„Ég sá bara manninn skyndilega hníga niður,“ segir Rúnar Árnason, bóndi í Neðritungu, sem með snarræði tókst að bjarga lífi karlmanns sem fékk hjartastopp í Brjánslæk á fimmtudag.
Rúnar var staddur í miðasölunni í Brjánslæk, þar sem Breiðafjarðarferjan Baldur leggst við bryggju, um sexleytið þegar hann sá manninn hníga niður. „Ég stóð rétt hjá honum og hljóp að sjálfsögðu strax til og byrjaði að hnoða,“ segir Rúnar en maðurinn sem er á sextugsaldri var hættur að anda. Eftir að hafa hnoðað hann í einhvern tíma, rankaði maðurinn við sér og byrjaði að anda af sjálfsdáðum.
„Hann bara náði sér og fór að anda. Það var kallað í lækni og læknirinn var ekki kominn þegar ég fór af stað yfir Breiðafjörð. En maðurinn var staðinn upp og farinn að ná sér.“ Læknirinn sem kom á staðinn kallaði á þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti manninn á Landspítalann til frekari rannsókna.
Rúnar segir tilfinninguna hafa verið góða þegar maðurinn komst til meðvitundar, en vill annars ekki gera mikið úr afreki sínu. Hann segist ekki áður hafa þurft að beita skyndihjálparkunnáttu sinni.
www.dv.is 19.04.2011