60.000 skammtar af bóluefni gegn inflúensu eru komnir til landsins. Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnarsviði landlæknisembættisins, segir ekkert benda til að inflúensan nú verði skæðari en undanfarin ár. Einstaka tilfelli hafi greinst fyrr í þessum mánuði.
Bóluefnið dugar gegn bæði A og B stofni inflúensu. Sóttvarnarlæknir mælist til þess að áhættuhópar njóti forgangs við bólusetningu.
Allir sem orðnir eru sextugir, einnig börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og sjúkdómum sem bæla ónæmiskerfið.
Einnig allir heilbrigðisstarfsmenn sem annast þessa áhættuhópa. Þá mælist sóttvarnarlæknir til þess að forgangshópar fái bóluefni sér að kostnaðarlausu og greiði aðeins fyrir umsýslukostnað.
Þórólfur segir að undanfarin ár hafi um 50 þúsund manns látið bólusetja sig. Þeir sem ekki ætli í bólusetningu geti reynt ýmislegt annað til að forðast smit. Hann segir að hægt sé að draga úr líkum á smiti með því að þvo sér um hendurnar og öðru hreinlæti. Erfitt sé hinsvegar að forðast inflúensuna algerlega.
Öruggast sé að láta bólusetja sig. Eftir að bóluefninu hefur verið sprautað í líkamann tekur um eina til tvær vikur að mynda mótefni gegn Inflúensunni. Þórólfur segir mjög fátítt að fólk veikist af bóluefninu. Fólk geti fengið væg einkenni af bólusetningunni. Vægan roða á stungustað og hugsanlega vægan hita. Alvarleg einkenni eftir bólusetningu séu hinsvegar mjög fátíð.
Bóluefninu verður dreift til heilbrigðisstofnanna næstu daga og bólusetning auglýst á hverjum stað fyrir sig.
www.ruv.is 29.09.2008