Hjartaðagerðir eru margar og mismunandi allt eftir alvarleika og tegund hjartasjúkdóms eða hjartagalla. Einnig minnumst við lítillega á ísetningu gangráða/bjargráða í greininni.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um algengustu hjartaðgerðirnar sem framkvæmdar eru hér á landi.
Hjartaþræðing/ Kransæðavíkkun
Hjartaþræðing er rannsókn sem gerð er til að athuga ástand kransæða. farið er um úlnlið eða nára og þrætt upp í hjartað. Því næst er dælt skuggaefni og röntgenmyndir eru teknar til að kanna hvort þrengsli eða stíflur séu í kransæðum. Þetta er kallað vinstri þræðing. Niðurstöður rannsóknarinnar eru notaðar til að ákveða hvort og hvaða meðferð er nauðsynleg. Ef mögulegt er að víkka æðina þar sem þrengslin eru er það gjarnan gert í sömu aðgerðinni svo ekki sé þörf á annarri aðgerð. Í sumum tilfellum er það ekki mögulegt og þá þarf hugsanlega að framkvæma hjáveituaðgerð.
Hægri þræðing er þegar þrætt er frá bláæð um hægra hjartahólf og út í lungnaslagæð. Með hægri þræðingu er metinn þrýstingur í blóðrás, súrefnismettun og hversu miklu blóði hjartað dælir á hverri mínútu.
Í kransæðavíkkun er slanga þrædd niður eftir æðinni sem víkka skal út. Á enda slöngunnar er lítill belgur og er honum komið fyrir þar sem þrengslin eru mest. Belgurinn er síðan fylltur með vökva og svo er fitunni og kalkinu, sem þrengir æðina, þrýst út að æðaveggnum.
Árangur af hjartaþræðingum á Íslandi er afar góður og rannsóknir sýna að dánartíðni sjúklinga sem greinast með hjartadrep og látast innan 30 daga er með því lægsta sem sést hefur í heiminum. Því má bæta við að þegar tekin var upp sólahringsvakt á hjartaþræðingatækjum LSH varð bylting á gæðum þeirrar þjónustu sem var veitt á Landspítalanum og á hún án efa þátt í þeim góða árangri sem náðst hefur.
Gangráðsísetning
Ef meðfæddur gangráður hjartans eða leiðslukerfi þess bilar þarf stundum að setja nýjan gangráð í einstakling til að tryggja eðlilegan hjartslátt. Gangráðurinn er þannig byggður að ýmist ein eða tvær leiðslur liggja frá rafhlöðu hans eftir bláæð, niður í hægri gátt og áfram niður í hægri slegil. Verði hjartslátturinn óeðlilega hægur grípur gangráðurinn inn í, sendir rafboð til hjartans og kemur í veg fyrir svima og yfirlið. Gangráðurinn er nokkurskonar rafeindaklukka sem mælir tíma og getur samræmt starfsemi hjartahólfanna og aðlagað hjartsláttarhraða í samræmi við þarfir.
Gangráðsísetning er gerð í staðdeyfingu og tekur um eina klukkustund. Lítill skurður er gerður neðan við viðbein og er gervigangráðurinn settur undir húðina í eins konar vasa. Skurðinum er svo oftast lokað með undirsaum sem eyðist. Aðgerðin er yfirleitt sársaukalítil.
Rafhlöður gervigangráðs endast yfirleitt í 5-10 ár eftir tegundum og þegar rafhlöðurnar fara að gefa sig finnur viðkomandi fyrir því að hjartslátturinn verður hægari. Einnig getur viðkomandi fundið fyrir svima og því er reglulegt eftirlit mikilvægt. Að skipta um rafhlöðu er stutt aðgerð og þarf sjúklingur yfirleitt ekki að liggja á sjúkrahúsi í nema einn dag. Rafhlöðuskiptin eru einni gerð í staðdeyfingu og með sama undirbúningi og upphaflega gangráðsísetningin.
Bjargráður
Bjargráður er íslenskt heiti á lækningatæki sem á ensku er kallað ICD (Implantable Cardioverter Defibrillator). Bjargráðnum er ætlað að meðhöndla of hraðar og lífshættulegar hjartsláttartruflanir . Allir bjargráðar eru einnig með gangráðstækni sem grípur inn í starfsemi hjartans ef hjartsláttur verður of hægur. Bjargráður er með innbyggðri tölvu sem vaktar hjartslátt þinn stöðugt. Tækinu er komið fyrir við viðbeinið, oftast vinstra megin.
Bjargráðurinn er forritaður til að grípa inn í með hraðri örvun eða rafstuði þegar hjartsláttur fer úr skorðum. Bjargráðurinn er stilltur á efri og neðri mörk púlsins.
Ef þú færð hjartsláttarkast geymir bjargráðurinn allar upplýsingar, bæði um hjartsláttinn og eins hvernig bjargráðurinn hefur brugðist við. Þessar upplýsingar er síðan hægt að lesa af með aðstoð sérstaks tölvubúnaðar. Ef bjargráðurinn skynjar að hjartsláttur þinn verður óeðlilega hraður þá grípur hann inn í og fær hjartað til að slá eðlilega aftur.
Við sleglahraðtakt, þegar hjartslátturinn verður allt að 150–300 slög á mínútu getur bjargráðurinn gefið frá sér hraða raförvun sem oft nægir til að stöðva sleglahraðtaktinn. Stundum er þó ekki unnt að brjóta sleglahraðtakt á þennan hátt. Þá gefur bjargráðurinn frá sér rafstuð sem fær hjartað til að slá eðlilega aftur.
