Matreiðslumeistarinn Úlfar Finnbjörnsson sér um sjónvarpsþáttinn Eldað með Holta á ÍNN. Þar eldar hann ljúffenga rétti úr Holtakjúklingi fyrir áhorfendur.
Þættinir eru auk þess aðgengilegir á Hjarta TV hér á hjartalif.is auk þess sem hægt er að fara beint í uppskriftarsafn Holta hér.
Í uppskrift vikunnar frá Holta-kjúklingi færir Úlfar lesendum uppskrift að afmæliskjúklingi með cumin-hunangi og myntu
6 kjúklingalæri, úrbeinuð og skorin í munnbita
4 bambusgrillpinnar, lagðir í bleyti í 30 mínútur
15 g fersk mintulauf, söxuð
2 grænir chili-belgir (með eða án fræja)
1 msk. balsamedik
2 tsk. malað cumin
½ tsk. cayenne
2 tsk. hunang
½ tsk. sjávarsalt
½ tsk. nýmalaður svartur pipar
Öllu blandað saman í skál, nema kjúklingnum, og hrært vel. Kjúklingur lagður í grunnt fat og kryddblöndunni smurt jafnt yfir hann. Plastfilma sett yfir og kjúklingur látinn standa í ísskáp í 1-4 klukkutíma. Bitar þræddir upp á spjót og grillaðir þar til kjötið er gegnsteikt eða í u.þ.b. 10-15 mínútur. Skreytt með ferskri myntu.
Sprengdar kartöflur
6-8 nýjar meðalstórar kartöflur
500 ml vatn
3 msk. ólífuolía
4 hvítlauksrif, fínsöxuð
2 msk. saxað tímían
2-3 msk. ólífuolía (í hvítlauks-tímíanblönduna)
Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk.
Ofninn hitaður í 225 gráður. Vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Kartöflunum bætt við og soðnar þar til gaffall rennur viðstöðulaust í gegn. Bökunarpappír lagður á plötu og ólífuolíu dreypt rausnarlega yfir. Mjúkar kartöflur lagðar á plötuna með góðu bili á milli. Þrýst varlega með hreinu viskustykki ofan á kartöflurnar svo þær springi en haldi samt lögun.
Hvítlaukur og tímían steikt í ólífuolíunni.
Salti og nýmöluðum svörtum pipar stráð yfir kartöflurnar og hvítlauks- og tímíanolíunni dreypt yfir.
Bakaðar í 20-25 mínútur eða þar til kartöflurnar eru gullinbrúnar.
Tyrknesk jógúrtsósa með truffluolíu
2½ dl grísk jógúrt
2-3 dropar truffluolía
1 tsk. hunang
2-3 hvítlauksrif
salt eftir smekk
Hálf teskeið af chili-flögum
Jógúrtin sett í skál og hvítlauk, truffluolíu, hunangi og salti blandað saman við. Chili-flögum dreift yfir.
Kjúklingalærin borin fram með sprengdum kartöflum, tyrknesku jógúrtsósunni og fersku salati.