Á vef Landlæknisembættisins er kominn út fræðslubæklingur um sjálfvirk hjartarafstuðstæki sem ber heitið „AED – hjartarafstuðstæki“. Endurlífgunarráð hefur tekið bæklinginn saman, en efni hans er yfirfarið og samþykkt af landlækni. Í bæklingnum er fjallað um ábyrgð jafnt seljenda og notenda tækjanna.
Sjálfvirk hjartarafstuðstæki má nota ef vitni eru að hjartastoppi, skyndilegu meðvitundarleysi eða ef komið er að einstaklingi sem er meðvitundarlaus og slíkt tæki er innan seilingar. Tækin eru einföld í notkun og flestar tegundir sem eru á íslenskum markaði gefa notendum munnlegar leiðbeiningar á íslensku auk sem á þeim eru góðar skýringamyndir. Það skal tekið skýrt fram að litlar líkur eru á að valda skaða með notkun þeirra.
Endurlífgunarráð og landlæknir telja eðlilegt að sjálfvirk hjartarafstuðstæki séu tiltæk t.d. á sjúkrastofnunum þar sem læknir er ekki til taks allan sólarhringinn svo og í lögreglubifreiðum, í byggðarlögum þar sem útkallstími sjúkrabifreiða er langur, sem og á fjölmennum vinnustöðum og íþróttahúsum utan þéttbýlis, í skipum og flugvélum. Æskilegt er að ekki taki meira en fimm mínútur að nálgast hjartarafstuðstæki ef þörf er á tækinu.
Lesa nánar: AED – hjartarafstuðstæki (PDF)
www.landlaeknir.is 16.05.2008