-Auglýsing-

Dagarnir eftir aðgerð

803695 34537223Fyrstu dagarnir eftir eftir aðgerðina 2004 voru Bjössa erfiðir en hann tók þessu með æðruleysi. Í aðgerðinni kom í ljós að ástandið á hjartanu hans var heldur verra en áður var talið og í ljós kom að þykktin á hjartaveggnum þar sem gúlpurinn var staðsettur var einungis um 1 mm, með öðrum orðum líf hans hafði verið í bráðri hættu.

Hér eru dagbókarbrot fyrstu dagana eftir aðgerðina.

-Auglýsing-

Fimmtudagur 10. Júní 2004

Nóttin var erfið og ljóst er að það gengur illa að ná verkjunum úr Bjössa. Hann er ekkert farinn að slaka á eða hvílast. Það var mikið í gangi fyrir hádegið, hann fór í röntgen og alls konar mælingar og blóðprufur. Þegar ég kom til hans um hálf ellefu þá var hann með verki. Ég ákvað að reyna að koma til hans músíkinni sem hann hefur svo oft notað til að slaka betur á. Leitaði út um allt á 12E að spilaranum en fann hann ekki. Ég fór því til Bjössa og hann var það skýr að hann mundi að hann hefði sett hann í geymslu hjá hjúkkunum á 12E og hann væri þar. Það var erfitt til þess að hugsa að Bjössi minn þjáðist svona mikið, en ég var samt bara svo rosalega fegin að hann væri á lífi að það hélt mér rólegri. Ég fann spilarann og fór með til hans. Mér fannst ótrúlegt hvað Bjössi var vel með á nótunum þó hann væri rosalega kvalinn og fullur af dópi. Við ákváðum að það gæti verið gott fyrir hann að fá séra Bjarna í heimsókn til sín svo ég fór í kyrrðarstundina í Laugarneskirkju og bað Bjarna að kíkja við hjá honum.

- Auglýsing-

Friðrika tók upp á því að nudda tærnar á Bjössa í dag. Ótrúleg hugmynd hjá henni sem virkaði eins og besta morfín og blíðustu ástarorð. Ég vissi það nú fyrir að snerting væri eitthvað sem virkaði vel á karlinn en í þessum aðstæðum, eina ferðina enn, var ég bara tóm og vissi ekkert hvað ég ætti að gera eða gæti gert. En tillitssemin í Friðriku var einstök, hún meira að segja spurði mig fyrst hvort mér þætti það í lagi að hún nuddaði hann. Ég var snortin af hugulseminni og athyglinni sem hún veitti honum og auðsýndri alúð í umönnun hans. Hann var náttúrulega mjög kvalinn ennþá en nuddið gaf honum styrk og ró, gaf honum þrek til að halda þetta út.

Baráttan við verkina hélt samt áfram að vera erfið í dag en gott þó að losna við ósæðadæluna, sem var tekin um hádegið. Sem betur fer gekk það vel og fljótt fyrir sig og sandpokinn sem settur var á nárann til að halda sárinu lokuðu truflaði Bjössa ekki mikið. Ég hafði verið örlítið hrædd, eða kannski óviss um hvernig það yrði því hann er alltaf svo aumur í náranum eftir hjartaþræðinguna númer tvö þegar gaurinn reif allt draslið út úr honum þegar henni var lokið í stað þess að draga þetta út hægt og rólega. Gæti alveg lamið hann! Lítið veit hann að örlítil vandvirkni og tillitssemi gagnvart sjúklingnum hefði getað breytt miklu um almenna velferð hans. Ég spurði hvort þessi barátta við verkina gengi óvenju illa og svarið var já… þetta gengur frekar illa… Æ, æ, greyið Bjössinn minn .

Ég hugsaði til þess í dag að ég gat mögulega gleymt mér, horft á sjónvarpið og klukkan væri allt í einu búin að líða um heilan klukkustund. Hjá Bjössa væri þetta örugglega búið að líða ansi hægt og ekki mögulegt að gleyma sér. Hann hlýtur að telja sekúndur þegar hann kvelst svona. Erfið tilhugsun og ég fékk smá samviskubit yfir að hann væri kvalinn en ekki ég! Hvernig stenst sú hugsun? En aftur, þá var ég sannfærð um að þetta gengi samt ótrúlega vel enda væru verkir það eina sem hann væri að kljást við, sem er nú jákvætt ef maður hugsar til þess sem mögulega getur farið úrskeiðis.

