„VIÐ bjuggumst við einhverjum niðurskurði en ekki svona miklum,“ sagði Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. „Á langflestum sviðum spítalans hafa menn sagt að nú þegar sé búið að hagræða, spara og breyta eins mikið og hægt sé. Næsta skref yrði þá að fækka starfsfólki og um leið að minnka þjónustuna.“
Minnka þarf rekstrarkostnað Landspítalans um 3,1 milljarð á næsta ári miðað við árið í ár. Björn sagði að fækkun um 450-500 starfsmenn samsvaraði 9-10% af mannafla Landspítalans. Hann telur ekki vera hægt að leggja niður heilar þjónustugreinar til að mæta slíkum niðurskurði. „Við erum öryggisnet og eini staðurinn þar sem allar þjónustugreinarnar eru til staðar. Ef við leggjum þær niður, hvað þá?“ spurði Björn. Svarið við því er að þær verði þá ekki lengur fyrir hendi, jafnvel ekki í landinu. „Það þýðir ekki að hugsa svoleiðis,“ sagði Björn.
Í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið unnið að stefnumótun um verkaskiptingu milli sjúkrahúsa á suðvesturhorninu, það er Landspítalans og svonefndra Kragasjúkrahúsa sem eru Sjúkrahúsið á Akranesi, St. Jósefsspítali í Hafnarfirði, sjúkrahús HSU á Selfossi og sjúkrahús HSS í Reykjanesbæ. Björn sagði hugmyndina vera þá að minnka tvöfeldni í kerfinu. Tiltekin verkefni yrðu þá unnin á einum stað í stað margra. Gangi áætlunin eftir telur Björn líklegt að þjónusta færist aðallega frá Kragasjúkrahúsunum til Landspítalans til að ná magnáhrifum. Þeim sé auðveldast að ná á stærsta sjúkrahúsinu. Einhver þjónusta kunni einnig að flytjast frá Landspítalanum til hinna sjúkrahúsanna. Björn benti á að sólarhringsvakt væri á Landspítalanum og með slíkri hagræðingu væri hægt að fækka sólarhringsvöktum annars staðar. Fækkun vakta þýddi ekki endilega miklar uppsagnir en væntanlega fylgdi tekjuskerðing fyrir þá sem hættu að ganga vaktir.
Björn sagði að nú þegar yrði hafist handa við að fara ofan í saumana á rekstri Landspítalans og kanna hvernig mætti mæta lægri fjárframlögum. Hann telur að það taki einhverjar vikur að móta sparnaðarhugmyndir. Björn taldi að ekkert í rekstri sjúkrahússins yrði undanskilið þegar leitað yrði sparnaðarleiða. „Það verður okkar leiðarljós að koma í veg fyrir að öryggi sjúklinga verði ógnað. Svo verðum við að sjá hvað niðurskurðurinn kemur mikið niður á þjónustunni.“
Sjá má greinina í heild sinni í Morgunblaðinu
Morgunblaðið 06.10.2009