-Auglýsing-

Sykursýki 2 og insúlínviðnám

Lyfja gengst fyrir átaki þessa dagana þar sem áhersla er meðal annars lögð á heilsufarsmælingar. Jens Kristján Guðmundsson sérfræðingur í háls, nef og eyrnalækningum skrifar hér pistil um sykursýki 2 og insúlínviðnám og leggur áherslu á einstaklingsmiðaða nálgun við lausn vandans.

Sykursýki er einn af okkar algengustu efnaskiptasjúkdómum og helst í hendur við hjarta- og æðasjúkdóma og styttra æviskeið. Um 11.000 Íslendinga eru með sykursýki, þar af er sykursýki af tegund 2 í um 90% tilfella. Miðað við tölur erlendis frá er líklegt að um tíundi hver Íslendingur sé með forsykursýki eða aukið insúlínviðnám, sem er undanfari sykursýki.

-Auglýsing-

Sykursýki eykur hættuna á öðrum alvarlegum sjúkdómum eins og krabbameini, alsheimerssjúkdómi, þunglyndi og sjálfsofnæmissjúkdómum og reyndist vera einn stærsti áhættuþáttur þess að þjást af alvarlegum veikindum af völdum COVID-19.
Sykursýkin eykur einnig almennt næmi fyrir bakteríu- og sveppasýkingum og dánartíðni af völdum annarra sýkinga eins og inflúensu. Sykursýki af tegund 2 þýðir ekki einungis mikla þjáningu fyrir einstaklinginn heldur einnig mikinn kostnað fyrir samfélagið.

Samkvæmt grein sem birtist í Læknablaðinu 2021, þá tvöfaldaðist algengi sykursýki 2 í nær öllum aldurshópum, hjá bæði körlum og konum, milli áranna 2005-2018. Svipuð þróun sást í Bandaríkjunum frá 1984. Það er ljóst að til þess að forðast að þróunin verði hin sama hér á landi þarf að grípa til víðtækra og markvissra aðgerða.
Þegar læknar tala um sykursýki þá eiga þeir einfaldlega við að blóðsykurinn hafi náð skilgreindum gildum sem þarf að bregðast við. Það eru til nokkrar tegundir af sykursýki, og það eru mismunandi sjúkdómsferlar sem leiða á endanum til hækkunar á blóðsykri. Almennt er talað um sykursýki 1 og 2, auk meðgöngusykursýki. Hjá langflestum eru erfðaþættir til staðar. Óheilsusamlegur lífsstíll, mataræði og hreyfingarleysi geta kveikt á ákveðnum genum með umfram erfðum eða epigenetics og flýtt fyrir því að við fáum sykursýki.

Helstu einkenni sykursýki eru:

  • Þorsti
  • Tíð þvaglát
  • Þreyta
  • Endurteknar sýkingar í húð og slímhúð
  • Hungurtilfinning – jafnvel þótt þú sért að borða
  • Skurðir eru lengur að gróa
  • Lystarleysi og þyngdartap tengist sykursýki 1
  • Náladofi, verkur eða dofi í höndum/fætur (tegund 2)

Þessi einkenni eiga við um allar tegundir sykursýki. Ef einstaklingur er með þessi einkenni er ráðlagt að leita til læknis sem fyrst.

Í dag eru langflestir með sykursýki af tegund 2. Við greiningu er líkaminn í raun kominn á ákveðinn stað og lengra í ferlinu, sem hefur þróast á nokkrum árum eða áratugum.

Insúlín er hormón úr amínósýrukeðju sem er framleitt af betafrumum í brisinu og er aðalhormón líkamans til að halda blóðsykurmagni innan hæfilegra marka.
Ef kafað er dýpra í lífeðlisfræði sykursýki 2 er í kjarna þess ástand sem við köllum insúlínviðnám. Þá hefur næmi frumna líkamans fyrir áhrifum insúlíns minnkað og farið að reyna enn meira á getu brissins að framleiða meira insúlín til að halda blóðsykrinum í skefjum. Ef ferlið heldur áfram nógu lengi hefur það tilhneigingu til að versna og leiðir smátt og smátt til þess að virkni insúlínframleiðandi frumna tapast og deyr að lokum með þeim afleiðingum að blóðsykur byrjar að hækka. Rannsóknir benda til þess að þegar þú greinist með sykursýki 2 hafir þú þegar tapað um helmingi þeirra frumna sem framleiða insúlín. Það má líkja þessu við heyrnarskaða vegna hávaða, t.d. við vinnu. Fyrst kemur suð í eyrum og mögulega tímabundin heyrnarskerðing, sem gengur að mestu til baka. Frumurnar geta að vissu marki þolað álagið en með tímanum fara hárfrumur kuðungsins að skemmast og fækka og við töpum heyrn jafnt og þétt, og þurfum fyrir rest heyrnartæki.
Insúlín gegnir fleiri hlutverkum í líkamanum en að stjórna blóðsykri.
Það hefur áhrif á efnaskipti vöðva og fituvefs, fyrst og fremst til að stöðva niðurbrot. Þar að auki hefur insúlín áhrif á vöxt og skiptingu frumna, fitusöfnun í lifur, starfsemi æðaþels, heilbrigði beina, heila- og nýrnastarfsemi o.fl.

