrúa, fjölskyldu Rúnars heitins og eigendum Hamborgarafabrikkunnar þeim Sigmari Vilhjálmssyni og Jóhannesi Ásbjörnssyni.
Við þetta tækifæri færði Vilmundur fjölskyldu Rúnars sérstakar þakkir fyrir hið mjög svo mikilvæga og góða framtak þeirra, Hamborgarafabrikkunnar og N1. Vísindamenn Hjartaverndar vinna í dag að því að finna leið til að greina þá sem eru í áhættu á að fá hjartasjúkdóm mörgum árum áður en einstaklingurinn byrjar að líða fyrir hann enda er óásættanlegt að fólk í blóma lífsins eins og Rúnar Júlíusson falli frá vegna hjartasjúkdóms. Framtak og framlag sem þetta skiptir því miklu máli og nýtist vel til áframhaldandi rannsókna og forvarna hjarta- og æðasjúkdóma. Stuðningur sem þessi flýtir fyrir því að þjóðin eignist aðferð sem virkar til að minnka þann skaðvald sem hjarta- og æðasjúkdómar valda og um leið mun þjóðarhagur aukast í orðsins fyllstu merkingu. Hjartavernd tekur því við þessum styrk með þakklæti og auðmýkt og þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn, fjölskyldu Rúnars, Hamborgarfabrikkunni, N1 og síðast en ekki síst þeim fjölmörgu sem styrktu átakið með því að kaupa diskinn og Herra Rokk hamborgarann. Hafið hjartans þökk fyrir.
www.hjartavernd.is 24.11.2010