Á dögunum birtist áhugaverð grein um langtíma árangur viðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka. Í stuttu máli er árangurinn mjög góður og jafnast á við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Það sem gerir árangurinn enn merkilegri er að á Íslandi er rekin minnsta hjartaskurðdeild á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað.
Við fengum aðalhöfund greinarinnar Árna Stein Steinþórsson læknanema til að setja saman stuttan pistil um málið. Þess má geta að Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir var leiðbeinandi Árna Steins.
Míturlokuviðgerðir hafa verið framkvæmdar á Íslandi í rúma tvo áratugi. Hér á landi eru gerðar á bilinu 10-15 slíkar aðgerðir árlega. Þrátt fyrir að um tæknilega flókna hjartaaðgerð sé að ræða hefur árangur reynst sambærilegur og á stærri og sérhæfðari hjartaskurðdeildum erlendis.
Míturlokan er staðsett djúpt í hjartanu á mótum vinstri gáttar og vinstri slegils. Þessi mikilvæga einstefnuloka kemur í veg fyrir bakflæði blóðs aftur til vinstri gáttar og stuðlar þannig að eðlilegu útfalli hjartans. Míturlokuleki er einn af algengustu lokusjúkdómunum en talið er að á bilinu 2-3% einstaklinga hafi vægan leka sem er sakleysislegur og hefur ekki alvarlegar afleiðingar. Í ákveðnum tilfellum er hins vegar um mikinn leka að ræða sem getur til lengri tíma leitt til alvarlegar hjartabilunar sem svarar illa lyfjameðferð. Er þá gripið til opinnar hjartaaðgerðar þar sem reynt er að gera við lokuna í stað þess að skipta henni út fyrir gerviloku líkt og tíðkast til dæmis við mikil ósæðarlokuþrengsli. Kosturinn við viðgerð fram yfir lokuskipti er sá að sjúklingurinn heldur sinni eigin loku og sjaldan er þörf á ævilangri blóðþynningarmeðferð.
Orsakir míturlokuleka eru fjölbreyttar en gróflega má flokka undirliggjandi sjúkdóma í tvo hópa: Hrörnunartengdan og starfrænan míturlokuleka. Undir hrörnunartengdan leka flokkast sjúkdómar sem leggjast á lokublöð, stög og hring míturlokunnar sem getur valdið framfalli á öðru eða báðum blöðum lokunnar með tilheyrandi míturlokuleka. Starfrænn leki er hins vegar töluvert frábrugðinn leka vegna hrörnunar en þá er um að ræða sjúkdóm í hjartavöðvanum sjálfum sem hefur áhrif á starfsemi lokunnar. Algengustu orsakir starfræns leka eru blóðþurrðarsjúkdómur og hjartavöðvakvilli en einnig getur brátt hjartadrep orsakað lífshættulegan míturlokuleka.
Í nýlegri íslenskri rannsókn á langtímaárangri míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka kemur fram að horfur þessa sjúklingahóps eru góðar og sambærilegar almennu þýði af sama kyni og aldri. Á 15 ára rannsóknartímabili voru gerðar 105 aðgerðir, að meðaltali 7 aðgerðir árlega. Meðalaldur sjúklinga var tæp 58 ár og voru konur 20% þeirra sem gengust undir aðgerðina. Langflestir sjúklinganna voru með alvarlega hjartabilun fyrir aðgerð. Í aðeins fjórum tilvikum þurfti að skipta lokunni út fyrir gerviloku og viðgerðin tókst því í 96% tilvika sem þykir hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. 98% sjúklinga voru á lífi 30 dögum eftir aðgerð. Þá reyndist langtímaárangur einnig góður en fimm árum frá aðgerð voru 94% sjúklinga á lífi og yfir 90% höfðu ekki fengið alvarlegan síðkominn fylgikvilla svo sem heilablóðfall, langvinna hjartabilun eða hjartaáfall. Ekki var marktækur munur á lifun samanborið við almennt þýði af sama kyni og aldri.
Niðurstöðurnar eru ánægjulegar fyrir þá sem standa að meðferðinni hér á landi en ekki síst fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.
Hægt er að lesa nánar á eftirfarandi slóð.
https://www.laeknabladid.is/tolublod/2021/06/nr/7722