Aðsetur: Aðalbygging Hringbraut, 4. h. E og G álma
Símanúmer deildar: 543 6411
Vaktstjóri: 824 5673
Heimsóknartímar: Frá kl. 15:30-16:30 og 18:30-20:00
Hjúkrunardeildarstjóri: Bylgja Kjærnested, netfang: bylgjak@landspitali.is
Yfirlæknir: Davíð O. Arnar, netfang: davidar@landspitali.is
Hjartadeild 14EG er eina deild landsins sem sérhæfir sig eingöngu í þjónustu við sjúklinga með einkenni frá hjarta. Deildin sinnir fyrst og fremst bráðainnlögnum frá Hjartagátt og bráðadeild sjúkrahússins. Sjúklingar eru þó einnig innkallaðir af biðlista eða koma frá öðrum sjúkrahúsum landsins til sérhæfðrar meðferðar á deildinni. Hjartadeildin er legudeild með 32 rúmum og eru starfsmenn um 100. Meðal legutími sjúklinga er um 5,5 dagar en getur verið frá einum sólarhring upp í nokkrar vikur.
Á deildinni eru ýmist einbýli, tvíbýli eða fjórbýli. Innst á báðum göngum er setustofa með sjónvarpi, kaffivél, örbylgjuofni og ísskáp. Vatnskælivélar eru á báðum göngum. Á baði eru nærföt, handklæði og karfa fyrir óhreint tau.
Farsíma má nota í setustofum og á palli framan við deildirnar en ekki á gangi eða stofum því þeir geta truflað áhrif lækningatækja. Peningasímar fyrir sjúklinga eru á deildargöngum og palli.
Blómavasar og merkimiðar eru á deildargöngum.
Afþreyingartónlist er í útvarpinu á rás 3.
Verslun Rauða kross Íslands er við aðalinngang spítalans. Hún er opin á virkum dögum frá kl.10:00-13:00, 13:30-16:30 og 18:00-19:30. Um helgar er verslunin opin frá kl.14:00-16:30.
Apótek sjúkrahússins er í kjallara, 10D, skáhallt við lyftur.
Bókasafnsvagn, sem sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands starfrækja, kemur á deildina á mánudögum kl.16:00.
Guðsþjónusta er á sunnudögum kl.10:00 á þriðju hæð, Landspítala Hringbraut.
Fyrir hádegi fá sjúklingar aðstoð við sjálfsumönnun og á þeim tíma eru flestar rannsóknir og aðgerðir. Stofugangur er frá kl. 9:00-11:00 alla daga vikunnar. Sjúkraþjálfari kemur daglega á deildina og sér um endurhæfingu sjúklinga.
Vaktaskipti (rapport) eru hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum kl. 8:00-8:30, 15:30-16:00 og 23:00-23:30. Þá er farið yfir stöðu mála hjá hverjum sjúklingi og framhald hjúkrunarmeðferðar ákveðið.
Hjartadeildin starfar náið með Hjartagátt, hjarta- og æðaþræðingastofu og hjartarannsókn við greiningu, meðferð og eftirfylgni einstaklinga með hjartasjúkdóma. Þó starfsemi deildarinnar sé sérhæfð eru sjúkdómsgreiningar og vandamál sjúklinga fjölbreytt.
Megin vandamál og sjúkdómsgreiningar sjúklinga sem leggjast á deildina:
- Kransæðasjúkdómar – bráðir og langvinnir
- Hjartabilun – bráð og langvinn
- Hjartsláttartruflanir margvíslegar
- Hjartalokusjúkdómar
- Hjartavöðvasjúkdómar
- Háþrýstingur
Megin starfsemi deildarinnar:
Hjúkrun og lækningar; hjúkrunarfræðingar, læknar og sjúkraliðar koma að allri meðferð, umönnun, fræðslu og útskriftum sjúklinganna.
Nemar; Landspítali er háskólasjúkrahús og á hjartadeildina kemur ár hvert fjöldi nema í hinum ýmsu starfsgreinum til þjálfunar.
Sjúkra- og iðjuþjálfun; þjálfun og endurhæfing er mikilvægur þáttur í meðferð sjúklinga. Sjúkra- og iðjuþjálfar gegna einnig mikilvægu hlutverki í meðferð, fræðslu og ráðleggingum til sjúklinga. Þeirra aðkoma er oft mikilvæg við útskriftir og endurhæfingu sjúklinga.
Sálfræðiþjónusta; sálfræðingur tengist deildinni og er kallaður til eftir þörfum fyrir sjúklinga og aðstandendur.
Sálgæsla; Rósa Kristjánsdóttir djákni, sem hefur sinnt sálgæslu á deildinni um áraraðir, þjónar sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki deildarinnar.
Samvinna við önnur þjónustustig í meðferð sjúklinga er mjög mikilvæg starfsemi deildarinnar:
Flæði sjúklinga milli Hjartagáttar, bráðadeildar og hjartaþræðingar í „bráðafasa“ er mikið og til að tryggja öryggi sjúklinga og gæði þjónustu er mikið lagt upp úr góðum samskiptum og samvinnu milli þessara þjónustustiga.
Eftirfylgni á göngudeildum á Hjartagátt; göngudeild hjartabilaðra og göngudeild kransæðasjúklinga er liður í því að tryggja sjúklingum okkar bestu mögulegu þjónustu sem völ er á.
Stór hluti sjúklinga fær eftirlit og meðferð á þessum göngudeildum eftir innlögn á hjartadeildina. Það er því mikið lagt upp úr nánu samstarfi deilda.
Heimahjúkrun sinnir einnig stórum hluta sjúklinganna eftir útskrift, einkum sjúklingum með langvinna hjartabilun og hefur sú samvinna verið efld síðastliðin ár með góðum árangri.