Finnurðu hlýja tilfinningu breiðast út frá hjartanu þegar þú hugsar um ástina þína? Myndirðu kannski frekar segja að hjartað missi úr slag eða fari jafnvel að slá hraðar?
Mannkynið hefur lengi lýst hjartanu sem uppsprettu tilfinninga, líklega allt frá tímum Fornegypta og Grikkja. Aristóteles var til að mynda á þeirri skoðun að hugurinn væri í hjartanu, að uppruni hugsunar og tilfinninga væri í þessari lífaflfræðilegu dælu sem heldur í okkur lífinu.
Dr. Sandeep Jauhar, hjartalæknir og rithöfundur í New York, rýnir myndræna merkingu hjartans og kannar tengslin milli þessa hnefastóra líffæris og „hjarta ástarinnar“ í bók sinni „Heart: A History“. Vill hann meina að hin myndræna merking hjartans sé hvernig mannfólkið skynjaði það áður en vísindin komu til sögunnar. Það hafi verið fræ sálarinnar, þar sem tilfinningar eins og ást og hugrekki bjuggu.
Segist hann hafa tekið eftir því á 20 ára starfsferli sínum sem hjartalæknir að hið myndræna hjarta, það sem hann kallar „hjarta ástarinnar“, hafi bein áhrif á hið líffræðilega hjarta og að einstaklingar sem eigi í heilbrigðum og ástríkum samböndum búi almennt við betri hjartaheilsu.
Ástin byrjar í heilanum
Við köllum það „að verða ástfangin“ eins og um sé að ræða ástand sem við höfum enga stjórn á. Þetta mikla flóð tilfinninga sem við tengjum við hjartað hefst þó í raun og veru í heilanum.
Hrifningin sem við finnum fyrir í upphafi kemur af stað dópamínferli djúpt í miðju heilans. Taugaboðefnið dópamín er þekkt fyrir að framkalla vellíðunartilfinningu, en það gefur okkur líka boð um að taka vel eftir og að búa okkur undir laun erfiðis okkar.
Dópamínið undirbýr okkur fyrir næsta skref: ástríðu, eða það sem sumir myndu jafnvel kalla þráhyggju. Mikið magn dópamíns dregur úr magni annars taugaboðefnis, serótóníns, en rannsóknir hafa sýnt að það er einmitt það sama og gerist hjá fólki sem glímir við áráttu- og þráhyggjuraskanir.
Heilinn gefur nýrnahettunni jafnframt boð um að losa adrenalín og noradrenalín. Það er því engin furða þó við finnum fyrir skjálfta og líði eins og hjartað sé að springa í upphafi ástarsambands.
Heilinn leggur svo lokahönd á verkið með því að losa oxytósín, oft kallað „ástarhormónið“ vegna þess að það hjálpar pörum að tengjast sterkum böndum. Oxytósín er taugapeptíð sem heiladingull framleiðir þegar við finnum fyrir nánd, til dæmis við faðmlög, kossa og fullnægingar.
Ástin er góð fyrir hjartað
Þetta flæði ástarhormóna um líkamann hefur ótrúleg áhrif á taugakerfið, og þar af leiðandi einnig á hjartað. Hin hlýja og notalega tilfinning sem fylgir ástinni örvar seftaugakerfið og hjálpar okkur þar með að slaka á, auk þess að draga úr streitu, þunglyndi og kvíða.
Þessi sama tilfinning dregur einnig úr virkni driftaugakerfisins, sem er ábyrgt fyrir hinum svokölluðu flótta- og árásarviðbrögðum (e. fight or flight reactions). Að sögn Dr. Jauhar hafa æðarnar okkar tilhneigingu til að víkka aðeins meira og blóðþrýstingur að lækka þegar við slökum á.
Rannsókn á 60 pörum leiddi í ljós að blóðþrýstingur þeirra var lægri þegar þau nutu samvista við hvort annað heldur en annað fólk. Það kom á óvart að blóðþrýstingslækkun átti sér stað, jafnvel þegar pörunum fannst sambandið ekki vera á góðum stað.
Rannsóknir sýna að giftir einstaklingar eru almennt í minni hættu á að þróa með sér hjartavandamál en einhleypir einstaklingar. Er það í samræmi við greiningu á yfir 280.000 körlum og konum sem voru hluti af National Longitudinal Mortality Study, þróun bandarísks gagnagrunns í þeim tilgangi að fylgjast með áhrifum lýðfræðilegra, félagslegra og hagfræðilegra einkenna á dánartíðni landsmanna. Virtist hjónaband þar vera einn þeirra þátta sem drógu úr líkum á hjartasjúkdómum.
Dr. Jauhar bendir á að félagslegur stuðningur virðist einnig hafa jákvæð áhrif á ónæmiskerfið og draga úr bólgu, sem er einn af þeim þáttum sem getur haft slæm áhrif á hjartað. Vísindamenn í Pittsburgh í Bandaríkjunum framkvæmdu áhugaverða rannsókn þar sem félagsleg staða þátttakenda með tilliti til stuðningsnets vina, ættingja og samtaka var skoðuð og kvefveiru í kjölfarið sprautað upp í nef þeirra. Þeir sem voru sterkari félagslega reyndust ólíklegri til að veikjast af veirunni.
Tengsl virðast einnig vera á milli kynlífs og sterkara ónæmiskerfis. Rannsókn á háskólanemum í heilbrigðum samböndum leiddi í ljós að munnvatn þeirra þátttakenda sem stunduðu kynlíf allavega einu sinni til tvisvar í viku innihélt meira magn af immúnóglóbíni A, en það er fyrsta vörn líkamans gegn öndunarfærasjúkdómum.