Insúlínviðnám er undirliggjandi þáttur í hinu alræmda efnaskiptaheilkenni, en um er að ræða samansafn klínískra þátta og blóðrannsóknarniðurstaðna sem hafa sýnt sig að auka hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Blóðþrýstingur hækkar, kviðfita eykst, gildi blóðfitu hækkar, HDL („góða kólesterólið“) lækkar og auðvitað hækkar blóðsykur einnig. En líkamanum tekst oft í lengri tíma að halda blóðsykrinum innan eðlilegra marka með háu insúlíni.
Insúlínviðnám og of hátt insúlínmagn í blóði hafa verið tengd við fjölmarga aðra langvinna sjúkdóma eins og háþrýsting og hjarta- og æðasjúkdóma, fitulifur, heilabilun, geðsjúkdóma, krabbamein, beinþynningu og slitgigt, svo fáein dæmi séu tekin. Það mætti því segja að insúlínviðnám sé tengt við almennt hrörnunarástand.

- Auglýsing-

En hvað veldur auknu insúlínviðnámi?

Erfðir og umhverfi spila þar saman. Við getum ekki breytt genum okkar og því verðum við að leggja áherslu á lífsstíl og mataræði. Til einföldunar getum við litið á fjórar grunnstoðir heilsunnar: mataræði, hreyfingu, svefn og andlega líðan. Fleiri þættir skipta máli en flestir þeirra ýta undir bólgumyndun í líkamanum. En rannsóknir hafa sýnt að lífsstílssjúkdómar séu almennt einnig krónískir bólgusjúkdómar. Þetta skapar innra umhverfi þar sem sýkingar af völdum t.d. inflúensu og Covid-19 verða líklegri og alvarlegri.

Sykursýki versnar oft í bólguástandi, t.d. sýkingar, eða versnun á gigtarsjúkdómum. Verri blóðsykurstjórn hefur líka neikvæð áhrif á ónæmiskerfið og eykur hættu á sýkingum, sem ýtir af stað vítahring.

Sykur

Mataræði er talinn vera sá þáttur í dag sem vegur hvað þyngst. Ef við fáum til dæmis daglega meiri orku en líkaminn hefur þörf fyrir, þá eykst insúlínviðnámið.
Fitufrumur líkamans fyllast af umfram fitu og vefurinn í kringum þær verður bólginn. Þessi langvarandi væga bólga er einn af þáttunum á bak við marga sjúkdóma sem tengjast offitu. Bólgumiðlandi efni losna úr frumum og fitusýrur fara að leka út í blóðrásina og setjast í önnur líffæri sem aftur eykur á insúlínviðnám líkamans enn frekar.
Það er mjög einstaklingsbundið hversu mikla fitusöfnun einstaklingur þolir áður en forstig sykursýki fer að myndast. Einstaklingar í kjörþyngd geta verið með sykursýki 2 meðan aðrir sem glíma við ofþyngd virðast hafa eðlileg sykurefnaskipti og insúlínnæmi. Í hóprannsóknum sést þó greinileg fylgni milli hækkandi þyngdar og hættu á sykursýki 2.

En hvaða þættir eru það í mataræðinu sem auka insúlínviðnám mest og leiða til sykursýki?

Í seinni tíð hafa spjótin beinst meira að unnum kolvetnum, sérstaklega sykri. Það sem við í daglegu tali köllum sykur er í raun tvísykran súkrósi sem er ein glúkósasameind tengd við aðra sykru, frúktósa. Glúkósi er það sem við köllum blóðsykur en frúktósi er ávaxtasykur.

Þegar við borðum sykur fer glúkósi út í blóðrásina og nýtist öllum frumum líkamans á meðan frúktósinn er að mestu brotinn niður í lifrinni. Rannsóknir sýna að of mikil neysla á ávaxtasykri leiðir til aukinnar fitusöfnunar og insúlínviðnáms í lifrinni sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki í blóðsykurstjórnun.

Form sykursins, ekki síður en magnið, skiptir máli. Flestar rannsóknir sýna samband milli neyslu sykraðra drykkja og ávaxtasafa í þróun sykursýki. Að borða heila ávexti er hollt því þeir innihalda trefjar sem eru góðar fyrir þarmaflóruna og seinka upptöku sykursins í ávöxtunum. Það finna það flestir að áhrif sykurs eru önnur þegar við borðum hann nánast hreinan, eins og til dæmis í sykruðum drykkjum, sælgæti eða kökum.

