Ég settist á bekk eins og ég var vanur, var þreyttur og móður. Mér varð hugsað til þess þar sem ég sat á bekknum hvað hann hefur skipað stóran sess í mínu lífi frá hjartaáfalli.
Ég brosti með sjálfum mér hvað einfaldur hlutur eins og einn bekkur getur breytt miklu fyrir fólk sem hefur skerta orku, geta tyllt sér niður og dregið andann um stund og horft á mannlífið.
Ég fylgdist með fólkinu sem gekk fram hjá og sumir voru að flýta sér en aðrir röltu í rólegheitunum og skoðuðu jólavörurnar í búðargluggum.
Ég held að það hafi enginn velt því sértaklega fyrir sér af hverju ég sat á bekknum enda sést ekki á mér að ég hafi hjartabilun og ýmsa aðra krankleika sem gera það að verkum að það er ekki bara gott heldur stundum nauðsynlegt að geta tyllt sér niður.
Ég fór að hugsa um það að á þessum næstum því tíu árum frá hjartaáfallinu mínu hef ég átt bæði margar gleðistundir á bekknum en jafnframt tregafullar stundir þar sem ég hef setið eftir á bekknum meðan ég hef horft á aðra sem hafa náð bata þjóta út í lífið á meðan ég sit eftir, það er erfitt.
Mér var hugsað til þess þegar ég var í endurhæfingu á Reykjalundi eftir hjartaáfallið þegar fyrsti hópurinn sem ég var með útskrifaðist en ekki ég. Ég horfði á eftir hópnum út í lífið meðan ég sat á bekknum mínum með tárin í augunum, það var erfitt. Hóparnir sem ég átti eftir að horfa á eftir út í lífið urðu fleiri en alltaf sat ég á bekknum og bar harm minn í hljóði.
En stundum þegar ég sat á bekknum settist hjá mér fólk og sagði mér sögur, sínar sögur sem hjálpuðu mér að líta fram á veginn á ný.
Mér er minnisstætt þegar ég fór í hjartaskurðinn minn rúmu ári eftir hjartaáfall, Nánast á sama sólahringnum fékk Íslendingur grætt í sig hjarta og ég fylgdist með af miklum áhuga. Ég hafði miklar væntingar um að aðgerðin myndi nú hressa mig við og ég gæti farið út í lífið aftur og tekið þátt, staðið upp af bekknum.
Ég fylgdist með unga manninum sem fékk hjartað hressast með hverjum deginum sem leið og eftir undraskamman tíma var hann komin á hestbak og tók þátt í heyskap. Ég gladdist fyrir hans hönd, hann átti þetta skilið enda mikill dugnaðarforkur.
Á sama tíma og hann tók stórstígum framförum sat ég á bekk úti undir húsvegg með kökk í hálsinum og tár á hvarmi, það gekk illa að berja í mig þreki, það var erfitt.
Stundum finnst mér mjög gott að það sjáist ekki á mér að ég sé með hjartabilun, sé fatlaður, ég fell inn í fjöldann. Mér verður þá oft hugsað til þess hvað ég sé lánsamur þrátt fyrir að hafa fengið hjartaáfall, verið vitlaust greindur og hlotið af því ævarandi skert lífsgæði og örorku.
Ég hef þrátt fyrir allt átt láni að fagna, ég eignaðist heilbrigðan strák með konunni sem ég elska og er fósturfaðir annars drengs, það er mikið lán, ég er heppinn.
Ég hef haft orku til að berjast fyrir réttindum mínum og unnið sigra, haft tækifæri á að halda þessari vefsíðu úti öðrum í sömu sporum og ég var í til stuðnings og almenningi til fróðleiks, það eru forréttindi.
Á slíkum stundum er gott að tylla sér á bekk, draga andann djúpt og þakka fyrir lífið.
Reykjavík 30. nóvember 2012
Björn Ófegisson
bjorn@hjartalif.is