Þingflokkur VG lýsir þungum áhyggjum af ástandinu í heilbrigðiskerfinu og því upplausnarástandi sem þar er að skapast vegna framgöngu heilbrigðisráðherra í skjóli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
Segir flokkurinn í ályktun, að mikilvægustu heilbrigðisstofnunum landsmanna sé haldið í fjárhagslegri spennitreyju, vinnuálag fari vaxandi á þegar undirmönnuðum deildum, vöktum sé breytt í óþökk starfsfólks og nú sé hafin handahófskennd einkavæðing einstakra þátta heilbrigðisstarfseminnar eða heilla deilda.
„Afleiðingar alls þessa birtast nú m.a. í hópuppsögnum sem að óbreyttu munu lama ómissandi kjarnastarfsemi í heilbrigðisþjónustunni. Að lokum gefast stjórnendur upp fullsaddir af skeytingarleysi heilbrigðisráðherra og hrokafullri framkomu. Alvarlegra er þegar þeir eru beinlínis hraktir úr starfi eins og nú hefur gerst með æðstu stjórnendur Landspítalans. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs mun ganga eftir því að upplýst verðu um það mál,” segir í ályktuninni.
Þá segir VG, að á Alþingi brjóti Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, blað og hreinlega neiti að standa fyrir máli sínu gagnvart því hinu sama þjóðþingi og hann sæki umboð sitt sem ráðherra til. Með því sé brotin stjórnskipuleg grundvallarregla í þingræðisríki.
„Haldi ráðherra uppteknum hætti er engin spurning hvort hlýtur að víkja, ráðherrann eða þingræðið og heilbrigðiskerfið. Vinstrihreyfingin-grænt framboð mun ekki láta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar komast þegjandi og hljóðalaust upp með að vinna óbætanleg skemmdarverk á heilbrigðiskerfinu og flæma þaðan burtu í stórum stíl mestu verðmæti þess, starfsfólkið. Heilbrigðiskerfið og mannauður þess er margfalt mikilvægara en einn hrokafullur ráðherra, það er dýrmætara en heil ríkisstjórn.”
www.mbl.is 15.03.2008