Eftir að hafa verið í sex vikur heima eftir hjartaáfallið var ég heldur nær því að átta mig á því hvað hafði gerst. Ég gerði mér hinsvegar enga grein fyrir því hvaða afleiðingar hjartaáfallið hefði á mig umfang skemmdarinnar á hjartanu og hvernig líf mitt myndi breytast.
Ég var kvíðinn og órólegur þegar ég steig inn um dyrnar á Reykjalundi þann 23. Mars 2003. Mér fannst illa fyrir mér komið og ég átti erfitt með að finna samsvörun á milli mín og þess fólks sem var á Reykjalundi, svo illa áttaður var ég á ástandi mínu.
Þetta fór hægt af stað, ég var nokkuð góður með mig og hafði trú á því að ég yrði fljótur að hrista þetta af mér. Þrekpróf fyrstu vikuna setti mig niður á jörðina, staðreyndir lágu á borðinu og ég reyndar líka. Með öðrum orðum ég var fluttur á sjúkrabörum úr þrekprófinu og inn á deild og upp í rúm.
Þar sem ég jafnaði mig eftir þrekprófið fann ég tár hrynja niður kinnarnar á mér og það rann upp fyrir mér að ég væri illa staddur. Kannski væri leiðin til bata stráð fleiri þyrnum en mig hafði grunað.
Ég varð óumræðilega sorgmæddur og mér fannst hlutskipti mitt ekki sanngjarnt. Þarna varð mér líka ljóst að tilfinningin mín yfir því að greiningin og læknismeðferðin mín hafði ekki verið sem skildi fór að hafa meiri vigt og taka á sig skýrari mynd.
Mér fannst um margt eins og ég hefði verið sviptur hluta af sjálfum mér og væri deyjandi maður. Þrátt fyrir þessa heldur nöturlegu niðurstöðu mína hélt ég áfram því mér var mikið í mun að leggja mig allan fram um það að ná árangri. Þegar nær dró útskrift á mínum hóp lá ljóst fyrir að ekki ætti fyrir mér að liggja að útskrifast að þessu sinni.
Það var erfitt að sjá á eftir mönnum og konum sem höfðu komið inn á sama tíma og ég og voru að útskrifast, hressari, iðandi af lífsgleði á leið út í vorið með nýtt líf í farteskinu. Ég sat eftir á bekk með kökk í hálsi.
Ég átti nokkrum sinnum eftir að sitja á bekk og horfa á eftir fólki útskrifast og kökkurinn sat fastur í hálsinum á mér. Eftir því sem vikurnar liðu varð æ ljósara að hjartað í mér var illa skemmt eftir hjartaáfallið og útlitið sannarlega ekki gott.
Sú hugsun kom oft upp í kollinn á mér af hverju fékk ég ekki bara að deyja í stað þess að þurfa að horfa upp á sjálfan mig hverfa smám saman. Á milli þess sem ég var dapur og sorgmæddur yfir örlögum mínum kviknaði öðru hvoru ljósglæta og hún varð mér til lífs.
Næstu vikur fóru mikið í það að reyna að átta sig á þeirri stöðu sem ég var komin í og hvaða möguleikar væru í stöðunni. Þetta var mér erfiður tími en það að fá að vera inni á Reykjalundi og hitta þar fólk sem var jafnvel enn verr statt en ég var mér huggun og í þessu fólki sá ég ljósglætuna.
Það var komið að útskriftardegi hjá mér en ég var ekki að fara heim heldur inn á spítala aftur þar sem framundan var hjartaþræðing númer tvö ásamt fleiri rannsóknum.
Ég var beygður en ekki bugaður. Á Reykjalundi hafði ég kannski ekki fengið nýtt líf og þó. Ég hafði kynnst hugrekki fólks og það var mér hvatning um að vera hugrakkur. Ég hafði líka eignast von, von um það að fá að lifa skipti máli þegar upp væri staðið.
Reykjavík 05.01.2009
Björn