-Auglýsing-

Hár blóðsykur, hvað er til ráða?

Mataræði er lykillinn af því að ná niður blóðsykrinum með náttúrulegum hætti.

Það er almennt orðið viðurkennt að sykurinn og einföld kolvetni séu óvinur númer eitt en ekki endilega fitan þegar kemur að mataræði og því mikilvægt að fylgjast með blóðsykrinum.

Afleiðingarnar af of háum blóðsykri til lengri tíma geta verið margvíslegar og þá ekki síst fyrir hjarta og æðakerfið.

-Auglýsing-

Það er óhætt að fullyrða að það skiptir máli að láta athuga blóðsykur öðru hvoru því aðdragandinn að sykursýki 2 getur verið langur og einkenni lítil eða jafnvel enginn.

Þvert á það sem margir halda þá er sjúkdómurinn ekki endilega bara tengdur við fólk í góðum holdum, grannvaxið fólk getur einnig greinst. Ekki er nauðsynlegt að borða sykur í öll mál en viðbættur sykur er víða falinn og þá ekki sýst í unnum matvælum. Auk þess er sykur til í ýmsum myndum og líklegt má telja að mataræði nútímans með tilheyrandi neyslu einfaldra kolvetna hafi þar meiri áhrif en marga grunar. Það má því segja að matvælaframleiðindur leggi sig í líma við að villa um fyrir neytendum og fela sykurinn eins og hægt er.

- Auglýsing-

Mín reynsla af of háum blóðsykri

Ég hef í gegnum tíðina stundum mælst hár í fastandi blóðsykri en svo hefur þetta jafnað sig inn á milli. Lengi vel var ekki talin sérstök ástæða til aðgerða og í kjölfar slíkra mælinga hefur verið mælt sykurþol og langtímasykur. Þegar skoðaður er langtímasykur þá sést meðalsykur síðustu þrjá mánuði eða svo.

Það gerðist hinsvegar fyrir nokkrum misserum að fastandi blóðsykurinn minn mældist 14,6 mmol/l sem er langt fyrir ofan það sem talist getur eðlilegt. Eðlileg gildi ættu að vera 4-7 mmol/l. Læknirinn minn tók þessum tíðindum mjög alvarlega og vildi setja mig tafarlaust á lyf enda ekkert grín að vera kominn með sykursýki 2.

Það var því ljóst að skjótra aðgerða var þörf ef koma ætti í veg fyrir stórslys. Ég var ekki sérlega spenntur fyrir því að ná þessu niður með því að taka lyf og langaði til að gera tilraun til að ná þessu niður með mataræðinu.

Mín leið

Ég studdist að hluta til við sykurkúrinn og að hluta til við 5:2 mataræðið. Sykurkúrinn gengur út á það að borða 800 kaloríur á dag í 6 vikur. Þetta þótti mér full strangt í ljósi þess að ég er nú hjartabilaður og eitt og annað að hrjá mig. Hugmyndafræði bókarinnar þar sem kynnt er Miðjarðarhafs-lágkolvetnafæði fannst mér heillandi og tilraunarinnar virði. Kenningarnar sem Michael Mosley kynnir í bókinni styðjast við nýjustu rannsóknir á þessu sviði og tilgangurinn með svo ströngum kúr er að viðkomandi léttist hratt og örugglega um 10-15% af líkamsþyngd. Með því að léttast með þessum hætti er tilgangurinn að bræða fitu úr lifur og brisi og í kjölfarið kemst jafnvægi á insúlínbúskap líkamans og blóðsykur kemst í eðlilegt horf. Það eru þó á þessu undantekningar sem ekki verða raktar hér að þessu sinni.

Eins og áður sagði fannst mér 800 kaloríur á dag ansi strangt og ákvað ég að fara milliveg sem væri einhverstaðar í námunda við 1200-1500 kaloríur á dag en taka síðan tvo daga í viku nokkuð stranga eins og í 5:2 og fara þá niður í um 800 kaloríur þá daga. Markmiðið hjá mér var að reyna að miða við að missa eitt kg á viku og gefa þessari tilraun minni þrjá mánuði og sjá hvort mér tækist að borða mig út úr vandanum. Það fyrsta sem ég gerði var að klippa út einföldu kolvetnin, öllum viðbættum sykri og sleppa sterkjunni (kartöflur svo dæmi sé tekið), hrísgrjónum og pasta.

Ég bætti heldur í með fiskinn en borða flestan mat, svo framarlega sem hann er hreinn og óunninn. Ég vel mér að borða mikið af grænmeti með máltíðunum í stað hrísgrjóna og kartaflna. Mér finnast egg sérlega góð og byrja daginn á eggjum og fæ mér skyr í hádeginu þar sem það er mjög mikilvægt að borða vel af góðum próteinum til að viðhalda vöðvamassa. Kjúklingur er vinsæll, lax og lambakjöt og svo leyfi ég mér einn til tvo ávexti á dag. Þá vel ég helst perur, epli, appelsínur eða jarðaber. Ég læt þó eftir mér að fara aðeins út fyrir ramman um helgar auk þess að fá mér rauðvínsglas á góðri stundu.

Ég ákvað að láta mæla blóðsykur einu sinni í mánuði meðan ég væri í þessu til að geta fylgst með framvindunni og hvort þessar aðferðir mínar skiluðu árangri yfir höfuð.

Niðurstaðan

Það er skemmst frá því að segja að ég fylgdi þessu nokkuð strangt eftir fyrstu 12 vikurnar og líkaði vel. Nætursviti fór minnkandi og mér leið betur bæði á líkama og sál. Á þessum þremur mánuðum náðist sá merki áfangi að blóðsykur langtíma og fastandi komst því sem næst í eðlilegt horf.

Í upphafi tilraunarinnar í janúar var fastandi blóðsykur 14,6 mmol/l og langtímasykur (blóðrauði eða HbA1c) allt of hár. Í febrúar var fastandi blóðsykur kominn í 10,4 mmol/l og langtímasykur rétt rúmlega 9 mmo/l. Í marsmælingunni var fastandi blóðsykurinn kominn í 8 mmol/l og langtímasykurinn sömuleiðis. Á þessum fyrstu tólf vikum léttist ég um 12 kg.

Nú átta árum eftir að ég byrjaði á þessu ævintýri þá er blóðsykurinn í eðlilegu horfi og ég hef náð góðum tökum á ástandinu og haldið því við. Það hafa hinsvegar komið tímabil inn á milli þar sem ég gleymi mér og blóðsykurinn fer aðeins upp en það er óverulegt. Ég samþykkti því að taka lítinn skammt af sykursýkislyfi (Metformin) til að hafa þetta undir öruggri stjórn. Ég fer síðan í blóðprufur á 6-12 mánað fresti til að hafa augun á þessu auk þess sem ég mæli mig sjálfur reglulega.

- Auglýsing -

Þetta sýnir hinsvegar svo ekki verður um villst að það er hægt að grípa í taumana og snúa við afleitri þróun. Mataræðið er lykillinn af því og auk þess má geta þess að ég hef tekið tímabil með plöntumiðuðu mataræði og það virkar líka vel. Sykursýki er ekkert grín og ég er meðvitaður um að ég verð að halda vöku minni.

Björn Ófeigs.

Munið eftir að læka við okkur á Facebook

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-