Samtök verslunar og þjónustu segir, að samanburður á verði 20 kostnaðarsömustu lyfjanna í apótekum í Danmörku og á Íslandi sýni, að lyfin séu að meðaltali 7,5% ódýrari hér á landi en í Danmörku.
Með kostnaðarsömustu lyfjunum er átt við þau lyf sem apótekin selja mest af í verðmætum talið og stofna jafnframt til mestra útgjalda hjá sjúklingum og Tryggingastofnun ríkisins.
Lyfsalahópur SVÞ segir, að til viðbótar veiti íslensk apótek mismunandi afslátt frá opinberu verði vegna samkeppni þeirra á milli en í Danmörku sé bannað að veita afslátt af lyfseðilsskyldum lyfjum.
Einstök lyf eru þó mun dýrari hér og önnur mun ódýrari, auk þess sem gengismunur á hverjum tíma hefur áhrif. Sem dæmi má nefna að daginn sem verðsamanburðurinn var gerður kostuðu 30 töflur af Casodex, hormónalyfi sem er algengt í krabbameinsmeðferð, sem svarar til 56.672 króna í Danmörku en 48.514 krónur á Íslandi. Þar er verðmunurinn 8.158 kr. íslenskum apótekum í vil.
Aftur á móti kostuðu 98 töflur af Simvastatin, lyfi sem er blóðfitulækkandi, sem svarar 604 krónum í Danmörku en 4239 krónur á Íslandi. Þær eru með öðrum orðum 3635 krónum dýrari hér en í Danmörku.
Vefsíða Samtaka verslunar og þjónustu
www.mbl.is 04.02.2008