Ég verð að játa að ég varð glaður þegar ég sá síðustu tölur landlæknis um biðlista í hjartaþræðingar aðeins væru 43 á biðlista. Sú gleði varð þó skammvinn.
Þegar ég eftir ábendingu fór að kanna málið frekar kom ýmislegt í ljós. Á landlækni.is kemur fram að biðlistinn er skilgreindur með þeim hætti að þessir 43 einstaklingar hafa beðið í meira en 3 mánuði eftir hjartaþræðingu. Landlæknir kallar þá sem beðið hafa skemur en þrjá mánuði á vinnulista.
Þetta þóttu mér satt best að segja afar slæm tíðindi. Samkvæmt mínum upplýsingum er rétt tala yfir þá sem eru að bíða eftir hjartaþræðingu 140 hvað sem listum líður. Biðlistar eru ekki gott mál en þeir virðast vera hluti af þeim veruleika sem við búum við í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi. Reyndar eru þeir að hluta til nauðsynlegir til að skipuleggja vinnu lækna og hjúkrunarfólks og í sjálfu sér ekkert við það að athuga.
Það sem mér þykir hinsvegar með ólíkindum er sú staðreynd að engin greinarmunur er gerður á biðlista í brjóstastækkun og aðrar aðgerðir sem teljast yfirleitt ekki þess eðlis að líf fólks velti á þeim og svo hinsvegar hjartaþræðingum.
Líf fólks getur oltið á því að geta komist í hjartaþræðingu sem fyrst og þurfi ekki að bíða. Dæmi eru um fólk sem er á vinnubiðlista eftir hjartaþræðingu hafi fengið hjartastopp, lent í heilmiklum hremmingum og jafnvel látist.
Þess vegna finnst mér það algjörlega glórulaust að hjartaþræðingarbiðlistinn sé settur fram á jafn villandi hátt og raun ber vitni.
Í ljósi alvarleika þá fyndist mér réttara að Landlæknir talaði um vinnulista sem væri ein til tvær vikur þegar kemur að hjartaþræðingum. Ég geri mér ljóst að mikil fjölgun er í bráðþræðingum og dánartíðni hér á Íslandi gríðarlega lág. Núverandi fyrirkomulag á skilgreiningum biðlista er samt ekki gott
Nú liggur það fyrir að þegar nálgast sumar að biðistar lengjast þó þetta sé í þokkalegu standi eins og er. Það eru sannarlega 140 manns að bíða eftir hjartaþræðingu burtséð frá skilgreiningu Landlæknis um hvað er biðlisti og hvað er vinnulisti.
Ég hef áður rætt um áhyggjur mínar af þeim tveim gömlu hjartaþræðingatækjum sem eru enn í notkun. Ég veit að nýja tækið er gott og hjálpar mikið til að vinnist vel á hjartaþræðingadeildinni.
Haft var eftir Huldu Gunnlausdóttur forstjóra LSH í fréttum um daginn að fólkið á spítalanum væri gott en tækin léleg. Það er gleðiefni að hún deili þessum áhyggjum með mér. Í ljósi þessa tækjakost hjartaþræðingadeildar legg ég til að hafist verði handa við að leggja grunnin að því að fá nýtt tæki þannig að mögulegt verði að úrelta elsta tækið. Með þessum hætti væru tvö ný tæki í gangi og þá er spurning hvar það ætti að vera staðsett.
Reykjavík 12.03.2009
Björn Ófeigs