Áfallastreituröskun er kvíðaröskun sem fólk getur þróað með sér eftir alvarlegt áfall þar sem lífi eða velferð viðkomandi eða einhvers annars er ógnað.
Það sem einkennir þessa röskun er að fólk endurupplifir atburðinn á einn eða annað hátt, fær martraðir eða ágengar minningar sem eru svo ljóslifandi í huganum að það er eins og atburðurinn sé að gerast aftur. Fólki líður mjög illa þegar það er á einhvern hátt minnt á atburðinn og forðast allt sem getur virkjað minningarnar. Andlegri líðan hrakar, hugsun verður neikvæðari og lundin þyngri, líkamlega spennan verður meiri, svefn raskast, fólk verður meira pirrað, á varðbergi og einbeitning verður erfið.
Áfallastreituröskun er vel þekkt t.d. hjá fólki sem hefur lent í líkamsárásum, kynferðisofbeldi, náttúruhamförum og stríði. Minna hefur þó verið rannsakað um algengi þessarar röskunar hjá sjúklingum. Nokkrar rannsóknir hafa þó verið gerðar og hafa niðurstöður þeirra verið mismunandi eftir því hvaða skilgreiningum og viðmiðum hefur verið unnið út frá.
Fyrir nokkrum misserum var birt rannsókn, sem finna má hér sem dró saman niðurstöður mismunandi rannsókna til að reyna að álykta um algengi áfallastreituröskunar hjá sjúklingum sem hafa fengið heila- eða hjartaáfall. Niðurstöðurnar eru sláandi enda röskunin mjög lamandi fyrir líf og lífsgæði fólks.
Fjórðungur þeirra sem fá heila- eða hjartaáfall þjást af áfallastreituröskun á fyrsta árinu eftir veikindin.
Rannsóknin, sem framkvæmd var af Columbia University Medical Center, leiddi einnig í ljós að það að þjást af áfallastreituröskun geti einnig aukið hættu sjúklingsins á því að fá aftur hjartaáfall eða deyja innan þriggja ára frá upphaflegu veikindunum.
Með það í huga hversu mikið hvert áfall ógnar heilsu og lífi hvers sjúklings þá eru þessar niðurstöður mjög mikilvægar fyrir endurhæfingu einstaklingsins og einnig fyrir heilbrigðiskerfið þegar kemur að kostnaði og nýtingu þess. Í heildina er algengi áfallastreituröskunar 13% en ef aðeins er litið til fyrsta ársins eftir veikindi þá þjást 23% sjúklinga af áfallastreituröskun og 11% þjást ennþá eftir að fyrsta árið er liðið. Þetta er gríðarlegur fjöldi og nauðsynlegt að hafa í huga að þessi röskun veldur mjög mikilli vanlíðan, heftir bata og hefur mikil áhrif á meðferðarheldni og áframhaldandi þróun sjúkdómsins. Þá getur röskunin einnig leitt til þunglyndis og misnotkunar vímugjafa.
Niðurstöður þessar sýna enn og aftur nauðsyn sálfræðilegs mats og eftirfylgni með hjartasjúklingum. Það er áfall að fá hjartaáfall og afleiðingarnar eru ekki alltaf bara líkamlegar. Að lokum vil ég einnig benda á það að makar sjúklinga geta einnig þróað með sér áfallastreituröskun. Það að verða vitni að skyndilegum veikindum maka síns getur kallað á sömu viðbrögð og hjá sjúklingunum. Það eru margir makar sem þjást en fá litla athygli frá kerfinu sem aðeins vill hugsa um sjúklinginn.
Það er mat rannsakenda í ofangreindri rannsókn að áfallastreita og aðrir sálrænir kvillar í kjölfar heila- eða hjartaáfalls séu vangreind vandamál og skorti mikið upp á þá meðferð sem nauðsynlegt sé að veita.
Mjöll Jónsdóttir
Sálfræðingur