-Auglýsing-

Vonbrigði

handsSumar 2003. Sú staðreynd að veikjast 37 ára gamall svo alvarlega að lífi mínu var ógnað var ákaflega sorgleg.  Ekki síst í ljósi þess að ef ekki hefðu átt sér stað mistök við greiningu mína hefði kannski ekki farið jafn illa og raunin varð. Sem betur fer áttaði ég mig ekki á því hversu illa ég var staddur í upphafi og þaðan af síður gerði ég mér grein fyrir því hvað þetta þýddi fyrir mig til lengri tíma og umskiptin sem verða myndu í lífi mínu um ókomna tíð.

Það að ég gerði mér enga grein fyrir því hvaða þýðingu það hefði, sem fyrir mig hafði komið hefur sjálfsagt gert það að verkum að töluvert ósamræmi hefur kannski verið á milli þess sem ég sagði og þess sem fólk raunverulega sá og fann þegar það hitti mig. Það má segja að ég hafi nánast verið ósjálfbjarga fyrstu mánuðina eftir áfallið og þurfti aðstoð við flesta hluti utan og innan heimilis.  Sú staðreynd að ég gerði mér enga grein fyrir því sem ég væri raunverulega lentur í hjálpaði mér sennilega verulega mikið því mér vannst meiri tími til að átta mig á aðstæðum mínum. Ég held svei mér þá að þessi viðbrögð mín hafi hreinlega komið í veg fyrir að ég hafi bókstaflega bugast,  lagt árar í bát og gefist upp.

-Auglýsing-

Það sem einkenndi mína göngu á leiðinni til baka, voru fyrst til að byrja með vonbrigði. Endalaus vonbrigði þegar ég rakst á veggi og fann að ég gat ekki lengur það sem mér áður þótti svo sjálfsagt.

Mér er minnisstætt þegar ég hóf endurhæfinguna mína á Reykjalundi u.þ.b. 6 vikum eftir hjartaáfall. Ég var ekki mikill bógur þegar ég kom en hugsaði með mér að já  það er eðlilegt að þetta sé erfitt til að byrja með. Ég fór í fyrsta þrekprófið mitt og var fluttur á sjúkrabörum inn á sjúkradeild.  Vonbrigði mín voru mikil og þar sem ég lá að jafna mig eftir þrekprófið varð mér ljós sú staðreynd að ég væri illa staddur en áttaði mig kannski ekki á því hversu illa staddur. Ég var ósköp einn og lítill í mér, tárin runnu niður andlit mitt, ég reyndi að bera mig mannalega en ég var ráðþrota.
Næstu dagar fóru í það að ég reyndi að staðsetja mig og það var erfitt. Á göngum Reykjalundar varð á vegi mínum fólk sem ég átti erfitt með að samsama mig við. Mér fannst ég ekki eiga samleið og ef ég átti samleið þá velti ég því fyrir mér af hverju ég hefði ekki mátt deyja. Þetta var erfitt allt saman og illskiljanlegt en ef það var einhver staður til í veröldinni þar sem ég hafði gott af því að vera á þessum tímapunkti þá var það einmitt á Reykjalundi. Það var mikil huggun í því fólgin eftir allt  sem á undan var gengið að þarna var mér ætíð mætt nákvæmlega á þeim stað sem ég var staddur á í það og það skiptið.

- Auglýsing-

Ég var farinn að átta mig á því að ég gæti kannski ekki gert sömu kröfur til mín eins og áður og heldur ekki þær kröfur sem ég kannski helst vildi. Mér hafði ekki tekist að halda í við hópinn sem byrjaði um leið og ég og það voru mikil vonbrigði. Ég sá einstaklinganna innan hópsins leggja sig fram við æfingar og veruleg breyting átti sér stað hjá þeim vel flestum. Þegar nær dró útskrift átti ég spjall við endurhæfingarlækninn minn og hann færði mér þau tíðindi að ég myndi ekki útskrifast með hópnum en ég mætti vera lengur. Mér féll þetta þungt en bar mig vel og á úrskriftardaginn fylgdist ég með samferðarfólki mínu ganga glatt út í vorið á meðan ég sat á bekk, þungt fyrir brjósti og með kökk í hálsi. Það rann upp fyrir mér að ég átti langa göngu fyrir höndum.

Áður en ég var útskrifaður af Reykjalundi í þetta skiptið þá átti ég efir að fylgjast með fleiri hópum koma og fara en alltaf sat ég eftir. Þetta var erfiður tími og það voru mörg kvöldin þar sem ég vætti koddann minn og harmaði örlög mín.

Þó ég gerði mér ekki grein fyrir því, mitt í þessum harmleik mínum, átti sér stað á sama tíma mikið aðlögunarferli innra með mér. Smátt og smátt áttaði ég mig á því að samferðarfólk mitt á Reykjalundi voru jafningjar mínir og og smám saman komst ég niður á jörðina varðandi raunverulega getu mína.

Vonbrigði mín héldu þó áfram og nú snerust þau að miklum hluta til um að eftir að mér var ljóst að hjartað mitt væri illa skemmt og virkaði illa fann ég hvernig karlmennskuímynd minni var ógnað. Ég fór helst ekki mikið á meðal fólks og forðaðist að vera utandyra eftir að tók að skyggja. Ég sem alltaf hafði verið stór og sterkur upplifði hvað ég var algjörlega ófær um að verja mig ef ég þyrfti á því að halda. Frumstætt ekki satt, en þessi tilfinning mín var svo sannarlega sterk og olli mér miklum óþægindum.
Setjandi þetta í samhengi þá má segja að í þessu ferli hafi raunverulega runnið upp fyrir mér að líf mitt yrði aldrei hið sama og áður og flestir mínir mælikvarðar á karlmennsku þörfnuðust gagngerrar endurskoðunar.
Það voru mikil vonbrigði sem fylgdu þessari uppgötvun minni og ég átti sannarlega í mikilli tilvistarkreppu.

Samhliða þessu urðu miklar breytingar á líkama mínum þar  sem ég léttist mikið og fann karlmennsku mína nánast leka niður, mér hætti að rísa hold og ég fann hvernig brothætt sjálfsmynd mín molnaði niður.
Þrátt fyrir að líkamlegt atgervi mitt mætti muna sinn fífil fegurri þá held ég samt svona eftir á að hyggja að andlegt atgervi mitt hafi tekið framförum á þessum tíma. Öll þessu endalausu vonbrigði með heilsufarið neyddu mig til sjálfsskoðunar og uppgjöf var ekki lengur valkostur. Ég var viðkvæmur og grét mikið, þetta var erfitt, en mig langaði ekki lengur til að deyja og leitaði til trúarinnar eftir huggun í einsemdinni og óttanum.
 
Á þessu tímabili, mitt í öllum vonbrigðunum lærðist mér meiri auðmýkt og æðruleysi en ég hafði lært allt mitt líf fram að þessu.

Minningabrot frá fyrrihluta árs 2003.

Árósum 31.01.2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-