Lyfjafalsanir eru ógn við sjúklinga og tekjulind fyrir óprúttna aðila. Baldur Arnarson sat fund um lyfjafalsanir.
Þetta segir Ingunn Björnsdóttir, sérfræðingur í lyfjanotkun í samfélaginu, sem vakti máls á því á morgunfundi Frumtaka, samtaka framleiðenda frumlyfja, og Lyfjafræðingafélags Íslands í gær, að Íslendingar ættu að varast kaup á fölsuðum lyfjum á netinu, ellegar í gegnum póstverslun, þar sem ekki er hægt að tryggja uppruna lyfsins.
Ræðir hér einkum um svokölluð lífsstílslyf og má þar nefna rislyf, skallalyf og megrunarlyf. Slík verslun getur að sögn Ingunnar verið varasöm og hvetur hún Íslendinga til að kaupa slík lyf alls ekki af netinu. Þau geti verið framleidd af óprúttnum aðilum.
Ingunn segir standa til að greiða fyrir póstverslun með lyf til landsins og því þörf á að herða reglur til að koma í veg fyrir að ólögleg lyf berist hingað eftir þeim leiðum.
„Á meðan Lyfjastofnun getur sagt að það sé bannað að kaupa lyf á netinu þá hefur hún öll tökin, en um leið og búið er að opna fyrir póstverslun frá útlöndum þarf að fara að flokka lyfin eftir uppruna,“ segir Ingunn.
„Ætlar Lyfjastofnun að hafa lista yfir þá aðila sem er allt í lagi að versla við og þá sem er ekki í lagi að versla við? Mér finnst þurfa að hugsa þetta til enda áður en bann er fellt niður við póstverslun.“
Ekki vitað hver tíðnin er
Ingunn segir ekki vitað með vissu hver tíðni falsaðra lyfja í umferð hér á landi sé. Talið sé að hún sé innan við eitt prósent í Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Japan og er þá átt við það hlutfall lyfja sem dreift er með hefðbundnum og öruggum dreifileiðum. Sé bætt við lyfjum sem dreift er með pósti eftir viðskipti á netinu eða með póstverslun kunni hlutfallið að vera hærra, þar með talið á Íslandi. Líkur séu hverfandi á að neytendur kaupi fölsuð lyf úr íslensku apóteki.
Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir flutti einnig erindi á þinginu og benti á að þótt viss hætta væri á að ólögleg lyf bærust til landsins með póstverslun mætti ekki gleyma því að almenningur gæti sparað sér lyfjaútgjöld með slíkri verslun við áreiðanlega aðila.
Máli sínu til stuðnings tók hann raunverulegt dæmi af eigin kaupum á lyfinu Simvastatin (40mg). Skammtur upp á 98 töflur kostaði 610 íslenskar kr. í sænsku apóteki, en 5739 krónur í apóteki á Íslandi, að meðtöldum 400 kr. afslætti.
Þótt hann væri almennt hlynntur þeirri viðleitni að greiða fyrir verslun með lyf mætti ekki gleyma því að lyfjafalsanir væru alvarlegt mál og full ástæða til að herða eftirlit til að koma í veg fyrir slíka verslun.
Því bæri að fagna frumkvæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um stofnun alþjóðlegs vinnuhúps (IMPACT), en á vefsíðu hópsins segir að umfang slíkrar verslunar hafi aukist á síðustu árum samhliða því sem falsararnir nái æ betri tökum á svindlinu og vöruflutningar yfir landamæri aukast. Hættan við kaup á lyfjum á netinu væri að í þeim gæti verið að finna engin virk innihaldsefni, óvissa gæti ríkt um magn af réttu innihaldsefni og spurningum um ýmis hjálparefni verið ósvarað.
Gera þyrfti greinarmun á lyfjum sem keypt væru með póstverslun frá áreiðanlegum aðilum með heimilisfang innan Evrópska efnahagsvæðisins (EES), sem lytu sömu reglum og eftirliti og söluaðilar hér heima, og kaupum á lyfjum frá óvönduðum aðilum á netinu. Almennt fagnaði landlæknir frumvarpi ráðherra.
Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði Íslendinga ekki hafa ekki uppgötvað fölsuð lyf í löglegri dreifingu á Íslandi. Tollurinn væri með eftirlit með innflutningi einstaklinga á lyfjum, sem Lyfjastofnun veitti ráðgjöf um samkvæmt þeim lögum sem giltu hér.
Þegar einstaklingar væru að flytja inn lyf frá löndum utan EES stöðvaði tollurinn þau, eyddi eða endursendi. Aukingin í flutningi falsaðra lyfja til ríkja ESB á tímabilinu 2005 til 2006 hefði verið 384% á milli ára, aukinnar tilhneigingar gætti til að falsa lífsnauðsynleg lyf.
Þetta væri ástæðan fyrir því að ESB og WHO væru að velta því fyrir sér til hvaða aðgerða þau gætu gripið, enda gæti tilhneigingar til að koma fölsuðum lyfjum inn í lögleg dreifingarkerfi. Það væri hagur stóru lyfjafyrirtækjanna að herða reglur um flutning lyfja, með því gætu þau haft meiri áhrif á verslunarmynstur.
Morgunblaðaið 28.03.2008