Á undanförnum misserum hefur átt sér stað töluverð umræða um glúten, kosti þess og galla. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir á mataraedi.is hefur skoðað málið og hér eru góðar upplýsingar sem gætu komið að gagni.
Glútensnautt fæði hefur verið vinsælt um nokkurt skeið. Sumir telja það bæta heilsu sína og auka vellíðan. Fræðimenn greinir hins vegar á um hvort glúten hafi slæm áhrif á heilsufar eða ekki.
Glúten er prótín (eggjahvítuefni) sem finna má í korntegundum eins og hveiti, byggi og rúg. Víða um heim ar algengt að matvæli séu merkt sem glútensnauð og margir veitingastaðir bjóða upp á glútensnauða rétti.
Glútenóþol (celiac disease)
Fyrir einstaklinga með glútenóþol er nauðsynlegt að forðast glúten alfarið. Glútenóþol er sjaldgæfur sjúkdómur þar sem viðkomandi hefur óþol fyrir ákveðnum hlutum glúten prótínsins. Í Svíþjóð eru 3-4 af hverjum 1000 börnum talin hafa glútenóþol. Talið er að sjúkdómurinn sé sjaldgæfari hér á landi. Glútenóþol er unnt að greina með blóðprufu þar sem mæld eru mótefni gegn prótíni sem kallast transglutaminasi.
Hjá einstaklingum með glútenóþol verða bólgubreytingar í slímhúð þarmanna við neyslu glútens. Oft þarf mjög lítið magn efnisins til að valda sjúkdómseinkennum. Breytngarnar í þarmaslímhúðinni hafa áhrif á meltingu og fram geta komið einkenni eins og kviðverkir, uppþemba og niðurgangur. Sjúkdómurinn getur dregið úr frásogi ýmissa næringarefna og því geta komið fram einkenni vannæringar, ekki síst hjá börnum.
Glútennæmi (gluten sensitivity)
Talið er að sumir einstaklingar þoli glúten illa þótt ekki sé um eiginlegt glútenóþol að ræða. Þetta ástand má kalla glútennæmi (gluten sensitivity eða non-celiac gluten sensitivity). Einstaklngar með glútennæmi hafa ekki bólgubreytingar í þörmum eins og sjúklingar með glútenóþol.
Nokkuð umdeilt er hversu algengt glútennæmi er. Flestir telja að það sé sé mun algengara en glútenóþol. Sést hafa tölur um að allt að 10% fólks geti upplifað vanlíðan af ýmsu tagi við neyslu glútens. Margir sérfræðingar telja þó að aukin meðvitund fólks um að vanlíðan geti fylgt glútennesyslu hafi leitt til þess að algengi þessa vandamáls sé ofmetið. Því sé glútennæmi mun sjaldgæfara en oft er haldið fram.
Glútennæmi er ekki vel skilgreint og orsaklir þessa vandamáls eru óþekktar. Sumir hafa einkenni frá meltingarfærum eins og kviðverki og uppþembu. Önnur einkenni sem lýst hefur verið eru höfuðverkur og þreyta.
Hvaða matvæli innihalda glúten?
Kornvörur eru meginsuppspretta glútens. Hveiti, spelt, rúgur og bygg innihlada glúten. Þá er fólki með glútenóþol ráðlagt að borða ekki hafra. Oft má finna glúten í unnum matvörum og því er mikilvægt að lesa innihaldslýsingar vel. Hægt er að fá glútenfrítt korn og sum bakarí selja glútenfrítt brauð.
Hvaða matvæli innihalda ekki glúten?
Glúten er ekki í kjöti, mjólkurafurðum, osti, ávöxtum, ávaxtasafa, grænmeti, kartöflum, fiski, eggjum, hnetum, hörfræi, möndlum, kókos, smjöri, matarolíu, smjörlíki og hrísgrjónum, svo framarlega að þetta séu ekki samsett matvæli sem innihalda glúten.
Glúten eða glútensnautt?
Þótt glútensnautt fæði njóti vinsælda um þessar mundir, eru lítil vísindaleg rök fyrir því að glúten sé skaðlegt fyrir þá sem ekki þjást af glútenóþoli. Flestir geta neytt glútens án vandkvæða. Sumir fullyrða að glútensnautt fæði geti hjálpað fólki að léttast, það auki vellíðan og geti jafnvel dregið úr einkennum einhverfu hjá börnum. Fyrir þessu eru þó fátækleg vísindaleg rök.
Ef þig grunar að glúten hafi slæm áhrif á heilsu þína geturðu prófað glútensnautt fræði í nokkrar vikur til að sjá hvort líðan þín batnar. Þetta getur komið til greina ef þú þjáist af óþægindum frá meltingarfærum eða þreytu, þar sem ekki hefur fundist önnur skýring. Hafa ber þó í huga að það er ekki einfalt mál að neyta glútensnauðs fæðis. Þú mátt ekki borða flest venjuleg brauð, morgunkorn, pasta, pizzur og ekki drekka bjór. Þá leynist glúten víða annars staðar, t.d. í frosnu grænmeti, sósum af ýmsu tagi, sumum lyfjum og jafnvel í sumu tannkremi og snyrtivörum. Þeir sem verða að neyta glútensnauðs fæðis vegna glútenóþols telja það yfirleitt ekki öfundsvert hlutskipti.
Ef þú ákveður að neyta glútensnauðs fæðis er nokkur hætta á að þú fáir ekki nægilegt magn af vítamínum og steinefnum. Gættu sérstaklega að því að þú fáir nóg af B-vítamínum. Góð hugmynd er að taka fjölvítamín sem ekki inniheldur glúten. Þá er einnig líklegt að trefjamagn sé lítið ef þú ert á glútensnauðu fæði. Þú getur þó að einhverju leyti bætt þetta upp með því að borða mikið af ávöxtum og grænmeti.
Hafa ber í huga að markaðsöflin ráða miklu um hvað við veljum að borða og hvað við ákveðum að forðast. Glútensnautt fæði hefur á síðustu árum orðið vinsæl söluvara. Að sjálfsögðu er það hagur þeirra sem selja slíkar vörur að trú fólks á þvi að glúten valdi vanlíðan eða sjúkdómseinkennum sé mikil. Almennt eru glútensnauðar vörur dýrari en þær sem innihalda glúten.
Eins og áður sagði er pistillinn er úr smiðju Axels F. Sigurðssonar hjartalæknis sem heldur úti mataraedi.is og docsopinion.com.