Rannsóknir sýna að takmörkun kolvetna hefur jákvæð áhrif á efnaskiptin þegar við erum komin með aukið insúlínviðnám eða sykursýki, og bætir insúlínnæmi og blóðsykurstjórn, jafnvel óháð þyngdartapi. Þar að auki hjálpar að setja sér ákveðin markmið. Að borða t.d. einn ávöxt milli mála, hætta að borða eftir kvöldmat og ná að minnsta kosti 12-14 tíma föstu yfir nóttina. Það hjálpar þarmaflórunni að ná jafnvægi og fækkar bakteríum sem hafa vaxið úr hófi fram. Það segir sig sjálft að ef umferð á hraðbraut er stöðug þá er aldrei tími til endurbóta og viðgerða. Það sama á við um frumur líkamans. Að nota mataræði til að „snúa við“ insúlínviðnámi og sykursýki 2 hefur verið talsvert rannsakað og eru aðallega tvær leiðir taldar árangursríkar.

Annars vegar verulega hitaeiningaskert fæði og hins vegar lágkolvetnamataræði eða ketó. Báðar leiðir hafa sína kosti og galla en leiða að svipuðu markmiði. Hitaeiningaskert mataræði leggur áherslu á fitutap sem meginatriði en kolvetnaskerðing verður einnig óhjákvæmileg hliðarverkun. Lágkolvetnamataræði leggur áherslu á takmörkun kolvetna en hliðarverkunin verður iðulega fitutap þar sem einstaklingar finna oft fyrir aukinni seddu og minnka sjálfkrafa hitaeiningainntökuna.

Sama hvor leiðin er farin er ráðlagt að viðkomandi sé undir leiðsögn sérfróðra, ekki síst ef um undirliggjandi sjúkdóma og lyfjainntöku er að ræða. En allir geta sjálfir dregið úr óþarfa sykurnotkun og lagt aukna áherslu á ferskan, lítið unnin, næringarríkan og fjölbreyttan mat.

Hreyfing

Regluleg hreyfing ein og sér hefur takmörkuð áhrif á fitutap en hefur gríðarlega jákvæð heilsufarsleg áhrif, meðal annars að bæta insúlínnæmi. Hreyfingin eykur upptöku blóðsykurs í vöðvana óháð insúlíni, auk þess sem vöðvarnir losa boðefni, svokölluð myokine, sem virðast vera bólguhamlandi og bæta insúlínnæmi. Á móti hefur mikil kyrrseta neikvæð áhrif á þessa ferla og eykur insúlínviðnám. Allir ættu því að gefa sér sem oftast tíma til að stunda hreyfingu sem þeir hafa ánægju af.
Nýlegar rannsóknir frá Kaliforníuháskóla, UCLA, benda til þess að því meiri vöðvamassa sem eldri Bandaríkjamenn hafa því meiri líkur eru á langlífi. Niðurstöðurnar renna enn frekar stoðum undir það að heildarlíkamssamsetning – en ekki hinn almenni líkamsþyngdarstuðull, eða BMI – spái betur fyrir dánartíðni af öllum orsökum.

Margar rannsóknir hafa sýnt að fólk með sykursýki 2 missir vöðvamassa og styrk hraðar með aldri en fólk með eðlilegan blóðsykur. Þess vegna er skynsamleg beiting styrktarþjálfunar mikilvæg til að viðhalda vöðvamassa og lífsgæðum.
Reglulegur og góður svefn skiptir einnig miklu máli. Ef svefn er stuttur eða óreglulegur eykst bólgumyndun og insúlínviðnám í líkamanum og er það mælanlegt jafnvel eftir aðeins eina erfiða nótt.

Yfirferð okkar um sykursýki 2 lýkur hér en vert er að benda á að sem betur fer hafa lífsstílsbreytingar góð áhrif á líkamlegt ástand, sérstaklega þyngdartap. Við nefndum í þessu sambandi að takmarka kaloríur, auka hreyfingu og að neyta trefjaríkara mataræðis og að sneyða hjá unnum matvælum. Að léttast og stunda líkamsrækt snýr við breytingum efnaskipta sem fylgja sykursýki 2 og getur því verið áhrifarík leið til að draga úr hættu á sýkingum og alvarleika veikinda. Það er ljóst að það þarf grettistak til að snúa þróuninni við en forvarnirnar byrja á heimilinu og hjá hverjum og einum.

Taktu lífsstíl þinn alvarlega og forðastu sykursýki af tegund 2. Það er til mikils að vinna!

Pistillinn er unninn í samvinnu við Lyfju.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Jens Kristján Guðmundsson
Jens Kristján Guðmundsson
Jens Kristján Guðmundsson, sérfræðingur í háls, nef og eyrnalæknir sem leggur áherslu á einstaklingsmiðaða nálgun.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-