Rannsókn sem notuð er til greiningar á hjartasjúkdómum er „gölluð“ og getur leitt til þess að sjúklingar fái ranga meðferð segir sérfræðingur, en frá þessu var greint í Mail Online á dögunum.
Prófessor Nick Curzen segir að röntgenmyndataka (hjartaþræðing) sjúklinga með hjartaöng (angina) – sársaukafullur þéttingsverkur í brjóstinu- gefi ónákvæmar niðurstöður hjá fjórðungi sjúklinga.
Rannsóknin sem um ræðir er æðamyndataka (angiogram) sem framkvæmd er þannig að sjúklingur er staðdeyfður og síðan er örmjórri slöngu komið fyrir í nára eða úlnlið sem síðan er þrædd upp í kransæðarnar í kringum hjartað.
Skuggaefni er síðan dælt í gegnum slönguna á meðan teknar eru röntgenmyndir, þannig að hægt sé að greina ef um er að ræða þrengingar í kransæðunum.
Prófessor Cruzen, sem er hjartasérfræðingur hjá Southamton General sjúkrahúsinu, segir að röntgenmyndirnar gefi ekki nógu nákvæmar niðurstöður um hvort blóðflæðið sé takmarkað.
Hann segir að æðamyndataka ætti að vera notuð samhliða annarri aðferð þar sem þrætt er inn í slagæð og mældur þrýstingur og blóðflæði.
Prófessor Curzen gerði rannsókn á 200 sjúklingum sem leiddi í ljós að æðamyndataka leiddi í 26% tilfella til rangrar meðferðar.
Á meðan á rannsókninni stóð var framkvæmd æðamyndataka á sjúklingunum og læknar ákváðu í kjölfarið meðferð þeirra. Þeir undirgengust síðan seinni aðgerðina, þar sem þrýstingur og blóðflæði var mælt og læknarnir síðan spurðir hvort þeir vildu breyta meðferðinni og í 26% tilfellum gerðu þeir það.
Prófessor Curzen segir. „Niðurstöðurnar benda til þess að mat á sjúklingum með stöðuga hjartaöng sem metnir eru eingöngu með kransæðamyndatöku sé líklegt til að vera ófullnægjandi en meðferðin væri sérsniðinn að hverjum og einum sjúklingi með því að nota hina aðferðina, þar sem þrýstingur og blóðflæði er skoðað samhliða.“
Hann vill framkvæma mikið stærri rannsókn í þeirri von að það muni leiða til „meiriháttar breytinga“ á því hvernig þessar rannsóknir eru almennt framkvæmdar.
U.þ.b. 1 af hverjum 7 karlmönnum og 1 af hverjum 12 konum eldri en 65 ára þjáist af hjartaöng sem er einnig algeng hjá sjúklingum á sextugsaldri.
Hjartaöng gerir vart við sig þegar kransæðarnar sem flytja blóð til að næra hjartað þrengjast sem leiðir af sér þéttingsverk svokallaðan brjóstverk sem leitt getur út í handleggi og upp í háls.
Hjartaöng er einkenni hjartasjúkdóms og ef hann er ekki meðhöndlaður rétt getur hann leitt til hjarta eða heilaáfalls.
Þegar einkenni gera vart við sig er sjúklingum gefin tungurótartafla (nitro) og síðan önnur lyf til að hjálpa til við að koma veg fyrir sjúkdóminn eða afleiðingar hans.