„Þetta gengur út á að breyta menningu,“ sagði Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, á ráðstefnu um fjármögnun heilbrigðisþjónustu á Grand hóteli í dag þar sem hann fór yfir það hvernig hafi verið tekist á við rekstrarvanda spítalans á undanförnum árum. Hann sagði að áður hefði hugsunin oft verið spítalinn fyrst. „Við viljum breyta þessu í sjúklingurinn fyrst og ég held að okkur hafi tekist það.“
Björn sagði að áður hefði hugsunin að sama skapi oft verið sú að bið væri góð því annars kæmu bara fleiri sjúklingar. Nú væri afstaðan sú að bið væri sóun bæði á tíma heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga. Eins hefði verið litið svo á að mistök gætu alltaf átt sér stað en nú væri markmiðið að útrýma mistökum.
Ennfremur sagði hann áherslu á að ljóst væri hver bæri ábyrgðina í stað þess að hún væri óljós. Hvað fjármagn varðaði hefði verið horft til þess að nýta þá fjármuni sem til staðar væru í stað þess að kalla aðeins eftir auknu fjármagni. Hann sagðist þó vona að meira fjármagn fengist til starfsemi Landspítalans enda brýn þörf á því en þetta væri spurning um raunsæi.
Lögð áhersla á að minnka sóun
Þá sagði Björn að í stað þess að tala aðeins um að minnka kostnað hafi verið lögð áhersla á að minnka sóun, gæðaeftirlitið væri byggt á nýjustu upplýsingum en ekki síðustu tveggja mánaða og að stjórnendur fylgdust ekki aðeins með daglegri starfsemi á spítalanum heldur væru á staðnum.
Hann ræddi ennfremur um þann árangur sem náðst hefði að öðru leyti í rekstri Landspítalans. Þar hefði starfsfólk spítalans tekið virkan þátt og þannig hefði ýmis daglegur rekstrarkostnaður minnkað verulega. Nefndi hann að húshitunarkostnaður hefði minnkað um 15%, rafmagnskostnaður um 10% og pappírskostnaður um 30%. Þarna væri hinn almenni starfsmaður að huga að sínu nærumhverfi
Framleiðslutengd fjármögnun
Lagði Björn ennfremur áherslu á að tekið yrði upp kerfi á Landspítalanum þar sem fjárframlög væru tengd framleiðni. Unnið hafi verið að því að koma á slíku kerfi á spítalanum fyrir hrun en því hafi verið hætt þegar hrunið átti sér stað. Slíkt kerfi væri velþekkt erlendis og hefði ennfremur verið notað á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri um nokkurra ára skeið.
Slíkt kerfi þýddi að allir deildu ábyrgð og samið væri um magn, þak og verð. Flest sjúkrahús á hinum Norðurlöndunum notuðust við slíkt kerfi þar sem 50% fjárframlaga væru föst og 50% tengd framleiðni og þannig væri tryggt að ekki væri farið umfram það fjármagn sem í boði væri.
Morgunblaðið 14.03.2013