Sérstök þriggja manna rannsóknarnefnd mun annast rannsókn á mistökum sem verða í heilbrigðisþjónustu, verði frumvarp sem fimm þingmenn hafa lagt fram á Alþingi að lögum. Rannsóknarnefndin mun koma í stað landlæknis, sem nú tekur við kvörtunum sjúklinga og aðstandenda og annast athugun slíkra mála.
Flutningsmenn frumvarpsins eru þau Álfheiður Ingadóttir Vinstri grænum, Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki, Valgerður Bjarnadóttir Samfylkingu, Margrét Tryggvadóttir Hreyfingunni og Þuríður Bachman Vinstri grænum.
Taki ekki bein afstöðu um sekt eða sakleysi
Að sögn Álfheiðar Ingadóttur er megintilgangur frumvarpsins að sjálfstæð og óháð rannsóknanefnd leiði í ljós hvort mistök hafa orðið innan heilbrigðiskerfisins og um leið orsakir atvika, þ.á. m. vanrækslu og mistök.
Ef af verður mun nefndin taka við hlutverki landlæknis í rannsókn mála annarra en vegna framkomu heilbrigðisstarfsmanna. Þá verður nefndinni heimilt að láta landlækni rannsaka einstök mál. Nefndin mun ekki taka beina afstöðu til þess hvort sök sé til staðar og þá skaðabótaskylda, heldur mun hún starfa með svipuðum hætti og rannsóknarnefndir samgönguslysa, sem sameinaðar verða í eina þann 1. júní.
Vanvirðing og hroki viðbrögð „kerfisins“
„Á undanförnum mánuðum hafa mörg átakanleg dæmi verið rakin í fjölmiðlum um mistök sem orðið hafa í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar og aðstandendur hafa stigið fram og tjáð sig opinberlega um alvarlegar afleiðingar af mistökum eða vanrækslu. Þeir kvarta ekki aðeins undan mistökunum, heldur fremur undan viðhorfi og viðmóti „kerfisins“ sem þeim þykir fremur einkennast af vanvirðingu og hroka en nauðsynlegum heiðarleika og auðmýkt,“ segir Álfheiður.
Þá þyki meðferð kærumála taka langan tíma, og dæmi hafi verið nefnd um að við lok athugunar sé ekki lengur unnt að koma við skaðabótakröfu. „Markmið viðkomandi með því að segja frá persónulegri og sárri reynslu hefur þó ekki verið að kalla eftir skaðabótum heldur samúð og skilningi, og til að tryggja að enginn annar þurfi að verða fyrir slíkum mistökum aftur. Menn eru fyrst og fremst að leita upplýsinga um það sem gerðis, leita sannleikans, en það er einmitt verkefni rannsóknanefnda á samgöngusviði,“ segir Álfheiður.
252 kvartanir árið 2010
Hún segir að margir hafi bent á að embætti landlæknis sé ekki best til þess fallið að rannsaka meint mistök heilbrigðisstarfsmanna, einkum lækna, á hlutlægan hátt. Mál séu lengi í athugun, eiginleg rannsókn fari ekki fram og athugun embættisins skili í fæstum tilfellum niðurstöðu.
Álfheiður bendir á að í nýjustu tölum á vef embættisins kemur fram að á árinu 2010 bárust 252 kvartanir og kærur vegna mistaka í heilbrigðisþjónustu var afgreiðslu 76 þeirra eða um 30% ólokið í mars 2011.
Afdrif þessara kvartana voru þau að einn heilbrigðisstarfsmaður var sviptur starfsleyfi en það er alvarlegasta aðgerðin er sem gripið er til af hálfu heilbrigðisyfirvalda ef kærumál er staðfest, einum veitt lögformleg áminning, þrír fengu aðfinnslu en niðurstaðan í 21 máli var ábending.
Af 176 málum sem landlæknir hafði lokið athugun í um miðjan mars 2011 höfðu 26 verið staðfest að hluta eða öllu leyti en 19 málum var enn ólokið.
www.mbl.is 19.03.2013