Gunnar Gíslason, sérfræðingur í hjartasjúkdómum, telur að banna eigi eitt algengasta verkjalyf sem ávísað er á gigtarsjúklinga. Lyfið er talið valda dauða meira en eitt hundrað Dana á ári hverju.
Gunnar er yfirlæknir á Gentofte sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn. Hann hefur um margra ára skeið rannsakað verkjalyf sem innihalda diclofenac. Lyfin eru helst notuð við gigtarverkjum, mígreni og tíðaverkjum. Niðurstöður hans benda til þess að þessi lyf séu í raun lífshættuleg. Hugsanlega valdi þau u.þ.b. hundrað dauðsföllum á ári í Danmörku.
Ávísa af gömlum vana
Gunnar segir að diclofenac-lyf séu sambærileg við vioxx sem tekið var af markaði fyrir átta árum vegna þess hve hættulegt það var talið. Hann segir að til séu sambærileg lyf sem geri sama gagn en séu ekki eins hættuleg. Hins vegar ávísi læknar þessum lyfjum af gömlum vana og að varnaðarorð frá yfirvöldum nái ekki eyrum þeirra.
Sex diclofenac-lyf á skrá
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um notkun þessara lyfja síðustu daga og rætt við Gunnar. Í íslensku lyfjaskránni eru 6 diclofenac-lyf á skrá; Voltaren, Vóstar, Arthrotec, Diklofenak Mylan, Klófen og Modifenac. Gunnar er ekki í nokkrum vafa um hvernig heilbrigðisvöld ættu að taka á málinu.
„Að okkar mati ætti að taka diclofenac af markaði, því að við höfum séð að þrátt fyrir að við höfum varað við þessu í Danmörku, er þetta ennþá næstmest notaða gigtarlyfið hér,“ segir hann.