Ef hjartslátturinn verður of hægur örvar bjargráðurinn hjartað eins og venjulegur gangráður og viðheldur eðlilegum hjartslætti. Bæði forritunin á bjargráðnum og aflesturinn fer þannig fram að lítill nemi, sem tengdur er við tölvu, er lagður yfir bjargráðinn utan á húðinni .
Lokun á opi milli gátta
Aðgerðin er gerð til að loka fyrir blóðflæði milli gáttanna og þannig koma í veg fyrir blóðtappamyndun í ósamræmi í dælukrafti hjartans. Á sama tíma er vélindaómun framkvæmd bæði til þess að stýra ísetningunni og til að mæla stærð opsins. Grannur plastleggur er leiddur í bláæð frá hægri nára til hjartans og þannig er hnappnum komið fyrir. Aðgerðin er gerð í svæfingu og tekur 1-2 klukkustundir.
Hjartalokuaðgerð
Þegar hjartalokur vinna illa er talað um viðkomandi sé með hjartalokusjúkdóm. Lokurnar geta ýmist ekki opnast nægilega mikið eða þá lokast illa. Við það flæðir blóðið ekki til hjartahvolfana á eðlilegan máta. Þetta getur þýtt meira álag á hjartað eða að blóð geti safnast fyrir í lungum/líkama vegna þess að það flæðir ekki í gegnum hjartað eins og það á að gera. Aðgerðir til að laga eða skipta um lélegar hjartalokur eru algengar.
Viðgerð á hjartaloku felst í því að hringur er saumaður í kring um op lokunnar til að þrengja á því. Þá gætu hlutar lokunnar verið klipptir, styttir eða aðskildir til að hjálpa lokunni að opna og loka á réttan máta. Ef þarf að skipta um hjartaloku stendur valið á milli stálloku (mekanísk loka) eða lífrænnar loku (oftast svínaloka). Ef notuð er stálloka þarf ævilanga blóðþynningu sem ekki er þörf á þegar um lífræna loku er að ræða. Þetta er vegna þess að stállokur valda aukinni hættu á blóðseglamyndun.
Á meðan hjartalokuaðgerð stendur yfir má hjartað ekki slá. Þannig er blóðflæði um líkamann viðhaldið með hjarta- og lungnavél en vélin veitir blóðinu súrefni og dælir því út í líkamann. Þegar viðgerð eða hjartalokuskiptum er lokið er hjartað sett aftur á stað svo það slái af sjálfsdáðum.
Hjáveituaðgerð
Sýnt hefur verið fram á að sjúklingum með þrengsli í höfðustofni vinstri kransæðar farnist betur með hjáveituaðgerð en lyfjameðferð. Í aðgerðinni er tengt framhjá þrengslum í kransæðum bæði með því að nota græðlinga úr bláæðum ganglima sem og slagæðina innanvert á brjóstveggnum. Hjáveituaðgerðir hafa verið framkvæmdar hér á landi síðan árið 1986 með góðum árangri.
Þegar slagæðin er notuð er hún tengd á kransæðina handan við þrengslin í æðinni og þannig er blóðflæðið tryggt til hjartavöðvans. Bláæðagræðlingar gegna sama hlutverki en oftast eru notaðir þrír eða fleiri eftir því hver margar æðar eru þrengdar. Þá er annar endi græðlingsins saumaður við ósæðina og hinn endinn saumaður handan við þrengslin í kransæðinni.
Æðagúlpur
Æðagúlpur (aortic aneurysm) er þegar útbungun eða gúlpur myndast á ósæð, aðalslagæð líkamanns. Gúlparnir geta myndast hvar sem er á ósæðinni en þeir eru algengastir á kviðsvæðinu.
Með vaxandi þrýsting og útþenslu aukast líkur á því að gúlpurinn springi. Ef æðagúlpar eru stórir, valda sjúkdómseinkennum eða stækka hratt er hætta á því að æðin springi. Ef gúlpur á ósæð springur geta orðið alvarlegar blæðingar sem geta leitt til skyndidauða en dánartíðni við rof æðar er allt að 80%.
Í sumum tilfellum mælir læknir með því að sjúklingur með æðagúlp gangist undir skurðaðgerð. Hjá karlmönnum er yfirleitt mælt með skurðaðgerð ef sjúkdómseinkenni koma fram eða ef gúlpurinn er 5.5 cm í þvermál eða stærri. Hjá konum er oft mælt með aðgerð þó svo gúlpurinn sé lítill. Skurðaðgerð vegna æðagúlps fer þannig fram að gerður er skurður á maga eða brjóstkassa, síðan er gúlpurinn fjarlægður og skemmdi hluti ósæðarinnar er bættur með ágræðslu.
Hjartaaðgerðir á börnum
Árlega greinast á bilinu 40-50 börn með hjartasjúkdóma eða – galla á Íslandi. Þar sem samfélagið er lítið hefur ekki verið mögulegt að framkvæma allar hjartaskurðaðgerðir hér á landi. þannig að á hverju ári hafa börn verið send til útlanda í hjartaaðgerðir, mismörg þó.
Aðgerðunum, sem hér hafa verið framkvæmdar, má skipta í tvo flokka. Annars vegar aðgerðir þar sem hjarta- og lungnavél er notuð (opin aðgerð) og hins vegar aðgerðir þar sem slík vél er ekki notuð (lokuð aðgerð).
Hjartagallar eru margvíslegir en af þeim aðgerðum sem framkvæmdar hafa verið hér á landi hafa flest barnanna verið með op á milli gátta, nokkur vegna ósæðarþrengsla og nokkur gengust undir framhjáveituaðgerð.
Á vefsíðunni neistinn.is má lesa frekar um hjartaaðgerðir á börnum.
Heimildir: www.hjartaheill.is, www.doktor.is, www.americanheart.org, www.cts.usc.edu, www.webmd.com