„Það eru til mörg þúsund greinar um góð áhrif ómega-3 fitusýra á hjartasjúkdóma sem stangast á við það sem [Lars Rydén, prófessor við Karolinska Institutet í Svíþjóð] heldur fram í þessu viðtali, ef rétt er haft eftir,“segir Jón Ögmundsson, gæðastjóri hjá Lýsi.
Í frétt á mbl.is fyrr í dag var vitnað í aftonbladet.se en í viðtali sem þar mátti finna sagðist Rydén, sem fer fyrir einni stærstu sykursýkisrannsókn í heimi, hafa litla trú á að hylki sem innihalda ómega-3 fiskiolíu geti komið í veg fyrir hjartasjúkdóma. Þau hafi engin áhrif haft á dánartíðni meðal sjúklinga með hjartasjúkdóma í rannsókn hans. Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í tímaritinu New England Journal of Medicine.
Jón segist ekki vita hvort rangt sé haft eftir Rydén í sænska vefmiðlinum en sjálfur hafi hann kynnt sér rannsóknina og sé ekki hægt að lesa ofangreinda fullyrðingu út úr niðurstöðunum.
„Mér finnst afskaplega glannalegt að slá þessu fram því þúsundir rannsókna segja annað. Hann er að rannsaka tiltekinn hóp sjúklinga, fólk með sykursýki og annað slíkt, og segir í niðurlagi í sinni grein að það verði að hafa í huga þegar þetta er metið að sjúklingarnir eru á hjartalyfjum sem truflar áhrif ómega-3. Þar að auki er þetta lítið magn sem þeir fá af ómega-3 þannig að mér finnst það sem stendur í fréttinni í sænska blaðinu vera algerlega út í hött,“ segir Jón.
www.mbl.is 14.06.2012