„Það vildi svo heppilega til að þarna voru líka tveir hjúkrunarfræðingar af slysadeild og einn slökkviliðsmaður,“ segir Elín Laxdal Stefánsdóttir æðaskurðlæknir sem stödd var í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu þegar karlmaður á miðjum aldri fór í hjartastopp.
Í samtali við DV.is segir Elín að hún – ásamt fleirum – hafi verið í spinning-tíma í hádeginu þegar starfsstúlka kom hlaupandi inn í salinn. „Hún spurði hvort einhver læknir væri á staðnum og ég hoppa auðvitað af hjólinu,“ segir Elín og bætir við hún, hjúkrunarfræðingarnir tveir og slökkviliðsmaðurinn, hafi hlaupið niður og hafist strax handa við að hnoða manninn.
„Þetta var bara samvinnuverkefni; einn á munninum og einn á brjóstkassanum. Svo var bara unnið þar til sjúkrabíllinn kom. Við vorum mjög samtaka í þessu,“ segir hún og bætir við að maðurinn hafi verið heppinn að því leyti að reyndir heilbrigðisstarfsmenn voru á staðnum þegar atvikið átti sér stað.
„Ég held að þessi maður hafi verið heppinn að við vorum þarna. Ég held að það megi þakka því að Hreyfing, eins og fleiri heilsuræktarstöðvar reyndar, hafa verið með tilboð fyrir starfsfólk Landspítalans og það gerir það að verkum að það eru mun meiri líkur en minni að það sé reynt heilbrigðisstarfsfólk á staðnum,“ segir Elín. Hún starfaði á gjörgæsludeild hjartadeildar meðan hún var við nám í Danmörku og hefur því mikla reynslu af endurlífgun. Hún tekur það þó fram að reyndir hjúkrunarfræðingar séu ómissandi í svona aðstæðum.
Fram kom á DV.is að kona mannsins hafi haft samband við Hreyfingu og látið vita að hann væri búinn að fara í aðgerð og allt liti vel út. Var maðurinn kominn til meðvitundar og farinn að tjá sig. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, sagði að kona mannsins hafi viljað koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu manni hennar til aðstoðar.
Einar Þór Sigurðsson (einar@dv.is)
www.dv.is 31.01.2011