Ef þér finnst gott að slaka á í heitum potti en ert með hjartasjúkdóm er mikilvægt að gæta hófsemi og hafa ákveðnar varúðarráðstafanir í huga.
Að sögn lækna getur líkaminn ofhitnað með tilheyrandi álagi á hjartað komist hann skyndilega í tæri við heitt vatn eða sé löngum tíma eytt í heitum potti.
Hjartalæknirinn Curtis Rimmerman hjá Cleverland Clinic í Bandaríkjunum segir heita potta og gufuböð geta verið hættuleg einstaklingum sem glíma við hjartavandamál. Hjartveikir eigi þó í flestum tilfellum að geta notið þess að slaka á í heitum potti án aukinnar áhættu beri þeir sig skynsamlega að.
Ráðleggingar til hjartveikra
Byrjaðu á að ræða við lækninn þinn og fá hans álit. Fáirðu leyfi til að fara í heitan pott skaltu fylgja eftirfarandi ráðleggingum til að tryggja öryggi þitt:
- Stjórnaðu/fylgstu með hitastigi vatnsins – Flestir heitir pottar búa yfir hitastýringu, auk þess sem þeim fylgir hitamælir.
- Settu þér tímaramma – Flestir sérfræðingar eru sammála um að ekki sé öruggt að baða sig í heitum potti lengur en í 5-10 mínútur í senn.
- Haltu vökvabúskap líkamans í lagi – Mælt er með að hafa flösku af köldu vatni við höndina og drekka reglulega úr henni á meðan slakað er á í heita pottinum.
Af hverju geta heitir pottar stofnað hjartanu í hættu?
Þegar heitt vatn umlykur líkama okkar hækkar líkamshitinn á sama tíma og blóðþrýstingur lækkar. Svitamyndun er leið líkamans til að kæla sig niður en þegar líkaminn er í heitu vatni virkar þessi náttúrulegi kælibúnaður ekki sem skyldi og líkaminn getur ekki stjórnað líkamshitanum.
Þegar líkaminn ofhitnar gerist eftirfarandi:
- Æðar líkamans víkka út í þeim tilgangi að kæla hann.
- Blóðflæði færist frá kjarna líkamans og til húðarinnar.
- Hjartsláttartíðni hækkar til að vinna gegn blóðþrýstingsfalli.
Venjulega ræður líkaminn vel við þessar breytingar á líkamsstarfseminni en séu undirliggjandi hjartasjúkdómar til staðar getur ofangreind atburðarás valdið of miklu álagi á hjartað og leitt til:
- Blóðþrýstingsfalls, nái hjartað ekki að dæla nægu blóði.
- Hækkaðs blóðþrýstings sértu með æðasjúkdóm, þrengingar í slagæðum eða æðakölkun.
- Svima eða yfirliðstilfinningar.
- Ógleði.
- Óeðlilegs hjartsláttar.
- Ófullnægjandi blóðflæðis til hjarta eða líkama.
- Hjartaáfalls.
Ákveðin hjartalyf geta einnig aukið álag á hjartað við þessar aðstæður:
- Beta-hemlar lækka hjartsláttartíðni og takmarka blóðflæði til húðar.
- Þvagræsilyf auka útskilnað vatns og salts.
Njóttu en farðu varlega
Dr. Rimmerman lýsir vandamálinu á þann hátt að hin skyndilega hækkun líkamshita valdi álagi á hjarta- og æðakerfið. Líkaminn þurfi að aðlaga sig að nýjum aðstæðum sem valdi aukinni hjartsláttartíðni. Hraðari hjartsláttur, sérstaklega samhliða skertri hjartastarfsemi, hjartsláttartruflunum og kransæðastíflum, geti valdið blóðflæðisvandamálum og í verstu mögulegu tilfellum hjartaáfalli.
Alltaf þurfi því að huga að eigin öryggi, jafnvel þegar einungis er um smá slökun að ræða. Hans bestu ráð til hjartveikra einstaklinga sem að vilja njóta heitra potta án þess að stefna sér í hættu er að gæta þess að baða sig ekki í of heitu vatni, drekka vel af vatni samhliða og passa vel að njóta bara í skamma stund í einu, hvort sem um er að ræða heitan pott eða gufubað.
Björn Ófeigs.