Ríkið tapar á því að skera niður í lyfjamálum með því að hætta að niðurgreiða nýrri og dýrari lyf, segir Þorbjörn Guðjónsson, hjartalæknir við Hjartamiðstöðina. Líkurnar hafi aukist á því að hjartasjúklingar veikist.
Fyrir tveimur árum hættu stjórnvöld að niðurgreiða nýrri og dýrari blóðfitulækkandi lyf nema í undantekningatilvikum. Breskir fjölmiðlar hafa nú sagt frá því að heilbrigðisyfirvöld þar í landi hafi skoðað að fara sömu leið og hér er farin en hætt við af ótta við að öryggi sjúklinga yrði stefnt í voða. Til þess að ódýrari lyfin nái sömu verkan þarf að gefa þau í mun stærri skömmtun en nýju lyfin. Ný rannsókn sem gerð var hér leiðir hins vegar í ljós að þeir sem eru á ódýrari lyfjunum fái margir hverjir of litla skammta og séu í aukinni hættu á að fá hjartaáfall.
Þorbjörn segir að stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda gangi þvert gegn niðurstöðum erlendra rannsókna og leiðbeiningum Evrópusambands hjartalækna. Erlendis hafi áherslan aukist á það undanfarin ár að gefa hjartasjúklingum ný og öflug hjartalyf því þau dragi verulega úr líkum á hjartaáfalli. Þorbjörn segir að fyrir tveimur árum hafi mjög margir hjartasjúklingar hér á landi verið settir á ódýrari lyfin. Þetta gerðu stjórnvöld í sparnaðarskyni:
Þorbjörn segist telja að það sé enginn sparnaður af þessum breytingum heldur þvert á móti tap. „Ef þetta leiðir til þess að fólk veikist og þurfi endurteknar aðgerðir, hjartaaðgerðir og hjartaþræðingar, endurteknar innlagnir, ég tala nú ekki um dauðsföll, þá er enginn sparnaður í því,“ segir Þorbjörn
frettir@ruv.is
www.ruv.is 16.02.2011