Mataræði skiptir miklu máli fyrir alla sem lifa með hjarta og æðasjúkdómum. Einnig er mælt með því að fólk tileinki sér mataræði sem er ekki bólguvaldandi. Þetta á ekki síst við um þá sem eru með hjartabilun samkvæmt nýlegri rannsókn.
Fólk með hjartabilun ætti ekki að vera á mataræði sem inniheldur mikið af bólguvaldandi matvælum. Nýjar rannsóknir sýna að þeir eru tvöfalt líklegri til að lenda á sjúkrahúsi eða deyja en þeir sem borða mat sem vitað er að dragi úr bólgum í líkamanum.
„Fólk með hjartabilun ætti að draga úr neyslu bólguvaldandi matvæla því það gæti hjálpað þeim að lifa lengur,“ sagði einn af stjórnendum rannsóknarinnar Jung Hee Kang, doktorsnemi við háskólann í Lexington í Kentucky.
Mataræði lykilatriði
Sýnt hefur verið fram á að mataræði gegnir hlutverki við að stjórna bólgum í líkamanum sem tengjast mörgum langvinnum sjúkdómum, þar á meðal hjarta og æðasjúkdómum. Sýnt hefur verið fram á að mataræði sem inniheldur mikið af rauðu kjöti, unnu korni og fituríkum mjólkurafurðum eykur bólgumyndun en aftur á móti hefur verið sýnt fram á að ólífuolía, heilkorn, ávextir og grænmeti lækka bólguþætti í líkamanum.
Rannsóknin
Kang skoðaði gögn úr fyrri rannsókn þar sem teymi hennar bað 213 hjartabilunarsjúklinga um að halda dagbækur um það sem þeir borðuðu í fjóra daga. Þeir flokkuðu síðan mataræðið með því að nota vísitölu sem flokkar matvæli út frá því hvort þau væru bólguvaldandi eða myndu draga úr bólgum. Eftir að hafa fylgst með þátttakendum í eitt ár fundu þeir út að þeir sem neyttu meira af bólguvaldandi matvælum voru meira en tvöfalt líklegri til að deyja eða vera lagðir inn á sjúkrahús samanborið við þá sem neyttu matvæla með lægri bólgustuðul sem dró þar með úr bólgum.
Niðurstöðurnar voru kynntar á vísindafundum Bandarísku hjartasamtakanna í síðasta mánuði. Rannsóknirnar eru kynntar sem frumniðurstöður þar til þær verða birtar í ritrýndu tímariti.
Mikilvæg rannsókn
„Það er vel þekkt að mataræði gegnir mikilvægu hlutverki í þróun hjartasjúkdóma og heilablóðfalls,“ sagði Dr. Amit Khera prófessor í læknisfræði og forstöðumaður hjartalækninganáms við Háskólann í Texas” Þetta er enn ein áminningin um að mataræði skiptir miklu máli þegar kemur að heilsufari. Eina sem kom mér á óvart var umfang áhrifanna.”
Dr. Khera sagði að rannsóknin væri einnig mikilvæg vegna þess að hún skoðaði sérstaklega hjartabilaða en fyrri rannsóknir á mataræði beindust meira að hjartaáföllum og heilablóðfalli. Samkvæmt tölfræði Amerísku hjartasamtakanna er áætlað að 6,2 milljónir fullorðinna í Bandaríkjunum lifi með hjartabilun. Hjartabilun er það ástand þegar afkastageta hjartans er takmörkuð af einhverjum orsökum og dælir þar með ekki nægu súrefnisríku blóði til að styðja við starfsemi líkamans.
Mismunandi mataræði á margt sameiginlegt
Mikið af því mataræði sem almennt er talið hjartvænt „á í rauninni meira sameiginlegt en það sem skilur þá að,“ sagði Khera sem höfundur leiðbeininga AHA og American College of Cardiology um hvernig best sé að koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.
Til dæmis inniheldur Miðjarðarhafsmataræðið sem samanstendur af matarmynstri sem algengt er í löndum sem liggja að Miðjarðarhafinu með ólífuolíu sem aðal fituuppsprettu, mikið af ávöxtum, grænmeti, korni, baunum, hnetum og fræjum og lítið magn af mjólkurafurðum, eggjum, fiski og alifuglum.
DASH mataræðið (Dietary Approaches to Stop Hypertension) var á meðal annars ætlað að hjálpa til við að lækka blóðþrýsting inniheldur einnig mikið af grænmeti, ávöxtum og heilkorni og takmarkar matvæli sem inniheldur mikið af mettaðri fitu. DASH mataræðið leyfir aftur á móti meira prótein úr fitusnauðum mjólkurvörum, kjöti og alifuglum.
Leiðbeiningarnar um mataræði mæla með plöntumiðuðu mataræði og mataræði sem tekur mið af Miðjarðarhafinu en takmarka unnin matvæli, unnin kolvetni, kólesterólríkan mat, salt og sæta drykki.
„Það er mikil skörun,“ í hjartavæna mataræðinu sagði Khera. “Þetta er eins og Venn-skýringarmynd. Sæti bletturinn er í miðjunni.”
Það sem þarf að skoða núna, sagði Kang, eru rannsóknir til að staðfesta hvort hægt sé að nota bólgueyðandi mataræði til að draga úr dánartíðni hjartabilunar.
Þýtt og endursagt af vef Amerísku hjartasamtakanna.
Björn Ófeigs.