Ástrík sambönd virðast jafnframt hafa jákvæð áhrif á hjartað með því að hvetja einstaklinga til heilbrigðari lífstíls.
Dr. Jauhar nefnir að einstaklingar í ástríkum samböndum séu líklegri til að hlusta á maka sinn þegar hann hvetur þá til að taka lyfin sín eða leita til læknis. Einnig séu heilbrigð sambönd hvetjandi þegar kemur að því að koma sér fram úr sófanum, hætta að reykja eða losa sig við aðrar slæmar venjur.
Áhrif hjartasorgar
Því miður er ástin ekki einungis dans á rósum enda bendir Dr. Jauhar á að fólk sem sé í ástlausu eða erfiðu sambandi við maka eða börn, óánægt í starfi eða lífinu almennt hafi frekar tilhneigingu til að þróa með sér hjartasjúkdóma. Þunglyndi geti valdið æðabólgu og aukið líkur á blóðtöppum, en blóðtappar í æðum sem leiða til hjartans eru ein algengasta orsök hjartaáfalla.
Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar sem gengið hafa í gegnum marga hjónaskilnaði séu í meiri hættu á að fá hjartaáfall, þá sérstaklega konur. Raunar voru tvífráskildar konur í 77% meiri hættu á að fá hjartaáfall en tvífráskildir menn í 30% meiri hættu. Athygli vakti að fráskildir menn voru ekki lengur í áhættuhópi eftir að þeir fundu ástina að nýju en það sama átti ekki við um fráskildar konur. Þær voru áfram í mun meiri hættu á að fá hjartaáfall þrátt fyrir að vera komnar í nýtt hjónaband.
Hætta á hjartaáfalli er mest fyrsta árið eftir að upp úr ástarsambandi slitnar að sögn Dr. Jauhar. Ef að einstaklingur sem ekki býr að sterku félagslegu stuðningsneti fær hjartaáfall er það líklegra til að draga hann til dauða, auk þess sem hann á jafnan fyrir höndum lengra bataferli komist hann lífs af.
En þar með er ekki allt sagt. Sambandsslit geta brotið hjarta þitt í bókstaflegri merkingu. Til er fyrirbæri sem á ensku kallast „broken heart syndrome“ en hefur á íslensku verið nefnt harmslegill. Samkvæmt Dr. Jauhar á það sér stað þegar hjartað breytir um lögun til að bregðast við bráðu tilfinningalegu uppnámi, svo sem endalokum ástarsambands eða ástvinamissi.
Þessi hjartavöðvakvilli virðist aðallega herja á konur. Í kjölfar skyndilegrar og bráðrar streitu veikist vinstri slegill hjartans. Í stað þess að taka á sig örvarlaga lögun verður hann ávalur og pottlaga.
Þetta fyrirbæri hefur í gegnum tíðina oft verið kallað Takotsubo hjartavöðvakvilli, en því var fyrst lýst í Japan árið 1990 og þótti líkjast svo japanskri kolkrabbagildru sem kallast takotsubo að viðurnefnið festist.
Dr. Jauhar tekur fram að þegar þessi bráða tilfinningalega streita líði hjá jafni hjartað sig í flestum tilfellum og taki á sig eðlilega lögun á ný. Hann hafi hinsvegar fengið til sín sjúklinga með bráða hjartabilun eða lífshættulegar hjartsláttartruflanir sem jafnvel hafi leitt til dauða og í raun sé þessi hjartasjúkdómur eitt skýrasta dæmið um áhrif tilfinningalífs á hjartað.
Ræktaðu ástina
Ekki þarf þó að örvænta þó að ástarlífið sé ekki upp á marga fiska því að vísindin gefa til kynna að ekki þurfi endilega rómantíska ást til að líkaminn losi umrædd taugaboðefni. Nóg sé að finna til væntumþykju og ástúðar.
Dr. Jauhar bendir á að í lífi margra séu mikilvægustu samböndin ekki endilega ástarsambönd heldur sambönd við börn, foreldra og jafnvel gæludýr. Hann telji ekki að viðfang ástarinnar skipti öllu máli heldur frekar að þessi hlýja tilfinning sé til staðar innra með okkur.
Með því að faðma vin eða fjölskyldumeðlim aukum við framleiðslu á oxytósíni, vellíðunarhormóninu sem fær okkur til að slaka á. Rannsóknir benda til þess að faðmlög geti verndað okkur gegn áhrifum átaka og streitu, mögulega með því að lækka blóðþrýsting og hjartsláttartíðni.
Sjálfboðastarf er önnur leið til að skapa heilbrigð tengsl og bæta geðheilsuna. Rannsóknir hafa sýnt fram á lægri dánartíðni fólks sem sinnir sjálfboðastörfum og að einstaklingar sem glími við langvarandi og þrálát veikindi finni síður fyrir sársauka þegar þeir láti gott af sér leiða.
Ekki má svo gleyma loðnu vinum okkar. Heilsufarslegur ávinningur af því að eiga gæludýr er vel rannsakað viðfangsefni, og njóta eigendur og gæludýr bæði góðs af. Miðstöðvar sjúkdómavarna og forvarna í Bandaríkjunum hafa sett saman lista yfir heilsufarslega kosti þess að elska gæludýr. Má þar nefna lægri blóðþrýsting, minna magn kólesteróls og þríglýseríða og meiri hvata til hreyfingar, útivistar og félagsmótunar.
Svo virðist sem Stephen Stills hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann söng „Love the one you‘re with“.
Björn Ófeigs.
Heimild: https://edition.cnn.com/2019/02/14/health/love-heart-health/index.html?fbclid=IwAR13e2fhmkKS4oXyyEwQY3PLvJ-i4QVgmhoINHNvPuwsvcRAiDXwRVHlAbo