Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að þessa dagana ríður enn ein Covid-19 bylgjan yfir okkur af miklum krafti. Að þessu sinni er það Omicron afbrigðið sem veldur usla korter fyrir jól.
Sóttvarnaraðgerðir hafa verið hertar og hér fyrir neðan er pistill frá sóttvarnarlækni um stöðuna.
Getum við fengið slæman faraldur af völdum COVID-19 þrátt fyrir góða þátttöku í bólusetningum?
Undanfarið hafa heyrst háværar raddir um að rétt sé að aflétta öllum eða flestum takmörkunum hér á landi vegna COVID-19 af þeirri ástæðu að þátttaka í bólusetningum sé hér með miklum ágætum.
Rétt er að hér hefur almenningur sýnt mikinn vilja til að mæta í bólusetningu gegn COVID-19 og þátttakan verið góð. Um 77% landsmanna hafa nú fengið tvær bólusetningar gegn COVID-19 og um 43% fengið þrjá skammta eða svokallaða örvunarbólusetningu.
Er þessi góða þátttaka ekki að skila neinum árangri? Svarið er jú því að almennar takmarkanir nú eru til muna vægari en t.d. fyrir ári og heilbrigðiskerfið okkar þolir miklu fleiri dagleg smit en það gerði áður en byrjað var að bólusetja.
Af hverju þarf þá að vera með takmarkanir fyrst þátttaka í bólusetningum er góð? Fyrst er til að nefna að tvær bólusetningar veita takmarkaða vernd gegn smiti af völdum delta afbrigðis veirunnar sem borið hafa uppi núverandi bylgju faraldursins en betri vernd gegn alvarlegum veikindum. Örvunarskammturinn veitir hins vegar mjög góða vernd bæði gegn smiti og alvarlegum veikindum og þá erum við að tala um smit af völdum delta afbrigðisins. Enn sem komið er hafa hins vegar 57% landsmanna ekki fengið örvunarbólusetningu og eru því móttækilegir fyrir smiti og alvarlegum veikindum.
Er vernd bóluefnanna minni gegn omicron afbrigði kórónaveirunnar? Eins áður hefur komið fram þá eru yfirgnæfandi líkur á því að omicron afbrigðið muni yfirtaka COVID-19 faraldurinn á næstu dögum eða vikum vegna mikillar smithæfni. Niðurstöður rannsókna sýna að vernd af völdum fyrri sýkinga og vernd af bólusetningum eru hins vegar minni en gegn delta afbrigðinu. Tvær bólusetningar veita að líkindum litla sem enga vernd gegn smiti eða alvarlegum veikindum en örvunarbólusetningin veitir sennilega talsverða vernd gegn alvarlegum veikindum en litla vernd gegn smiti.
Þannig eru um 57% þjóðarinnar móttækileg fyrir alvarlegum veikindum af völdum omicron afbrigðisins og jafnvel þó alvarleg veikindi séu hlutfallslega fátíðari en af völdum annarra afbrigða þá getur fjöldi smita orðið slíkur að fjöldi alvarlegra veikra skapi neyðarástand á sjúkrahúsum.
Þó að bólusetning gegn COVID-19 hafi vissulega skilað miklu í baráttunni við faraldurinn þá má óskhyggjan ekki blinda okkur sýn þegar við leggjum mat á COVID-19 faraldurinn og alvarlegar afleiðingar hans. Við verðum að nýta okkur þær upplýsingar sem liggja fyrir um raunverulegan árangur bólusetninganna og leggja þannig mat á þá hættu sem stafar af COVID-19. Samfélagslegum aðgerðum þarf jafnframt að beita á hóflegan og skynsamlegan máta til að vernda heilbrigði almennings.
Sóttvarnalæknir