Landspítalinn getur ekki ráðið sérfræðinga til starfa á þeim launum sem bjóðast. Starfsaðstaðan er líka Þrándur í Götu eðlilegrar endurnýjunar starfsliðsins, ekki bara niðurskurður. Það stefnir í að senda verði hjartasjúklinga til aðgerða erlendis, segir Björn Zoega, forstjóri Landspítalans.
Á Landspítalanum starfa nú 627 færri en í janúar 2009. Það eru álíka margir og búa á Seyðisfirði. Á þessu ári hefur verið fækkað um 90 svokölluð heilsárs rúm sem þjónustuð eru allan sólarhringinn. Launakostnaður í krónum fyrstu níu mánuði ársins eru 1.100 milljónum krónum lægri en á sama tímabili í fyrra.
Forstjórinn fór yfir stöðuna með læknaráði í dag og segir spítalann búinn að skera meira niður en aðrir hafi þurft að gera í kreppunni. Hann segir að starfsfólki hafi verið fækkað, allir vinni hraðar og vinni meiri vinnu fyrir minna kaup.
Björn segist óttast að ef gengið verði harðar að Landspítalanum verði komið að þolmörkum. Ekki hafi verið lögð niður nein starfsemi á síðustu árum. Starfseminni hafi verið breytt, hún endurskipulögð og minnkuð. Næsta skref geti orðið það að leggja niður einhverja starfsemi. Það geti gerst að senda verði sjúklinga til útlanda í aðgerðir, en ríkið muni ekki spara á því.
Hann segir spítalann reyna að taka við öllum sem til hans leita, og það sé gert enn sem komið er.
Sjá myndskeið með fréttinni hér
www.ruv.is 15.10.2010