Gestasálfræðingurinn okkar að þessu sinni er Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur á Heilsustöðinni og umfjöllunarefnið að þessu sinni er tengt tilfinningum okkar.
Okkur er eðlilegt að vilja úr vanlíðan yfir í vellíðan. Oft viljum við bara losna við verkinn, losna við aukakílóin, burt með vanlíðanina, burt með einkennið án þess að meta og virða hvað er verið að segja okkur; Verkurinn i bakinu, þegar maður situr skakkur við tölvuna segir: „Réttu úr þér svo þú skemmir ekki bakið þitt“. Mér ber að þakka verkinn og læra lexíuna um rétta líkamsbeitingu.
Að reyna að losna við þyngd með því að „tapa henni“, er svipað og að reyna að losna við að borga gjöld með því að rífa reikninginn; það kemur annar í póstinum og í þetta sinn með dráttarvöxtum. Hentu honum og afleiðingarnar versna.
Stundum viljum við drepa sendiboðann, alla vega þagga niður í honum, en hann kemur alltaf aftur. Væri ekki oft betra að hlusta á skilaboðin; Hvað er það sem ég þarf að takast á við í mínu lífi? Kannske lélegt fæðuval, skemmandi viðhorf, einmanakennd, sjálfshatur, sorg, áföll, langvarandi streita og álag, listinn er langur. Það tilheyra mannlífinu skin og skúrir og það er eðlilegt að upplifa óþægilegar eða erfiðar tilfinningar. Lífsgangan er stöðugar áskoranir, brekkur, lægðir og tindar. Stundum á lífsleiðinni lendum við í öngstræti með tilfinningar okkar og þá er oft gott að hafa fararstjóra; njóta handleiðslu einhvers sem sérhæft hefur sig í ógöngunum og leiðunum út – hefur kynnt sér leiðina og oft fylgt fólki upp fjallið. Þú gengur gönguna sjálfur og berð þinn eiginn bakpoka, en færð hjálp til að taka til í sálarskjóðunni. Kannske ertu að burðast með gamalt íþyngjandi fortíðardrasl eða óæskilegar venjur, sem þú velur að losa þig við. Þú lærir að þekkja þitt góss; tilfinningar, hugsanir, viðhorf og venjur. Ýmsu velurðu að halda, annað var kannske einu sinni gagnlegt en er það ekki lengur; Þú þakkar kenndinni eða viðhorfinu samfylgdina og lætur svo róa. Það er ekkert að okkur þótt við leyfum okkur stundum að njóta leiðsagnar sérfróðra við að fóta okkur á mishálum brautum lífsins.
Oft er vegurinn beinn og breiður, en stundun krákustígar og þyrnum stráðar brautir.
Það getur verið snúið að átta sig á skilaboðum einkenna okkar og tilfinninga. Hvað eru þau að segja, til hvers benda þau, hverju vil ég breyta í mínu lífi, hvernig get ég unnið mig út úr vandanum, tileinkað mér þroskann eða lært lexíuna?
Með því að skilja, viðurkenna og vinna með tilfinningar sínar, fremur en hundsa þær og kæfa er maður líklegri til að auka styrk sinn, visku og samkennd. Þá koma einnig raunverulegar breytingar á lífsstíl meira af sjálfu sér; Þegar að verkurinn er farinn þá þarf maður ekki deyfilyfið eða flóttaleiðina. Okkur verður eiginlegra að umgangast okkur sjálf jafnt og aðra af næmni og virðingu fyrir þörfum og veitum okkur heilbrigt atlæti.
Er ekki nokkuð til í því sem að þjóðskáldið segir; …“þá er það víst að bestu blómin gróa, í brjóstum sem að geta fundið til“?
Heiðdís Sigurðardóttir, sálfræðingur