Betur fór en á horfðist þegar breskur flugmaður blindaðist í kjölfar hjartaáfálls sem hann fékk í miðju flugi. Flugmaðurinn, sem heitir Jim O‘Neill, var á flugi frá Skotlandi til suðausturhluta Englands í síðustu viku þegar hann fékk skyndilega mikinn verk fyrir brjóstið. Í kjölfarið missti Jim sjónina en þá var hann í 5.500 metra hæð.
„Þetta var hræðilegt. Skyndilega sá ég ekki neitt,“ segir Jim en hann hélt fyrst að hann hefði blindast af sólinni. Hann hafði umsvifalaust samband við fulltrúa flugmálastjórnar sem reyndu hvað þeir gátu að aðstoða Jim við að lenda vélinni sem var af gerðinni Cessna.
Flugmálastjórnin náði að hafa upp á öðrum flugmanni, Paul Gerrard, sem var á æfingaflugi skammt undan. Hann kom auga á vél Jims og fylgdi honum eftir. Gerrard náði að leiðbeina Jim nægilega vel til að hann gæti lent vélinni heilu og höldnu.
Jim O‘Neill er nú á sjúkrahúsi þar sem hann jafnar sig eftir hjartaáfállið en samkvæmt frétt BBC var það blóðtappi sem orsakaði hjartaáfallið. Hann hefur nú endurheimt sjóninaað hluta en búist er við því að hann nái sér að fullu.
www.dv.is 10.11.2008