Ég fór aftur til hans seinnipartinn og stoppaði þá lengur. Friðrika var á vaktinni og mér líkar ofsalega vel við hana. Allt starfsfólkið reyndar. Bjössi spjallaði heilmikið og sagði Friðriku t.d. allt um söguna sína og afleiðingar þess að hafa lent í læknamistökunum sem gerðu hann þetta veikan sem hann er. Hann var vel með á nótunum en leið ekkert sérlega vel þó. Hann sagði samt að verkirnir væru búnir að lækka úr svona 7-8 í svona 4. Ég reyndar veit að skalinn hans Bjössa er ekki eins og minn. Þegar hann talar um verki sem eru 4 þá er ég ansi hrædd um að ég væri vælandi yfir þeim, þó hann gerði það ekki. Hann er svo mikil dúlla, hann liggur þjáður á gjörgæslu en hafði samt vit á því að vera góður við mig og var að segja mér hvað ég væri falleg 🙂 Ótrúlegur maður.

Það mætti þarna sjúkraþjálfari til að gera öndunaræfingar með Bjössa. Eins og sjúkraþjálfarar eru nú annars stórskemmtilegt fólk þá reitti hún hann til svo mikillar reiði að hann keyrði sig út í æfingunum á skapinu einu saman og verkirnir hækkuðu aftur upp í 7-8. Argh… Skrítið þegar fólk kemur ekki fram við sjúklinga eins og einstaklinga. Ég klagaði sjúkraþjálfarann auðvitað samstundis og var sagt að málið yrði tekið upp með viðkomandi. Ég fór fljótlega eftir þetta en þá átti Bjössi eftir langa nótt, mikla verki og lítinn svefn. Öndunaræfingin náðist upp í tæplega 500 ml í dag.

Þessar öndunaræfingar sem um ræðir eru gerðar með litlu sérbúnu plasthylki sem er þjálfunar og mælitæki fyrir innöndun. Tilgangurinn er að þjálfa upp lungun og sporna þar með við slæmum afleiðingum svo sem lungnabólgu eftir svæfingu og aðgerð. Kvarðinn á tækinu er 500 millilítrar lofts til 5000 millilítrar en norm fyrir fólk er misjafnt eftir aldri og hæð. Fyrir karlmann á aldri við Bjössa er eðlilegt að ná mælingu í kringum 3000 millilítra.

Föstudagurinn 11. Júní 2004

Nóttin var ekki góð. Bjössi var áfram með mikla verki og svaf lítið. Loksins var samt planað að taka drenin sem eru tvær slöngur sem liggja út um magann á honum og losa vökva úr kviðarholinu. Þá lagast þetta vonandi því þau valda miklu af sársaukanum. Reyndar er það víst svakalega sárt að taka drenin svo ég kveið því að hann þyrfti að fara í gegnum það. Nóg finnst mér nú á hann lagt greyið. Þegar ég hringdi þá var búið að ákveða að útskrifa hann af gjörgæslu og senda hann á 12E. Drenin yrðu svo líklega tekin þar. Hann fór í röntgen og blóðprufur um morguninn og stóð upp í fyrsta skiptið með nýjum sjúkraþjálfara. Hjúkkurnar sögðu það hafa gengið svakalega vel en þegar ég fékk að tala aðeins við hann í síma áður en hann var fluttur á nýja deild, sagði hann það hafa verið hroðalegt. Um 11 leytið var hann færður á stofu 6 á 12E.

Þetta lítur út fyrir að verða erfiður dagur. Drenin voru tekin rétt eftir hádegið og ég beið frammi á meðan. Hann var svakalega lyfjaður. Þetta var víst vont en minning hans um það er mjög óljós, enda náðu lyfin að slá mikið á það hversu meðvitaður hann var á meðan þó hann væri alveg vakandi. Ég sat hjá honum fram eftir degi og lagaði hann til í rúminu, hækkaði og lækkaði bakið, lagaði hann til í rúminu, hækkaði bakið, lækkaði bakið, hækkaði bakið, lækkaði bakið, lagaði hann til í rúminu, hækkaði bakið og fór svo heim.

Mjöll Jónsdóttir hjartamaki

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-