Rauði kross Íslands hefur valið Magneu Tómasdóttur sem Skyndihjálparmann ársins 2009 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnea tók við viðurkenningu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.
Magnea bjargaði lífi föður síns, Tómasar Grétars Ólasonar, þegar hann fór í hjartastopp í sumarhúsi fjölskyldunnar á Hvalsnesi á Suðurnesjum. Magnea var þar ásamt honum, 18 mánaða gömlum syni sínum og 8 ára systurdóttur, Ernu Diljá. Tómas var að hvíla sig eftir kvöldmatinn í stofunni og þær frænkur voru að spila við borð í sama herbergi. Erna Diljá tók þá eftir því að afi var ekki eins og hann átti að sér að vera, og þegar Magnea sneri sér að föður sínum áttaði hún sig á því að hann hafði misst meðvitund og það kurraði í honum.
Magnea náði umsvifalaust í farsímann sinn og hringdi í Neyðarlínuna, tók alla púða undan höfði Tómasar og lét hann liggja áfram á hörðum bekk. Hún byrjaði strax hjartahnoð og blástur með símann á öxlinni og hélt því áfram allt þar til aðstoð barst frá Keflavík um 16 mínútum síðar. Sjúkraflutningamennirnir gáfu Tómasi 2 rafstuð og hjartað fór að slá aftur.
Magnea fékk góða aðstoð frá neyðarvörðunum og fannst hún ekki lengur vera ein um verkið eftir að hún komst í samband við Neyðarlínuna. Börnin urðu hrædd og stundum var erfitt að heyra í starfsmanni Neyðarlínu vegna þeirra. Magnea þurfti því að fela Ernu Diljá að taka soninn afsíðis og sjá um hann á meðan, og stóð sú litla sig með stakri prýði.
Þetta er í níunda sinn sem Rauði krossinn velur Skyndihjálparmann ársins. Viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem hefur á árinu veitt skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt. Sérstök dómnefnd er kölluð til að skera úr um hver hlýtur viðurkenninguna ár hvert en hana skipa fulltrúar frá Rauða krossi Íslands, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Neyðarlínunni, Landsspítala háskólasjúkrahúsi, lögreglunni og Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Tilgangur tilnefningarinnar er ekki síður að hvetja aðra til að læra skyndihjálp og vera þar af leiðandi hæfari til að veita aðstoð á vettvangi slysa og áfalla. Þess má geta að Magnea hefur nokkrum sinnum sótt skyndihjálparnámskeið og er ekki í vafa um að það hjálpaði henni í þessum erfiðu aðstæðum þar sem tók langan tíma að fá sjúkrabíl á staðinn.
Í flestum tilfellum þegar beiting skyndihjálpar hefur bjargað lífi fólks gerist það við aðstæður sem eru hluti af daglegu lífi. Oftar en ekki er það einhver nákominn sem þarf á aðstoð að halda. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var í tilefni af 112-deginum, kemur í ljós að 90% þeirra sem hafa sótt námskeið í skyndihjálp á síðustu þremur árum treysta sér til að veita lífsbjargandi aðstoð ef þörf krefur, en aðeins 37% þeirra sem ekki hafa lært skyndihjálp. Það er því ljóst að kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum fyrir björgun á mannslífi.
www.redcross.is 11.02.2010