-Auglýsing-

Heilbrigðiskerfið að molna niður

LandspítalinnStaða heilbrigðiskerfisins er okkur hugleikinn hér á Hjartalif.is. Læknarnir Einar Stefánsson og Sigurður Guðmundsson skrifa í Morgunblaðið síðastliðinn föstudag magnaða úttekt á hvernig þeir sjá vanda heilbrigðiskerfisins.

Það sem er merkilegt er að Sigurður er fyrrum Landlæknir og Prófessor við Háskóla Íslands og Einar er Prófessor við sama skóla auk þess sem þeir starfa einnig sem læknar á Landspítalanum. Þetta eru því menn sem gjörþekkja kerfið.

-Auglýsing-

Það er ljóst að það hriktir í kerfinu og hætta á að brestirnir sem komnir eru í það séu það alvarlegir að veruleg hætta steðjar að. Ég held að það sé að verða hverjum manni ljóst sem lætur sér annt um kerfið að verulegra áherslubreytinga er þörf og tími til kominn að stjórnvöld vakni af Þyrnirósarsvefni En gefum þeim félögum orðið.

Engum blandast hugur um að íslenskt heilbrigðiskerfi er í kreppu. Fjórðungs niðurskurður fjárveitinga frá hruni kom ofan í áratuga aðhaldsaðgerðir. Úreltur tækjabúnaður og hálfónýt hús blasa við, en langmesta áhættan liggur í mannauðnum. Fólk flýr.

- Auglýsing-

Undanfarna áratugi hefur íslensk heilbrigðisþjónusta verið í fremstu röð í heiminum. Þetta byggðist ekki á húsnæði eða tækjabúnaði sjúkrahúsanna, heldur alfarið á menntun og hæfni starfsfólksins. Íslenskir læknar hafa um áratuga skeið sótt sér þjálfun á bestu háskólasjúkrahúsum vestan hafs og austan og mikill meirihluti þeirra hefur skilað sér aftur til föðurtúna. Nú eru ákveðin merki þess að þessi gæðauppspretta íslensku sjúkrahúsanna sé að þorna upp. Íslensk læknastétt er sérstaklega næm fyrir mannflótta, því nær allir íslenskir læknar starfa um árabil erlendis og þurfa að taka ákvörðum um að snúa heim. Þeir hafa tengsl við erlenda spítala og gjarnan starfsreynslu. Erlenda þjálfunin og tengslin, sem hafa verið einn aðalstyrkleiki íslenskrar læknisþjónustu, fela í sér bráðan veikleika, ef Ísland er ekki samkeppnisfært um þessa starfsmenn.

Ósamkeppnishæf um starfsfólk

Starfskjör íslenskra lækna eru ósamkeppnishæf í öllu samhengi. Íslenskir sjúkrahúslæknar eru ekki hálfdrættingar á við nágrannaþjóðir í launum og í mörgum tilvikum er munurinn margfaldur. Samanburðurinn er einnig óhagstæður við aðrar stéttir innanlands og þar hefur dregið í sundur eftir hrun. Aðbúnaður og vinnuaðstaða lækna, t.d. á Landspítalanum, er léleg í almennum samanburði, jafnvel dæmi um heilsuspillandi húsnæði. Tækjabúnaður er í mörgum tilvikum úreltur og erfitt með nýjungar. Starfstilhögun og stjórnun á íslenskum sjúkrahúsum gerir læknum erfitt um vik.
Afleiðingar þessara lélegu starfskjara blasa við. Ungir sérfræðilæknar hika við að snúa aftur til Íslands og margir sérfræðilæknar hafa snúið aftur til útlanda, ýmist að fullu eða í hlutastarf. Dæmin blasa við og læknaskortur er farinn að segja til sín í ýmsum sérgreinum og landsvæðum. Eldri læknar reyna að halda í horfinu, en endurnýjun vantar og yngri læknar flýta sér til útlanda, sáróánægðir með starfskjör sín á Íslandi.

Hrörnun mannauðs

Hrörnun mannauðs er langtímafyrirbæri. Störf lækna á íslenskum sjúkrahúsum eru ekki eftirsóknarverð og standast engan samanburð við nágrannalöndin, þar sem íslenskir læknar starfa. Því miður er þetta réttmæta mat einna mest áberandi hjá ungum læknum, læknunum sem eiga að taka við af okkur sem eldri erum. Einungis 1% yngri lækna telur Landspítalann góðan vinnustað. Munurinn á starfskjörum er orðinn svo mikill að ættjarðarástin brúar ekki lengur bilið, sérstaklega fyrir bestu læknana, sem eiga góðra kosta völ, m.a. í sínum uppeldisstofnunum erlendis. Þannig fækkar þeim læknum sem auka gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu og koma með nýjungar inn í landið. Hrakandi gæði, færri afburðalæknar og minni nýjungar eru vítahringur, sem gerir starfsumhverfið enn minna spennandi. Þessi vítahringur er kominn í gang. Nýjustu lyf og meðferðarmöguleikar eru ekki alltaf í boði á Íslandi og ungir sérfræðingar, sem þyrftu að koma til starfa á Íslandi, gera það ekki. Mannauðurinn molnar niður, hægt en örugglega. Íslenskt samfélag verður að horfast í augu við þetta.

Heilbrigðisþjónusta á fallandi fæti

Það er ekki sjálfgefið að íslensk heilbrigðisþjónusta sé í fremstu röð í heiminum. Hvers vegna skyldi heilbrigðisþjónusta á Íslandi vera betri en í Danmörku, Portúgal eða Búlgaríu? Fyrir 50 árum var það alsiða að efnaðir Íslendingar leituðu út fyrir landsteinana í skurðaðgerðir eða aðra veigameiri læknisþjónustu. Síðustu áratugi hefur þetta snúist til betri vegar og íslensk heilbrigðisþjónusta hefur verið á heimsmælikvarða og notið ómælds trausts þjóðarinnar. Við erum nú á braut sem færir íslenska heilbrigðisþjónustu frá því að vera meðal þeirra fremstu í heiminum og nær því sem búast má við hjá lítilli afskekktri þjóð. Að óbreyttu mun þetta gerast smám saman, ekki sem hrun eða kollsteypa, heldur munum við vakna upp við það einn góðan veðurdag að heilbrigðisþjónustan sé komin langt undir OECD-meðaltal í gæðum. Þá verður vandratað til baka. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Höfundar eru starfandi læknar á Landspítala og prófessorar við HÍ.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-