Á nýju ári höldum við áfram að bjóða uppskrift helgarinnar frá Holta en að þessu sinni er boðið upp á kjúkling í hvítvíni með rósmaríni og hvítlauk. Fyrir þá sem langar að finna eitthvað sjálfir bendum við á uppskriftarvef Holta hér til hliðar á síðunni.
1 kjúklingur, skorinn í 9 bita eða blandaðir kjúklingabitar
2 msk. olía
8 litlir blaðlaukar, hvíti parturinn eða 2 venjulegir laukar í bátum
2-3 hvítlauksgeirar, skornir í sneiðar
2-3 rósmaríngreinar eða 1 msk. þurrkaðar nálar
3 dl hvítvín, má vera með salti og pipar eins og fæst í Hagkaup eða óáfengt
2-2,5 dl rjómi
Sósujafnari
40 g kalt smjör í teningum
Salt og nýmalaður pipar
Aðferð
Hitið olíu í djúpri pönnu og steikið blaðlaukinn í 2 mínútur eða þar til hann er orðinn ljósbrúnn. Takið hann þá af pönnunni og setjið til hliðar. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar og steikið á sömu pönnu í þrjár til fjórar mínútur eða
þar til hann er ljósbrúnn. Bætið þá blaðlauknum, hvítlauknum, rósmaríninu og hvítvíninu á pönnuna og setjið lok yfir. Sjóðið við vægan hita í 25 mínútur eða bakið við 160 gráður í 30 til 35 mínútur eða þar til kjarnhiti sýnir 70 gráður. Sigtið þá soðið í pott og þykkið með sósujafnara. Takið pottinn af hellunni og bætið smjörinu saman við og hrærið í með píski þar til það er bráðið. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og berið fram með salati og sellerírótarkartöflumús. Annað meðlæti sem fer vel með réttinum eru hrísgrjón eða pasta. Þá er einnig sniðugt að láta grænmeti í pönnuna og sjóða með kjúklingnum síðustu mínúturnar.