-Auglýsing-

Trúnaðarbrestur

tar.jpgSumarið hafði verið viðburðarríkt en um leið valdið mér miklum vonbrigðum. Mér til mikillar gleði hafði ég uppgötvað að ástin byggi í andanum en ekki efninu á stað sem var handan við orðin. Í þeirri hugmynd fólst mikil huggun og mikil von þ.e. þrátt fyrir að líkami minn væri í fjötrum væri ég fær um að elska og vera elskaður . Vonbrigði mín fólust aftur á móti í því að ég og læknirinn sem bar ábyrgð á því að rétt greining á mér hafði tafist um rúmar 6 klst. í febrúar,  vorum ósammála um flest atriði sem okkur hafði farið á milli í fyrri samtölum um þennan atburð. Hann var á þeirri skoðun að fylgt hefði verið öllum reglum og ekkert væri við læknisfræðilega meðferð mína að athuga þann 9. Febrúar 2003. Þessi viðhorf hans voru væntanlega grunnurinn að synjun spítalans á bótakröfunni sem ég hafði lagt fram.

Mér var orðið ljóst að á milli mín og læknisins hafði orðið alvarlegur trúnaðarbrestur. Mér fannst kerfið hafa brugðist mér og spítalinn ekki lengur skjól heldur óvinir í hverju horni. Glíman stóð sem hæst.

-Auglýsing-

Ég átti tíma hjá lækninum seinnipartinn í ágúst og þegar ég mætti sagði ég honum að hann nyti ekki lengur trúnaðar af minni hálfu, honum brá og það kom á hann vandræðalegur svipur. Það leyndi sér ekki að honum leið ekki vel.
Ég útskýrði fyrir honum  að á milli okkar væri gjá og skilningur á atvikum við greiningu mína og meðferð væri gjörólíkur. Ég liti svo á að um læknamistök væri að ræða sem hann hefði beðist afsökunar á en hann væri á þeirri skoðun að sá skilningur minn væri á misskilningi byggður. Ég sagði honum að ég ætlaði í mál við spítalann og leita réttar míns.

Ég gekk út og mér var létt, ég hafði rekið læknirinn minn. Um leið varð ég óumræðilega dapur og sorgmæddur yfir þeirri staðreynd að væntanlega væri framundan margra ára barátta við að ná fram rétti mínum og viðurkenningu á því að um mistök hefði verið að ræða.

- Auglýsing-

Allt haustið var ég reglulegur gestur á bráðamóttökunni þar sem heilsufarið var ekki merkilegt. Ég hélt illa uppi blóðþrýstingi og var hvað eftir annað við það að líða út af. Í nánast hvert skipti sögðu læknar mér að ég ætti að vera betri og það var þungur kross að bera.

Það kom loks að því að ég hitti nýja læknirinn minn og ég treysti honum. Samt varð ég fyrir ákveðnum vonbrigðum í upphafi þar sem hann tók undir mat annarra lækna um að ég  ætti að vera brattari.

Í desember fór mér að hraka, mér leið illa með stöðuga brjóstverki og alveg ómögulegur. Um áramót fór ég að tala um það við læknirinn minn að hvað svosem hver segði þá væri eitthvað að,  þetta væri ekki eðlilegt.  Í byrjun mars fór ég í hjartaþræðingu og minn læknir var sjálfur við þræðingaborðið. Að lokinni þræðingu kom hann til mín alvarlegur í bragði og sagðist eiginlega þurfa að biðja mig afsökunar á því að hafa tekið undir þann söng að ég ætti að vera hressari.
Þrátt fyrir að mig grunaði að fréttirnar væru ekki góðar varð léttirinn að fá að heyra þessi orð gríðarlegur, ég var ekki galinn. Mitt á meðal óvina minna hafði ég eignast vin, talsmann.
Hann leit aftur á mig og sagði mér að díastolískur endaþrýstingur í vinstri slegli væri  hár. Ég setti upp spekingssvip en skildi varla eða gerði mér grein fyrir því sem hann var að segja. Eina sem ég var klár á að fréttirnar voru ekki góðar.

Við nánari athugun kom í ljós að drepið á hjartanu var svo umfangsmiðið að þegar hjartað endurmótaði sig eftir hjartaáfallið myndaðist á vinstri sleglinum gúlpur eða Aneurysm. Gúlpurinn gerði það svo að verkum að þegar hjartað dældi blóði út í líkamann blés hluti hjartans út eins og blaðra með þeim afleiðingum að dælugeta þess  var stórlega skert.
Í stuttu máli var staðan sú á vormánuðum 2004 að ég var komin með IV stigs hjartabilun og staða mín var verri og erfiðari en nokkurn hafði grunað, ég upplifði mig í raun sem deyjandi mann að öllu óbreyttu.

Ég var reiður, reiður læknunum  sem höfðu sagt við mig í heilt ár að ég ætti að vera hressari. Ég var reiður kerfinu sem spítalinn stjórnaðist af og ég var reiður út í Guð.

Reykjavík. 10. Febrúar. 2009

Björn

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-