Líffæragjöf er eitthvað sem að allir ættu að hugleiða alvarlega og ræða við sína nánustu.
Þetta er kannski ekki þægilegt umræðuefni en það er mjög mikilvægt að nánasta fjölskylda sé meðvituð um vilja manns í þessu efni.
Það er jú þannig að engin veit fyrr en reynir á að náin ættingi þarfnist líffæra til að geta lifað áfram og þá kemur því miður stundum upp sú staða að líffæri er erfitt að fá.
Talið er að hver líffæragjafi geti bjargað allt að sex mannslífum og það er ekki lítið en skiljanlega er það stór ákvörðun að gefa úr sér líffærin ef sú staða kemur upp, en göfug.
Enginn vafi er á því að líffæraígræðslur eru í hópi mestu framfaraspora læknisfræðinnar á liðinni öld. Árið 1991 tóku á Íslandi gildi lög um skilgreiningu heiladauða og gerðu þau okkur kleift að leggja til líffæri til gjafar sjálf, en fram að því höfðu Íslendingar einungis þegið líffæri frá öðrum þjóðum án þess að leggja þau til sjálfir. Árið 1992 hófst samvinna við hin Norðurlöndin í tengslum við samtökin Scandiatransplant. Gerður var samningur um líffæraígræðslur og líffæragjafir við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg, en frá 1996 til 2009 var þessi samvinna við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Árið 2009 var síðan samningurinn við Salhgrenska endurvakinn og var það án nokkurs vafa mikið framfaraspor í þágu líffæraþega.
|
Ábendingum fyrir líffæraflutningi fer fjölgandi, m.a. vegna þess að nú er unnt að flytja fleiri líffæri en áður, t.d. þarma. Ennfremur er ónæmisbælandi meðferð orðin auðveldari og veldur minni aukaverkunum en áður. Líklegt er því að þörfin vaxi. Hins vegar hefur líffæragjöfum farið lítillega fækkandi í nokkrum nálægum löndum, t.d. Noregi og Svíþjóð. Á Íslandi eru hlutfallslega heldur færri líffæragjafir en á hinum Norðurlöndunum, á árabilinu 1993-2003 gáfu Íslendingar að meðaltali 11 líffæragjafir per milljón íbúa á ári, en 12-18 á hinum Norðurlöndunum. Á Vesturlöndum deyja nú fleiri sjúklingar sem bíða líffæragjafar heldur en þeir sem fá líffæri og lengjast biðlistar heldur í nálægum löndum.
Á skurðlæknaþingi vorið 2004 kynntu læknar og hjúkrunarfræðingur frá gjörgæsludeild og nýrnadeild Landspítalans niðurstöður athugunar á líffæragjöfum á Íslandi í 10 ár, frá 1992-2002. Kemur þar m.a. fram að þegar leitað var samþykkis ættingja fyrir líffæragjöf var erindinu neitað í um 40% tilvika. Er þetta hliðstætt og í Bandaríkjunum þar sem talan er 46%, en um tvöfalt hærra en á Spáni þar sem 23% beiðna af þessu tagi er hafnað. Upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir frá hinum Norðurlöndunum. Líffæragjafir héðan virðast samsvara þörfum Íslendinga fyrir líffæri, um 9 á ári. Þó eru helmingi fleiri einstaklingar árlega á biðlista hér á landi eftir líffærum (7-8) en þeir sem fá líffæri (3-4 árlega). Þetta endurspeglar væntanlega skort á líffærum til ígræðslu, bæði hérlendis og í Scandia transplant samstarfinu. Fæst af þeim líffærum sem tekin eru hér á landi fara til ígræðslu í Íslendinga.
Hér fyrir neðan er tengill frá Landlækni þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar.
Fyrir þá sem hafa áhuga mæli ég eindregið með því að fólk kíki inn á inn á Heart-transplant.co.uk sem er mjög áhugaverð og sett upp af John Fisher í Bretlandi en hann fékk grætt í sig hjarta árið 2000. Síðan hans er tileinkuð minningu Steven Tibbey sem hann fékk hjartað úr. Þarna er að finna mikið af efni og reynslusögum af fólki sem hefur þegið líffæri og öðlast nýtt líf.
Einnig er rétt að benda á Donationsrådet en þetta er sænsk síða um líffæragjafir í Svíþjóð. Efnið er bæði á sænsku og ensku og áhugavert hvernig frændur okkar standa að þessum málum.
Fyrir áhugasama um þetta efni má benda á að ef farið er í leitarvélina hér á síðunni þá kemur upp heilmikið af efni um líffæragjafir sem birst hefur fjölmiðlum á síðustu misserum.